Tæplega 67 prósent landsmanna telja að mest þörf sé á umbótum í heilbrigðiskerfinu hér á landi, samkvæmt niðurstöðum nýlegrar skoðanakönnunar frá Félagsvísindastofnun.
Þegar svarendur í könnunnni, sem framkvæmd var dagana 7.-26. mars, voru beðnir um að svara því í hvaða kerfi þeim þætti mest þörf á umbótum sögðu 66,8 prósent svarenda, alls 746 af þeim 1.117 sem svöruðu spurningunni, að heilbrigðiskerfið væri þar efst á lista.
Næstflestir svarendur, eða 9,6 prósent, sögðu mestra umbóta þörf í sjávarútvegsmálum og 9,4 prósent svarenda nefndu samgöngukerfið. Aðrir valkostir voru velferðarkerfið, menntakerfið og landbúnaðarkerfið.
Umrædd könnun var framkvæmd fyrir matvælaráðuneytið, sem liður í þeirri stefnumótunarvinnu sem nú á sér stað í málaflokki sjávarútvegsmála undir heitinu Auðlindin okkar.
Kjósendur allra flokka á sama máli
Í niðurstöðum könnunarinnar eru svör við öllum spurningum hennar brotin niður eftir bakgrunnsbreytum. Meirihluti væntra kjósenda allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi settu umbætur í heilbrigðiskerfinu efst á lista og var hlutfallið frá rúmum 53 prósentum hjá kjósendum Vinstri grænna og upp í 75 prósent hjá kjósendum Flokks fólksins.
Til viðbótar við þau tæpu 67 prósent sem settu heilbrigðiskerfið efst á blað í könnun Félagsvísindastofnunar settur 20,3 prósent svarenda í könnuninni heilbrigðiskerfið í annað sæti. Í heildina voru því ríflega 88 prósent svarenda með heilbrigðiskerfið efst eða næst efst á lista yfir þau kerfi, eða málaflokka, þar sem mest þörf er á umbótum.
Félagsvísindastofnun vann samantekt um niðurstöðurnar úr þessum spurningum og gaf málaflokkunum heildarvægi eftir því hve oft þeir voru nefndir í efstu þremur sætunum.
Heildarvægið var reiknað þannig að það atriði sem var valið í fyrsta sæti fékk þrefalt vægi, það sem var í öðru sæti fékk tvöfalt vægi og það sem var sett í þriðja sæti á listum svarenda fékk einfalt vægi.
Þegar þetta var allt reiknað saman fengu heilbrigðismálin rúmlega 41 prósent heildarvægi, þar á eftir kom velferðarkerfið með 16,5 prósent vægi og svo menntakerfið og samgöngukerfið með um 14 prósent vægi. Neðst voru svo sjávarútvegsmál með 9,6 prósent vægi og landbúnaðarkerfið með 4,6 prósent heildarvægi.
Athugasemdir