Í fyrra keyptu fjárfestar hlutdeildarskírteini í íslenskum verðbréfasjóðum, bæði þeim sem fjárfesta í skuldabréfum og hlutabréfum, fyrir um 470 milljarða króna. Slíkir leystu hins vegar 566 milljarða króna út úr sjóðunum á sama tíma. Á árinu 2022 voru innlausnir því 94 milljörðum krónum meiri en sala á hlutdeildarskírteinum.
Það sem af er þessu ári hefur þessi þróun haldið áfram. Í janúar og febrúar voru seld hlutdeildarskírteini í íslenskum verðbréfasjóðum fyrir rúma 56 milljarða króna, en 82 milljarðar króna teknir út úr þeim. Á 14 mánuðum hafa því innlausnir verið 122 milljörðum krónum umfram það sem keypt í sjóðunum.
Þetta má lesa út úr hagtölum sem birtar voru nýverið á vef Seðlabanka Íslands.
Neikvæð afkoma hjá hlutabréfasjóðum
Í kjölfar þess að kórónuveirufaraldurinn skall á gripu stjórnvöld á Íslandi, og víðar um heim, til ýmissa aðgerða til að örva eignamarkaði. Hlutabréf ruku upp í virði í kjölfarið og í mörgum löndum, meðal annars á Íslandi, varð til bóla á íbúðamarkaði. Afleiðingin varð meðal annars sú að hlutabréf í öllum félögunum sem skráð voru á aðalmarkað Kauphallar Íslands hækkuðu á árinu 2021. Alls hækkaði heildarvísitala hlutabréfanna um 40,2 prósent.
Í fyrra versnuðu aðstæður, verðbólga fór að láta á sér kræla og fjármagn út um allan heim varð dýrara. Alls hækkuðu bréf í níu félögum sem skráð eru á Aðalmarkað en lækkuðu í 14 félögum. Heildarvísitalan lækkaði um 17 prósent.
Þessi kúvending hafði áhrif á áhuga fjárfesta á því að eiga í innlendum hlutabréfasjóðum. Frá miðju ári 2020 og fram í janúar í fyrra höfðu fjárfestar keypt hlutdeildarskírteini í slíkum sjóðum fyrir tæplega 82 milljarða króna, en innlausnir á sama tímabili voru einungis um 38 milljarðar króna. Því voru seld hlutdeildarskírteini fyrir 44 milljörðum krónum meira en það sem tekið var út úr sjóðunum á þessu tímabili.
Síðastliðið ár hefur þessi staða snúist algjörlega við. Á vef Keldunnar má sjá 12 mánaða ávöxtun 16 íslenskra hlutabréfasjóða. Þar kemur fram að þeir hafi allir skilað neikvæðri afkomu síðastliðið ár, á bilinu -8,23 til -16,51 prósent.
Þeir sem eiga í sjóðunum þurfa samt sem áður að greiða þóknanir til þeirra, sem í flestum tilfellum eru hlutfallslega hærri en gengur og gerist alþjóðlega. Frá byrjun febrúar 2022 og til loka febrúar síðastliðins voru seld hlutdeildarskírteini fyrir rúmlega 22 milljarða króna. Á sama tíma seldu fjárfestar hlutdeildarskírteini í sjóðunum fyrir 34 milljarða króna.
Heimili og atvinnufyrirtæki minnka stöðu sína
Þegar eigendur hlutdeildarskírteina í öllum sjóðum, jafnt skuldabréfa- og hlutabréfasjóðum, eru skoðaðir þá kemur í ljós að það eru tveir hópar eigenda sem hafa bætt við sig hlutdeildarskírteinum og hlutabréfum í verðbréfasjóðum umfram aðra hópa frá byrjun síðasta árs.
Þar ber fyrst að nefna fjármálageirann sem átti rúmlega 537 milljarða króna í íslenskum verðbréfasjóðum í lok febrúar. Það er um 22 milljörðum krónum meira en þeir áttu í lok janúar 2022, en bankar eru eigendur stærstu sjóðstýringafyrirtækja landsins. Lífeyrissjóðir hafa hlutfallslega bætt mestu við sig og áttu hlutdeildarskírteini í íslenskum sjóðum fyrir 295 milljarða króna í lok febrúar. Það er 28 milljörðum krónum meira en þeir áttu í janúar 2022.
Á sama tíma hafa atvinnufyrirtæki og heimili landsins minnkað eignir sínar í sjóðunum. Atvinnufyrirtækin áttu fyrir 138 milljarða króna í sjóðum í lok febrúar sem er 28 milljörðum krónum minna en rúmu ári áður. Heimilin áttu hlutdeildarskírteini up á 308 milljarða króna í febrúar 2023 sem er 28 milljörðum króna minna en þau áttu þrettán mánuðum fyrr.
Athugasemdir