Ekki gilda sérstakar reglur um aflífun lembdra áa, ekki frekar en annarra fenginna dýra, segir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir spurð út í örlög alls þess sauðfjár og óborinna lamba sem til stendur að aflífa af bænum Bergsstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu eftir að riðutilfelli var staðfest þar nýverið.
Féð verður flutt að sláturhúsi og það aflífað í yfirbyggðri sláturhúsrétt með skoti í höfuðið, eins og gert er við hefðbundna slátrun. Þar með berst ekki lengur súrefni til fósturs og það deyr. Að sögn Sigurborgar er miðað við að dýr sem gengin eru lengra en 90 prósent meðgöngunnar séu ekki flutt frá dvalarstað sínum til aflífunar „en féð er gengið skemur á meðgöngu í þessu tilviki“.
Riðan handan við ásinn
Á Bergsstöðum eru 690 kindur og „öllu máli skiptir að aflífa þær sem fyrst,“ segir Sigurborg. Þá verður einnig að aflífa allt það fé sem selt hefur verið frá bænum síðustu árin. Bergsstaðir eru gott kynbótabú og bændur þar „vandaðir og varkárir,” segir Sigurborg.
Landinu er skipt upp í varnarhólf gegn sauðfjársjúkdómum og Miðfjarðarhólfið, sem Bergsstaðir eru innan, hefur hingað til verið alfarið laust við riðuveiki. Þótt hætta á smiti hafi verið til staðar um langa hríð, ekki síst vegna þess að stutt er í bæi í næsta hólfi þar sem riða hefur greinst reglulega undanfarin ár, segir Sigurborg tíðindin „gríðarleg vonbrigði fyrir alla“ – en fyrst og fremst fjárbændur á svæðinu, þeirra sem nú þurfa að fella sitt fé og þeirra sem búa við óvissuna um hvort sjúkdómurinn kunni að leynast í hjörðum þeirra.
Virkilega eina leiðin?
Spurningar hafa vaknað, m.a. á spjallsíðum sauðfjárbænda, um hvort tími sé kominn til að breyta aðferðafræðinni í baráttunni gegn riðu - hvort virkilega sé þörf á því að fella allt fé á bæjum þar sem nokkur tilfelli riðu greinast.
Sigurborg telur aflífun einu aðferðina sem hægt sé að beita við þessar aðstæður. Sjúkdómurinn geti verið mjög smitandi, valdi ávallt dauða, sé aðeins hægt að greina með sýni úr heila og hvorki sé til lyf né bóluefni gegn honum. Og í raun borin von að slíkt verði að veruleika. Það skýrist af því að smitefnið sem veldur riðu er prótein sem hvorki er veira né baktería.
Við höfum miklar áhyggjur af því að riðu sé að finna í fé á öðrum bæjum í grennd við Bergsstaði.
Einkennileg hegðun
Riða er hægfara heilahrörnunarsjúkdómur. Einkennin geta verið ýmis konar. Nafnið riða er komið til af því að kindurnar fara að ganga undarlega, „slettast til í gangi,“ útskýrir Sigurborg, vegna þess að þær missa mátt í afturfótunum. En skringileg hegðun, tin í höfði og kláði vegna taugaverkja eru einnig meðal einkenna.
Bændurnir á Bergsstöðum eru vandaðir og til „mikillar fyrirmyndar í öllum aðbúnaði,“ ítrekar Sigurborg. „Þeir þekkja sín dýr það vel að þeir komu strax auga á að ekki var allt eins og það átti að vera.“ Að það örlaði á einkennilegri hegðun, að ein kindin var orðin “óeðlileg til augnanna” og ólík sjálfri sér. Þeir höfðu þegar í stað samband við Matvælastofnun sem sendi fólk á vettvang til að taka sýni sem svo reyndust staðfesta riðuna.
Ekki vitað hvernig smitið barst
Enn er ekkert vitað hvernig smitið barst inn á Bergsstaði. Og í raun er ekki hægt að útiloka að það hafi borist á aðra bæi í sama hólfi og þaðan á Bergsstaði. Frá því að smitefni berst inn í dýrið og þar til sjúkdómseinkenni koma fram geta liðið 1-2 ár, jafnvel allt að fimm ár. Því er að mati Sigurbogar ekki hægt „að vera með einhverjar getgátur“ um hvaðan smitið nákvæmlega kom og hvenær.
Smit getur borist með ýmsu móti svo sem fóðri, búnaði og jafnvel fólki. En helsta smitleiðin er beint frá dýri til dýrs. Að drekka úr sömu drykkjarskál og éta úr sömu jötu eru t.d. þekktar smitleiðir.
„Í þessu tilviki er í raun örstutt til þekktra riðubæja í öðru hólfi, bæja sem eru handan við ásinn liggur mér við að segja,“ segir Sigurborg. „Á milli er varnargirðing sem á að vera held. En kindur eru nánast eins og kettir, þær fara sínar leiðir.“
Hverfandi smithætta á fjalli
Senn líður að sauðburði og að honum loknum er fé rekið á fjall. Þarf að gæta sérstaklega að einhverju í því sambandi?
„Það er hverfandi smithætta þegar féð er á beit,“ byrjar Sigurborg á að útskýra. „En hættan er mikil í kringum sauðburð því þá er smitefnið í svo miklu magni.“ Riða smitast með snertismiti og því hættan mest þegar þéttleikinn er mikill í fjárhúsunum. Að auki eru lömb meðtækilegri fyrir smiti.
„Við höfum miklar áhyggjur af því að riðu sé að finna í fé á öðrum bæjum í grennd við Bergsstaði,“ segir Sigurborg. Þær áhyggjur eru ekki síst tilkomnar vegna þess að Bergsstaðir eru mjög gott fjárræktarbú og hrútar frá bænum hafa verið eftirsóttir til kynbóta. Því hefur töluvert af líffé, líkt og það er kallað, verið selt á aðra bæi innan hólfsins. Á áratug hafa tæplega 100 dýr verið seld frá Bergsstöðum og á síðustu fimm árum rétt innan við 40 dýr. Þar af eru tuttugu lifandi í dag.
Fella þarf öll þau dýr sem fyrst og rannsaka heila þeirra, nánar tiltekið mænukylfu heilans, til að fá úr því skorið hvort riðuveiki greinist.
Yfirvofandi hætta
Höfum við sofnað á verðinum í baráttunni við riðuveikina?
„Í þessu tilviki þá er það að mínu mati ekki raunin,“ svarar Sigurborg. Um það vitni sú staðreynd að aldrei hafi komið upp hefðbundin riða í Miðfjarðarhólfi áður. Árið 2008 greindist óhefðbundið afbrigði riðuveiki (NOR98) á bæ við Hrútafjörð, en það afbrigði er ekki smitandi. „Sauðfjárbændur í Miðfirði eru mjög meðvitaðir um riðuna handan við ásinn. Þeir hafa því verið sérstaklega varkárir. En af því að virkt riðusvæði er í nokkurra kílómetra fjarlægð hefur þetta vissulega verið yfirvofandi hætta.“
Frá og með árinu 2019 hefur riða verið staðfest á 11 bæjum. Allir eru þeir á tiltölulega afmörkuðu landsvæði í Vestur-Húnavatnssýslu annars vegar og í miðjum Skagafirði hins vegar.
Þrátt fyrir þennan fjölda, sem mikið hefur verið fjallað um í fréttum síðustu misseri, ítrekar Sigurborg að mikill árangur hafi náðst við að hefta útbreiðsluna frá því að aðgerðir í þá veru hófust formlega árið 1986. Enn sé stefnt að útrýma riðu.
Þegar riða kemur upp á bæ má samkvæmt verklagsreglum ekki halda fé í tvö ár á eftir. Í tvo áratugi eru hins vegar sett höft á allt hólfið sem um ræðir og m.a. bannað að flytja fé á milli bæja sem og á öllu því sem mögulega getur flutt með sér smitefni, s.s. hey, torf, tæki og tól.
„Við auðvitað krossum fingur og vonum að þetta sé einskorðað við þennan bæ,“ segir Sigurborg.
Flókinn en hraður undirbúningur aðgerða
Að flytja allt féð frá Bergsstöðum í sláturhús, og hræin þaðan í sorpbrennslustöðina Kölku á Suðurnesjum, er viðamikil og mannaflsfrek aðgerð. Fyrir utan þennan flutning þarf svo að taka sýni úr heila hvers einasta dýrs.
Það eru því mörg púsl sem þurfa að koma saman áður en hafist er handa, en vegna mikils umfangs verður að áfangaskipta aðgerðum. Undirbúningur hefur gengið með ótrúlegum hraða, allir hlutaðeigandi hafa lagst á eitt við að finna lausnir og hófust aðgerðir á miðvikudag. „Þetta er mjög þungbært fyrir alla,“ segir Sigurborg. „En það eina sem hægt sé að gera enn sem komið er.“
Von kviknar
Verndandi arfgerðin ARR fannst hér á landi nýverið, ræktun sauðfjár með þessa arfgerð auk annarra arfgerða sem taldar eru verndandi gegn riðu er komin á fullt skrið. „Því hraðari útbreiðsla verndandi arfgerða því betra, að 15–20 árum liðnum þurfum við vonandi ekki lengur að skera niður.“
Athugasemdir (1)