Það var myrkur dagur í sögu mannréttinda á Íslandi þann 15.mars síðastliðinn. Ríkisvaldið kaus þá um að leyfa pólitík að trompa mannréttindi. Til hamingju Alþingi, ykkur hefur tekist að sanna að Ísland sé fjandsamlegt flóttafólki og núna verður það staðfest í lögum. Þið hleyptuð í gegn ofbeldisfullu og siðspilltu frumvarpi.
Grimmustu útlendingalögin á Norðurlöndunum. Hvílíkur sigur! Þingmenn seldu öll sín gildi og sálir sínar með. Hvernig sofið þið á næturnar? Vitandi að þið séuð að svipta fólk grundvallarmannréttindum þeirra, öryggi og tækifæri til betra lífs? Þetta er tilgangslaus réttindaskerðing fólks á flótta.
Þar sem Guðni Th. Jóhannesson er búinn að skrifa undir nýju útlendingalögin, er okkar eina von sú að lögin verði kærð til dómstóla. Það er verulega sorglegt að það þurfi að bíða eftir að brotið verði á mannréttindum til að fara fyrir dómstóla. Það hefði átt að fella þessar lagavillur fyrir löngu.
Hvenær urðu mannréttindi úrelt?
Útlendingafrumvarpið stenst ekki stjórnarskrá. Þingmeirihlutinn virðist þó vilja halda öðru fram. Mánuðum saman hefur þingmeirihlutinn neitað að láta gera óháð, lögfræðilegt mat á því hvort frumvarpið standist stjórnarskrá lýðveldisins. Þessi sama stjórnarskrá inniheldur einmitt svokallaðan Mannréttindakafla sem ætlað er að koma í veg fyrir að mannréttindi séu brotin. Í Mannréttindakafla stjórnarskrárinnar (70. gr.) og í stjórnsýslulögum 37/1993 (24. gr.) er kveðið á um réttláta málsmeðferð og endurupptöku dómsmáls ef aðstæður breytast.
Er einhver tilgangur í að semja lög um mannréttindi ef ekki er farið eftir þeim. Hvenær urðu mannréttindi úrelt? Hvenær ákváðum við sem þjóð að okkur væri alveg sama? Við trúum því að Íslendingar séu betra fólk en það. Það ætti að vera hlutverk þingsins að framfylgja vilja þjóðarinnar. Samt kaus stór hópur þingmanna að hunsa viðvaranir sérfræðinga, alþjóðaskuldbindingar og okkar eigin stjórnarskrá.
Ábyrgð ráðherra
Katrín Jakobsdóttir, svokallaður ráðherra jafnréttismála, hunsar athugasemdir Kvenréttindafélags Íslands, Íslandsdeildar Amnesty International og Samtakanna ´78 og annnarra um frumvarpið. Katrín, ættir þú ekki að láta þig varða mannréttindabrot eigin stjórnar? Þú sem leiðtogi ríkisstjórnar berð þá skyldu að hafa yfirsjón á því sem kemst í gegn. Þú sem eitt sinn barðist svo fyrir því að ríkisstjórnin ætti að hlusta á sérfræðinga. Hvenær breyttist það? Hvað varð til þess að þú hættir að trúa á málstaðinn og þau gildi sem þinn flokkur stendur fyrir í nafni. Vinstri græn lögðu áherslu á það að hlusta á sérfræðingana á tímum Covid, það ætti alltaf að hlusta á sérfræðingana, ekki bara meðan heimsfaraldur geisar.
Það að Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra, sagði ekki stakt orð þegar frumvarp til laga brýtur beint gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna komst í gegn sendir skýr skilaboð. Að aðeins sum börn skipti máli. Bara svo lengi sem þau eru hvít og fæðast á Íslandi. Við höfum greinilega eitthvað misskilið því við héldum að þitt starf snerist um að vernda hagsmuni allra barna.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, kaus með niðurfellingu neyðarheilbrigðisþjónustu, þrátt fyrir viðvaranir Embætti Landlæknis og Læknafélags Íslands. Frumvarpið leyfir ekki fólki að deyja út á götunni. Þvílíkt framtak í heilbrigðismálum!
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, kastaði ábyrgðinni á úrræðum fyrir fólk á flótta á sveitarfélögin án þess að taka þátt í efnislegri umræðu um frumvarpið eða aðgerðaráætlun um hvernig sveitarfélögin eiga að taka á mót þeim hópi af fólki sem lendir á götunni eftir að frumvarpið verður lögfest. Fjölmargir sem hafa leitað verndar hér á landi hafa sýnt vilja til að taka virkan þátt í vinnumarkaðnum en ekki fengið réttindi til þess. En svo kvarta sumir yfir því að fólk á flótta lifi á ríkissjóði.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, skerti verulega rétt fólks á flótta til að fá mál sín skoðuð nægilega vel, á grunni rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og réttlátrar málsmeðferðar. Það tók Sjálfstæðisflokkinn 6 ár að koma þessu í gegn. Á þessum tíma hafa verið gerðar einhverjar breytingar en ekki nærrum því nógu margar. Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar-og menntamálanefndar, tókst einhvern veginn að halda andliti og ljúga blákalt að þjóðinni að hlustað hefði verið á umsagnaraðila. En núna hefur frumvarpið verið samþykkt án breytinga þrátt fyrir ótal áköll frá öllum helstu mannréttindasamtökum landsins.
Þó að við nafngreinum ekki fólk úr öðrum flokkum sem kusu með frumvarpinu þýðir það ekki að þau ættu að skammast sín eitthvað minna. Þingmenn Flokks fólksins og Miðflokksins eru alveg jafn meðsekir.
Frumvarpið er skelfileg birtingarmynd þróunar í útlendingamálum á Íslandi, Norðurlöndunum og víðar um Evrópu. Umræðan í kringum frumvarpið hjá stjórnarliðum hefur verið rasísk og espar upp hræðslu og útlendingahatur í samfélaginu. Jón Gunnarsson hefur verið með staðhæfingar um að hingað komi hópar umsækjenda til að reyna fyrir sér í íslenska kerfinu, burtséð frá því hvort þeir eigi í raun rétt á alþjóðlegri vernd. Við nánari athugun þá kemur það á daginn að aðeins 9 af ríflega 4.000 umsóknum séu ástæðulausar.
Hvað næst?
Það er enn ekki of seint að sjá ljósið og standa með mannréttindum. Það er aldrei of seint að kynna sér málið og læra af mistökum sínum. Þrátt fyrir að vera stóryrt hér fyrir ofan þá teljum við ekki að þingmenn séu vont fólk. Hins vegar teljum við að fólk haldi raunverulega að það sé að taka góðar ákvarðanir, hafi látið valdið stíga þeim til höfuðs eða sé blindað af flokkshollustu. Við köllum það að lifa í blekkingu.
Hættið þessum feluleik og fáið óháð mat á hvort að þessi lög standist stjórnarskrá. Hættið að nýta ykkur hræðsluáróður til að ala á útlendingaandúð hjá þjóðinni. Almenningur er espaður upp af stjórnvöldum í að halda að það að fleygja flóttafólki út á götuna muni laga vandamál heimilislausra Íslendinga. Heimilisleysi sem er nú þegar til staðar verður ekki leyst með auknu heimilisleysi. Hættið þessum afsökunum.
Hvenær er nóg komið? Nóg ofbeldi? Nægur rasismi? Skilaboðin eru skýr. Flóttafólk er ekki velkomið og nú hafa íslensk stjórnvöld samþykkt ofbeldisfull lög sem taka skýra afstöðu.
Að sjá fólk halda því fram að þetta frumvarp muni bæta skilvirkni og gagnsæi er ekkert nema hreinn pólitískur farsi. Að þykjast ætla að standa vörð um mannréttindi opinberlega en inni á þingi gera hið öfugt. Þvílíkur farsi, þvílík hræsni og þvílík sýndarmennska.
Skammist ykkar.
Höfundar eru hluti af grasrótarhópnum Fellum frumvarpið.
Athugasemdir