Fanney Birna Jónsdóttir, lögfræðingur og blaðamaður, hefur verið ráðin nýr dagskrárstjóri Rásar 1. Hún er fyrrverandi fréttastjóri Fréttablaðsins, fyrrverandi aðstoðarritstjóri Kjarnans og hafði umsjón með Silfrinu á RÚV um árabil. Fanney tekur við starfinu af Þresti Helgasyni sem sagði upp febrúar. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri greindi starfsfólki frá ráðningunni í dag.
Átján sóttu um starf dagskrárstjóra Rásar 1 sem auglýst var í síðasta mánuði. Tveir drógu umsókn sína til baka en meðal þeirra sextán sem eftir stóðu var fjöldi kanóna úr stétt fjölmiðlafólks.
Meðal þeirra sem sem sóttu um stöðuna var Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, blaðamaður á Læknablaðinu. Gunnhildur er fyrrverandi ritstjóri dagblaðsins 24 stunda og fyrrverandi umsjónarmaður Morgunútvarps Rásar 2.
Lára Ómarsdóttir fjölmiðlakona, sem nýverið lét af störfum sem samskiptastjóri fjárfestingafélagsins Aztiq, var einnig á meðal umsækjenda. Áður en Lára tók við stöðu samskiptastjóra þar hafði hún starfað í fjölmiðlum um árabil, sem fréttamaður og dagskrárgerðarkona, og síðast sem fréttamaður í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV.
Þá sótti Þorfinnur Ómarsson, bróðir Láru, einnig um stöðuna en þau systkini eru sem kunnugt er börn Ómars Ragnarssonar fjölmiðlamanns, sem um árabil starfaði á Ríkisútvarpinu. Þorfinnur hefur starfað í fjölmiðlum um árabil og meðal annars stýrt Íslandi í dag á Stöð 2 og Vikulokunum á Rás 1, auk annars.
Guðni Tómasson starfandi dagskrárgerðarmaður á Rás 1 var einnig meðal umsækjenda en hann stýrir þættinum Víðsjá og er fyrrverandi menningarritstjóri Fréttatímans.
María Björk Ingvadóttir sótti einnig um stöðuna en hún er fyrrverandi framkvæmdastjóri sjónvarpsstöðvarinnar N4, sem hætti starfsemi í byrjun febrúar. Töluverða athygli vakti í desember síðastliðnum þegar meirihluti fjárlaganefndar Alþingis ákvað að veita 100 milljóna króna framlag til reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiddu sjónvarpsefni, eftir að María Björk fór fram á að fá slíkan styrk í beiðni til nefndarinnar. Ekki síst vakti ákvörðunin athygli í ljósi þess að mágur Maríu Bjarkar, Stefán Vagn Stefánsson, situr í meirihluta fjárlaganefndar. Hins vegar var dró fjárlaganefnd í land með veitingu styrksins eftir gagnrýni í fjölmiðlum. María Björk er fyrrverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu og starfaði meðal annars hjá svæðisútvarpinu á Norðurlandi.
Þorsteinn J. Vilhjálmsson var þá meðal umsækjenda en Þorsteinn hefur starfað í fjölmiðlum í áratugi, ýmist hjá fjölmiðlafyrirtækjum eða sjálfstætt. Hann var meðal annars einn stjórnenda í Íslandi í dag á Stöð 2 og hefur starfað bæði á RÚV og Bylgjunni, svo eitthvað sé nefnt. Á síðasta ári flutti RÚV þætti Þorsteins um Skeggja Ásbjarnarson kennara, þar sem flett var ofan af brotum hans gegn nemendum sínum og vöktu þeir mikla athygli. Þorsteinn fékk nýverið Blaðamannaverðlaun fyrir þættina.
Auk þessara umsækjenda má nefna að meðal annarra sem sóttu um voru Júlía Margrét Einarsdóttir sem er verkefnastjóri vefútgáfu og dagskrárgerðarkona á RÚV, Hjálmar Hjálmarsson leikari, Matthías Tryggvi Haraldsson, sem titlaður er texta- og hugmyndasmiður en er kannski þekktastur fyrir að vera meðlimur hljómsveitarinnar Hatara og Magnús Lyngdal Magnússon sérfræðingur en hann er eiginmaður Ragnhildar Thorlacius, dagskrárgerðarkonu á Rás 1.
Athugasemdir (1)