Þú veist í hjarta þér kvað vindurinn
að varnarblekkingin er dauði þinn.
Engin vopna þjóð er að vísu frjáls
og að vanda sker hún sig fyrr á háls
en óvin sinn.
Þorsteinn Valdimarsson
Alveg er það magnað hvað annars yfirvegað fólk getur tapað glórunni þegar það stendur frammi fyrir stríði. Þegar ógnir steðja að, þá hættir fólki til að detta í gamalt far, jafnvel þótt þar hafi aldrei verið nokkurt skjól. Elsta „farið“ er óttastöðin í frumheila okkar frá tímum prímata, sem gerir það eðlislægt að bregðast við ógn með árás eða flótta. Það eru nokkur þúsund ár síðan mannkynið fór að þróa framheila sinn, þar sem teknar eru meðvitaðar ákvarðanir, ástand metið og lausnir fundnar. Samt er óttastöðin nauðsynleg, hún lætur okkur vita af hættum, en ef skilaboðin eru ekki flutt til framheilans, þá verða viðbrögðin að ráðast í enn eitt apastríðið. Vandinn er sá að þessar tvær heilastöðvar eru ekki virkar í einu, svo við þurfum að virkja þær til skiptis, sleppa taki á óttanum til að takast skynsamlega á við ógnir.
Við, hinar vitibornu manneskjur, höfum náð að þróast hratt á undanförnum öldum, við höfum stækkað sjóndeildarhring okkar, náð að skilja tungumál hvert annars og þróa ritmál sem færir okkur sögu og reynslu á milli kynslóða. Við höfum þróað heimspeki og kenningar um rétt og rangt og um nýja möguleika í samfélagsgerð. Mannréttindi, lýðræði, samhjálp, jöfnun tækifæra og lífskjara og leiðir til að koma þessum hugmyndum í framkvæmd. Einnig tæknilegar framfarir sem bæta heilbrigði, matvælaframleiðslu og húsaskjól, létta vinnuálag og gefa okkur jafnvel frítíma líka. En við strögglum áfram við afturhaldið, þessa sem streitast gegn framþróun og óttast breytingar meira en sinueld á þurrum degi. Afturhaldið sem hefur fattað það, án þess þó endilega að skilja af hverju það virkar, að ef þú höfðar til óttakenndar fólks þá færð þú það til að óttast og hlaupa þangað sem þú segir því að skjól sé að finna, þess vegna beint upp í gin úlfsins.
Mannkynssagan er full af sögum um hetjuleg stríð. Við á Íslandi höfum á undanförnum áratugum náð að gera upp við aðdáun á Sturlungaöldinni og lítum frekar á hana sem okkar myrku miðaldir. En víða annars staðar lifir stríðsaðdáunin góðu lífi í sögum, köstulum, málverkum og tónverkum. Jafnvel ríki sem hafa tileinkað sér hugmyndafræði lýðræðis og jöfnuðar, sitja ennþá uppi með eitthvert kóngaslekti upp á punt, svona fortíðarhækju.
Við höfum ekki aðeins lært um stríðshörmungar af sögum frá Fyrri heimsstyrjöldinni og Seinni heimsstyrjöldinni, það býr fólk á meðal okkar sem lifði þessar hörmungar. Og stríðshörmungunum hefur ekkert lokið síðan, þær hafa bara fluttst til, en ekki batnað. Það er af þessari reynslu og ógninni af kjarnorkuvopnum sem friðarhreyfingar urðu til. En það hefur farið með friðarhreyfingar á friðartímum í okkar nágrenni eins og með verkalýðshreyfingar í velferðarþjóðfélagi, að það er ekki talin mikil þörf á þeim þegar vel árar.
Það er svo sem ekki eins og friðarhreyfingar hafi ekki þurft að hafa fyrir lífi sínu. Eftir síðari heimsstyrjöldina tók við kalt stríð, þar sem ríki og þjóðir voru dregnar í andstæðar fylkingar. Allir stjórnmálamenn sem nú eru á sínum valdamesta aldri hafa alið allan sinn pólitíska feril í þessari kaldastríðshugsun og það er eins og heil kynslóð hafi kalið á heilanum í kalda stríðinu og nái ekki að þiðna. „Við verðum að hafa her“ ýlir í þessum klakadrumbum, „við verðum að hafa hernaðarbandalög!“ Þeir settu fram kenningar um ógnarjafnvægi, svo ógeðslega eyðileggjandi hernaðarmátt að enginn myndi þora að fara í stríð. Það var þeirra friðarleið. Kjarnorkuvopn voru varnarvopnin sem áttu að afstýra stríði. Samt er ekki hægt að beita þeim án þess að gereyða lífi.
Enn og aftur er farið í stríð. Það næsta okkur er stríðið í Úkraínu, inni í miðri Evrópu. Þá er ekkert pláss fyrir friðarhreyfingar. Nei, það er búið að fórna svo miklu að ekki kemur annað til greina en að vinna þetta stríð! Þetta stríð verður samt ekki unnið á vígvellinum, það endar aðeins með friðarsamningum. Því seinna sem samið verður um frið, því meiru verður fórnað án meiri ávinnings. Í kalda stríðinu varð til slagorðið „Better dead than red“ eða Betra er að vera dauður en rauður. Þetta er svo alrangt.
Eða eins og segir í litlu ljóði:
Undarlegir eru menn
sem ráða fyrir þjóðum.
Þeir berjast fyrir föðurland
eða fyrir hugsjón
og drepa okkur sem eigum
ekkert föðurland nema jörðina
enga hugsjón nema lífið.
Ari Jósepsson
Dauður maður bætir ekki úr neinu, hvorki fyrir sig né aðra, hann er bara dauður. Rauður maður er lifandi og getur skipt um lit. Annað eins hefur fólk gert áður og getur gert aftur. Fólk getur tekið sig saman og bætt samfélag sitt og það meira að segja án þess að fara í blóðugt stríð. Það kostaði blóðugt stríð að stofna Sovétríkin, en það þurfti engar blóðsúthellingar til að fella þau og stofna ný ríki á yfirráðasvæði þeirra. Það sama fólk og breytti Sovétríkjunum getur líka breytt þeim ríkjum sem við tóku. Til þess þarf að efla lýðræði. Rétt eins og stríð í Úkraínu þarf hernaðarstuðning annars staðar frá, þá þarf friður í Úkraínu friðarstuðning annars staðar frá, lýðræðisstuðning frá öðrum lýðræðisríkjum. Ekkert harðstjórnarríki stenst samtakamátt fólks sem óhlýðnast harðstjórunum. Það er samtakamáttur fólks sem breytir samfélögum til góðs. Ekki hernaðarmátturinn, heldur samtakamátturinn, samstaðan um að láta ekki harðstjóra ráða og auðrónana ræna.
Það er fráleitt að líkja nauðsyn þess að bregðast við með hervaldi gegn árásarstríði þýskra nasista í síðari heimsstyrjöldinni við nauðsyn þess að hrinda innrás Rússa í Úkraínu. Ég fer ekki út í það hér, hvernig pólitíkin brást í því að mynda samfylkingu gegn fasisma á fyrri hluta síðustu aldar og hindra þannig valdatöku fasistanna. Það tókst ekki og þess vegna varð stríð. Nasistar ráku líka stefnu um útrýmingu milljóna fólks og myrtu það kerfisbundið. Innrásir Rússa í ríki í austur Evrópu eru ekki sambærilegar þar við. Þær eru algjörlega óréttlætanlegar, en fólk lifir þær af. Íbúar Tékkóslóvakíu lifðu hana af og íbúar Úkraínu myndu líka lifa hana af. Íbúar Rússlands lifa af. Og þeir sem lifa af, geta breytt um lit. Að leggja undir sig fjölmenn ríki fólks sem vill lýðræði getur snúist í höndum innrásarliðsins og eflt lýðræðishreyfingu í báðum löndum, hinna herteknu og hinna sem hertóku.
Stríð er afleiðing af mistökum vanhæfra stjórnmálamanna. Stríð er hið algjöra rökþrot, efsta stig úrræðaleysis og vanrækslu. Við sem búum á Norðurlöndum erum stolt af því að hafa búið okkur gott samfélag með meiri jöfnuði og samhjálp en flest önnur ríki hafa náð. Við búum í velferðarþjóðfélögum. Jafnaðarmenn stæra sig af því að hafa komið þessum þjóðfélagsbreytingum á, en ein mikilvægasta forsenda þess að það var hægt, er að þessi ríki bjuggu við frið. Þau eiga öll langa sögu um innbyrðis stríðsátök fyrir „king and glory“ og ákváðu að snúa af þeirri leið og búa til einstakan samstarfsvettvang Norðurlanda. Það var friðurinn sem gaf tækifæri til að þróa lýðræði, mannréttindi, velferðarkerfi og samvinnu.
Jafnaðarmenn í Evrópu hafa mótað þá stefnu að fara lýðræðislega leið að þjóðfélagsbreytingum, en hafna að koma þeim á með vopnaðri byltingu. Það er seinlegt og því fylgja ýms bakslög, en við erum samt staðfastir lýðræðissinnar. Og þó. Sumir þora ekki að stíga skrefið til fulls, eins og Norðurlandaríki sem halda upp á kónga. Þau eru líka vopnaframleiðendur og vopnasalar og eru með eigin heri. Þau eru ekki búin að henda þeirri hugmynd að fara í stríð. Það gæti nefnilega versnað ástandið í einhverjum öðrum ríkjum og klikkaðar ráðamenn eða öfgafullir hryðjuverkamenn ráðist á okkur og þá þurfum við að geta varist! Friður er þeim bara hugsýn um lúxus en hernaðarmáttur er nauðsynlegur af því lífið er ekki eintómur lúxus.
Hvað þá með aðrar hugsjónir eins og um lýðræði, mannréttindi og jöfnuð? Eru þær ekki líka útópía, óraunhæf hugsýn? Ef óbótamenn svindla eða ljúga sig inn á kjósendur, er þá ekki kominn tími til að leggja lýðræði til hliðar og fá sterka leiðtoga til að hafa vit fyrir fólki sem kann ekki að fara með lýðræði? Þegar glæpahópar vaða uppi, þarf þá ekki öflug stjórnvöld sem hnika mannréttindum aðeins til og setja upp forvirk eftirlitskerfi til að stöðva þennan glæpalýð? Jöfnuður er alveg ágæt hugsjón. En hvað ef ekki er nóg til skiptanna, þarf þá ekki að forgangsraða því hverjir fá og hverjir líða skort?
Friðarstefna er stefna en ekki stefnuleysi, ekki friðarhjal, ekki frasar, ekki innantóm orð. Stefna er meira en hugsjón. Hugsjónin segir hvað við viljum, en stefnan mótar leiðina að markmiðinu og hvernig eigi að viðhalda því og þróa. Ef við hefðum ekki jafnaðarstefnu þá hefðum við heldur ekki jöfnuð. Ef við hefðum ekki lýðræðisstefnu þá hvorki kæmum við lýðræði á né héldum því áfram. Ef við hefðum ekki mannréttindastefnu þá gættum við hvorki mannréttinda í lögum né framkvæmd. Ef við höfum ekki friðarstefnu, þá höfum við engin úrræði til að búa við frið og til að vinda ofan af ágreiningi á friðsamlegan hátt.
Það vex sem þú vökvar og það visnar sem þú nærir ekki. Friður kemur ekki af himnum ofan, hann kemur frá fólki sem mótar friðarstefnu og fylgir henni eftir. Við höfum vanrækt friðinn. Þess vegna stöndum við úrræðalaus þegar ófriðarblikur sjást á lofti eða stríð skellur á. Við höfum svikist um að móta friðarstefnu og stofa friðarbandalög, bandalög um það hvernig við komum friði á og varðveitum hann. Þess í stað hefur verið haldið í hernaðarbandalög og þau ranglega kölluð friðarbandalög.
Hernaðarbandalög stuðla ekki að friði, þau eru aðeins bandalög um það hvernig eigi að reka stríð þegar pólitíkin hefur skitið á sig. NATO er hernaðarbandalag þar sem aðildarríkin skuldbinda sig til að láta að vilja þess þegar á reynir. Ríki eins og Ísland getur lýst því yfir að það sé kjarnorkuvopnalaust svæði, en ef til kemur þá skuldbindur aðildin að hernaðarbandalaginu Ísland til að heimila flutning kjarnorkuvopna um yfirráðasvæði sitt og staðsetningu kjarnorkuvopna á Íslandi. Þegar þess þarf! Ég kalla eftir skýringum NATO sinna á því við hvaða aðstæður þeir telja þörf á að hafa kjarnorkuvopn á Íslandi og að hvaða gagni þeir telji þau geta komið hér. Að halda að hægt sé að láta gott af sér leiða með þátttöku í herráði NATO er jafn kjánalegt og að halda að hægt sé að breyta íslensku þjóðfélagi til góðs með því að ganga í Sjálfstæðisflokkinn, eða að minnsta kosti minna vont með því að vera með þeim flokki í ríkisstjórn.
Friðarbandalag er bandalag um friðsamlegar aðferðir til að vökva það samfélag sem nærir samvinnu um frið og farsæld. Friðarbandalag hafnar hernaði rétt eins og samfélög hafna réttinum til að beita ofbeldi í samskiptum fólks. Við vitum að við getum búið saman í samfélagi án þess að beita ofbeldi og við getum líka búið saman á jörðinni án þess að beita því ofbeldi sem hernaður er.
Að taka þátt í hernaðarbandalagi eins og NATO, vinnur þvert gegn friði. Að ætlast til að foreldrar í öðrum löndum sendi sín börn til að berjast fyrir okkar hönd er siðlaust. Að hafa einhvern smá her hér á landi, til fyrstu hernaðarviðbragða ef á landið verður ráðist, er fráleitt. Á Íslandi erum við of fá til að geta varist hernaðarárás með innlendum her. Ef herlið er farið að berjast á Íslandi þá er stríðið háð fyrir utan eldhúsgluggann þinn og vopnaður hermaður í stofunni þinni. Hernaðarátök á Íslandi kalla aðeins yfir okkur dauða og eyðileggingu, engum til gagns. Ef á Ísland verður ráðist, bíðum við þá drullusokka af okkur og gröfum undan valdi þeirra á okkar hátt. Og lifum það af.
Fyrst og fremst eigum við að fyrirbyggja stríð. Til þess þarf friðarstefnu. Hún verður ekki til úr engu, hún verður til fyrir samtakamátt fólks sem mótar stefnu og fær vaxandi fjölda ríkja heims til að framfylgja henni. Við þurfum að hefjast handa við að vinna að friði í heiminum og það strax. Til þess verðum við að standa með okkar eigin hugsjónum, að standa með lýðræðinu þar sem máttur og vilji fólks er virkjaður því að þaðan koma lausnirnar og aflið til breytinga. Lýðræði er ekki bara hugsjón, það er krafturinn sem þróar samfélög okkar og færir þau nær og nær því að þar líði bæði fólki og náttúru vel.
Friðarstefna er ekki hugleysi, hún krefst þrautseigju og hugrekkis, að þora að fara í frið. Það fer enginn í stríð af því hann sé hugrakkur, til þess þarf aðeins að vera óttasleginn.
Ef ég skil þetta rétt að þá væri rugl að senda sérsveitina ef einhver klikkhaus mætir með vélbyssu í skólann. Bara standa saman og gefa frá sér góða strauma, viðkomandi endar með að gefast upp á að salla niður liðið og friður færist yfir hann í lokin.