Tvö snjóflóð féllu á Norðfirði í morgun; annað á hús í byggð við Starmýri í Neskaupstað og hitt vestan við varnargarða sem þar eru ofan byggðar. Það snjóflóð þveraði Strandgötu, sem liggur út úr Neskaupstað, og í sjó fram.
Fyrst í morgun var tilkynnt um að rýma eitt hús vegna flóðsins en fljótlega var ákveðið að rýma sjö íbúðahúsagötur á rýmingarsvæðum í kringum Starmýri, þar sem flóðið féll á hús. Í tilkynningu sem barst frá lögreglu rétt fyrir 9 kom fram að björgunarsveitir væru að ganga í hús sem þyrfti að rýma. Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í Egilsbúð, þar sem tekið er á móti fólki sem þarf að yfirgefa hús sín.
„Íbúar Neskaupstaðar annars beðnir um að halda sig heima við,“ segir í tilkynningunni.
Unnið er að meta aðstæður annars staðar í þéttbýlinu. Íbúar eru hvattir til að halda kyrru fyrir, hlémegin í húsum og bíða frekari upplýsinga. Íbúar annars staðar á Austurlandi hafa einnig verið beðnir að halda sig heima við.
Öllu skólahaldi hefur verið aflýst í Fjarðabyggð sem og almenningssamgöngum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.
Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hafði verið lýst á Austfjörðum, á milli Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar.
Uppfært klukkan 9.18
Athugasemdir (1)