Fjöldi tilfella af staðfestri inflúensu var talsvert meiri í síðustu viku samanborið við vikurnar á undan og hefur vikulegur fjöldi tilfella ekki verið meiri frá áramótum. Sóttvarnalæknir segir í samantekt sinni um málið að nú geysi seinni inflúensubylgja vetrarins og að þegar aldursdreifing tilfella staðfestrar inflúensu er skoðuð á núverandi flensutímabili komi í ljós að breyting hefur orðið á aldursdreifingu smita og stofngerð.
Fram yfir áramót, þegar inflúensustofn A var ríkjandi, var meirihluti tilfella að greinast hjá ungu fólki og eldri einstaklingum. Flest tilfelli meðal barna voru meðal ungra barna.
Eftir áramót, þegar inflúensa af stofni B tók við, breyttist aldursdreifing á þann veg að um og yfir helmingur inflúensugreininga er hjá börnum og unglingum, en inflúensa B leggst helst á ungmenni.
„Þetta mynstur, þar sem inflúensa B gengur í kjölfar faraldurs vegna inflúensu A, er fremur algengt, en kemur þó ekki fram á hverju inflúensutímabili,“ segir í samantekt sóttvarnalæknis. …
Athugasemdir