Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Stýrivextir hækkaðir um eitt prósentustig og komnir í 7,5 prósent

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­lands hef­ur enn og aft­ur ákveð­ið að hækka stýri­vexti. Þetta er í tólfta sinn í röð sem vext­ir hafa ver­ið hækk­að­ir.

Stýrivextir hækkaðir um eitt prósentustig og komnir í 7,5 prósent
Seðlabankastjóri Ásgeir Jónsson er formaður peningastefnunefndar. Mynd: Heiða Helgadóttir

Seðla­­­banki Íslands hefur hækkað stýrivexti sína upp í 7,5 prósent. Þetta er í tólfta sinn í röð sem bankinn hækkar vexti, en þeir voru 0,75 prósent í maí 2021. Fyrir vikið eru íbúða­lána­vextir hærri en þeir hafa verið í tólf ár, eða frá árinu 2010, skömmu eftir banka­hrunið þegar enn var verið að end­­­­ur­reisa föllnu bank­ana og íslenskt atvinn­u­líf, með tilheyrandi hærri greiðslubyrði fyrir heimili í landinu. Eftir nýjustu stýrivaxtahækkunina er viðbúið að slíkir vextir muni hækka enn á ný.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands segir að verðbólguþrýstingur haldi áfram að aukast og verðhækkanir ná til æ fleiri þátta. „Verðbólga mælist nú 10,2 prósent og undirliggjandi verðbólga er 7,2 prósent. Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar. Útlit er fyrir að verðbólga verði meiri á næstunni en spáð var í febrúar þótt hægt hafi á húsnæðismarkaði.“

Hagvöxtur hafi verið mikill í fyrra og vel umfram það sem þjóðarbúskapurinn geti staðið undir til lengdar. Innlend eftirspurn hafi aukist meira en gert var ráð fyrir í febrúar og vísbendingar séu um að hún hafi verið kröftugri í ársbyrjun en talið var. Spenna á vinnumarkaði sé jafnframt töluverð. „Við þessar aðstæður er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og komandi kjarasamninga. Peningastefnunefnd mun beita tækjum sínum til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.“

Vaxtabyrði bítur heimilin fast

Áætlað er, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands, að vaxtagjöld heimila hafi aukist um 35,5 prósent á árinu 2022. Það skýrist bæði af því að heimilin juku í heild við útlán sín en einnig vegna hækkunar á vöxtum. Stýrivextir Seðlabanka Íslands hækkuðu úr 1,75 prósent í 5,75 prósentustig á síðasta ári, með tilheyrandi áhrifum á vexti íbúðalána.  Vegnir meðalvextir útistandandi óverðtryggðra íbúðalána með breytilega vexti voru 7,76 prósent í janúar síðastliðnum og höfðu þá ríflega tvöfaldast frá því að vextir voru lægstir á árinu 2021, en þá voru þeir 0,75 prósent. 

Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru nú orðnir 7,5 prósent, 1,75 prósentustigi hærri en þeir voru í janúar, og vaxtabyrði heimila mun aukast í beinu samhengi við þá stöðu. 

Vaxtagjaldahækkanirnar leggjast þyngst á þau heimili sem eru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Samkvæmt nýjustu birtu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) hefur afborgun af 50 milljóna króna óverðtryggðu íbúðaláni á breytilegum vöxtum hækkað um 155.375 krónur á mánuði, upp í 344 þúsund krónur, frá því í apríl 2021. 

Um fjórðungur allra íbúðalána eru óverðtryggð. Þar af ber rúmur helmingur fasta vexti, eða lán upp á 707 milljarða króna. Af þeim stabba eru lán upp á næstum 600 milljarða króna, sem hafa verið á föstum vöxtum, að losna á næstu þremur árum. Þar af rennur binditími lána upp á 74 milljarða króna út á þessu ári.

Toppnum var ekki náð

Ásgeir Jóns­­son seðla­­banka­­stjóri lét hafa eftir sér þegar vextir voru hækkaðir í 5,75 prósent í október 2022 að toppnum á vaxtahækkunarferlinu væri mögulega náð. Mánuði síðar voru vextirnir hins vegar hækkaðir aftur, nú upp í sex prósent. Þá sagði Ásgeir að sú hækkun ætti að vera nóg til að ná verðbólgu niður í markmið, sem er 2,5 prósent, á ásættanlegum tíma. Boltinn væri hjá aðilum vinnumarkaðarins og ríkisvaldinu. 

Um 80 prósent af almenna vinnumarkaðnum, sem var með samninga lausa í fyrrahaust, samdi til skamms tíma við Samtök atvinnulífsins um kjarasamninga á síðasta ári sem gilda út janúar 2024. Á þessu ári hefur Efling bæst við þá sem samið hafa með þessum hætti.

Fjárlög voru hins vegar afgreidd með 120 milljarða króna halla, sem var umtalsvert meiri halli en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í september 2022. Þá var hallinn áætlaður 89 milljarðar króna. Í nýlega birtu áhættumati vegna framkvæmdar fjárlaga yfirstandandi árs boðaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að gjöld vegna vaxtakostnaðar verði 27 milljörðum krónum hærri en gert var ráð fyrir og að kostnaður við ýmsa ríkisaðila muni kosta 12,2 milljörðum krónum meira en áætlað var. Því liggur fyrir að gjaldahlið ríkisfjármála hefur verið að vaxa. 

Bjarni mun kynna fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í næstu viku.

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • VSE
    Virgil Scheving Einarsson skrifaði
    Evran er það sem koma skal, kronan er löngu buin og henni haldið a lyfi i Öndunarvel.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Íslendingar þurfi að ákveða hvar þeir staðsetja sig: „Þetta eru mjög válegir tímar“
4
ViðtalBandaríki Trumps

Ís­lend­ing­ar þurfi að ákveða hvar þeir stað­setja sig: „Þetta eru mjög vá­leg­ir tím­ar“

Pól­skipti hafa átt sér stað í vest­rænu varn­ar­sam­starfi með skyndi­legri stefnu­breyt­ingu Banda­ríkj­anna í ut­an­rík­is­mál­um, seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hern­að­ar­sagn­fræð­ing­ur. Hætta geti steðj­að að Ís­landi en Banda­rík­in hafi sýnt að þau séu óút­reikn­an­leg og beri ekki virð­ingu fyr­ir leik­regl­um al­þjóða­kerf­is­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
4
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár