Það besta við skoðanir er að ég má hafa margar – jafnvel um sama málefnið. Og ég má ekki bara heldur ber mér að skipta um skoðun í ljósi nýrrar reynslu og upplýsinga. Lengi hef ég haft þann háttinn á að reyna að átta mig á margbreytileika skoðana minna með því að skrifa um þær og undanfarið hef ég, að gefnu tilefni, velt vöngum yfir hugtökunum menningarnám og þátttökulistir.
Fólk af asískum uppruna
Bókin Fellur mjöll í Sedrusskógi eftir David Guterson hafði geysileg áhrif á mig enda laukst við lestur hennar upp fyrir mér að eftir Pearl Harbor var fólki af japönskum uppruna útskúfað úr bandarísku samfélagi. Síðar man ég eftir mér sitjandi á snyrtistofu í Flórída, hlustandi á fótsnyrtinn segja mér frá þeim áskorunum sem mæta Víetnömum í Bandaríkjunum. Og skemmst er að minnast fréttamannafunda Trumps þar sem hann lagði ofuráherslu á The China Virus og smánaði í tilsvörum sínum viðstatt fréttafólk af asískum uppruna.
Í tilbreytingarleysi kóvidtímans ánetjaðist ég bandarískum fréttum og áttaði mig á að „over there“ telur „gula“ fólkið sig ekki síður afmennskað en það „svarta“. Og líti ég í eigin barm sé ég að sjálfri hættir mér til að sjá íbúa Austurlanda fjær sem sístritandi, óaðgreinanlegan fólksmassa.
En í þeim sama barmi slær hjarta sem finnst að á tímum mikillar millimenningarlegrar þekkingar sé óþarfi að sköpuð séu listaverk sem skaða.
Öðruvísileikarnir
Á þrítugsaldri flutti ég til Norður-Svíþjóðar og hef æ síðan tekið þátt í samfélagslegum verkefnum á sviði lista. Í Lapplandi fékk ég að vinna með fólki sem talar samískar tungur og meänkieli, fólki sem vant er að menning þess sé afskræmd. Nýskriðin úr íslenskri einsleitni fékk ég geysilegan áhuga á ólíkum birtingarmyndum öðruvísileikans og þegar ég flutti aftur heim hafði Kvennalistinn kynnt Íslendingum orðið reynsluheimur. Ég man hvað var fussað og sveiað yfir þeirri hugmynd að veruleiki okkar allra væri ekki sá sami.
Birtingarmyndir skipta máli af ótal ástæðum. Í aldanna rás hefur þjóð mín ekki farið varhluta af niðrandi umfjöllun og jafnvel þótt myndin The Story of Fire Saga væri okkur vinveitt og hefði gríðargóð áhrif á fjármál þjóðarinnar verður hún að teljast menningarnám. Af hverju heita alíslenskar persónurnar til dæmis einkennilegum nöfnum eins og Lars Erickssong og Sigrit Ericksdóttir?
Sjálfsmyndir og valdahlutföll
Ég skil vel að þjóðir og samfélög sem lengi hafa verið svívirt og smánuð taki menningarlegri afbökun illa. Ég hef ekki séð sýningu Íslensku óperunnar á Madömu Butterfly og er því ekki í þessum skrifum að velta henni fyrir mér heldur umfjölluninni um sýninguna. Mér finnst ég sjá að gagnrýni á sýninguna lúti að samhengi hlutanna – að valdahlutföllum. Þetta er ekki spurningin um hvaða kynþætti „megi” fjalla um, eins og óperustjóri orðaði það, heldur um valdahlutföll listrænna stjórnenda og viðfangsefna þeirra. Í þeirri umræðu er íslenska óperan ekki lítil menningarstofnun á afskekktri eyju heldur hluti valdaelítu hins alþjóðlega menningarheims.
Umræðan nær langt út fyrir okkar litla land og er angi þeirrar sjálfsmyndarpólíkur sem varð til þegar fólk fór í hrönnum að brjótast út úr margvíslegum skápum sínum. Sjálfsmyndarpólitíkin er svo undursamlega falleg en um leið átakanlega erfið að meðtaka og melta. Okkur reynist erfitt að setja okkur í annarra spor. Þó er auðveldara að koma auga á óréttlætið annars staðar en í eigin ranni. Ég skil af heilum hug hvers vegna fólk af afrískum uppruna steypir styttum af nýlenduherrum af stalli en rasismann í eigin hegðun og hugarfylgsnum á ég erfitt með að greina.
Birtingarmyndir fatlaðra í leikhúsinu
„Whatabout-ismi" hefur verið áberandi í umræðunni um Madömu Butterfly. Á umræðuþráðum sé ég fólk gagnrýna að verið sé að finna að smámunum eins og förðun og búningum þegar hægt væri að benda á ýmislegt annað gagnrýnivert, jafnvel alvarlegra. Að benda á annað sem aflaga fer er auðvitað leið til að afvegaleiða umræðuna. Nú er það svo að á þessum tímapunkti Íslandssögunnar býr hér fólk sem af ýmsum ástæðum sættir sig ekki við neina útgáfu af „yellow faces“ á íslensku sviði. Það þýðir auðvitað ekki að bjóða fólki sem þannig líður að skammast frekar út í eitthvað annað.
Í haust blossaði upp umræða um réttmæti þess að ófatlaður leikari léki fatlaða persónu í uppsetningu Þjóðleikhússins á söngleiknum Sem á himni. Gagnrýnandi RÚV vakti fyrst máls á þessu og hlaut harða gagnrýni fyrir. Fólk spurði til hvers leiklistin væri ef leikarar mættu ekki túlka þá sem ekki geta túlkað sig sjálfir. Sem viðbragð við umræðunni blés leikhúsið til fróðlegs málþings um birtingarmyndir fatlaðra á sviðinu.
Á málþingi Þjóðleikhússins, eins og á hinum þremur málþingunum um sama efni sem ég sat á svipuðum tíma, varð spurningin um hver mætti túlka hvern ekki mjög áberandi. Hins vegar braust út undirliggjandi ólga þegar talið barst að því hvers vegna fólk með fötlun fái ekki tækifæri til að mennta sig í sviðslistum og geti þannig túlkað sig sjálft á stóru sviðunum. Á öllum þessum þingum heyrði ég ljótar sögur af menningarlegum mannréttindabrotum í samfélagi sem í orði stefnir að inngildingu allra.
Fjölbreytileiki þátttökulistanna
Sjálfri finnst mér áhugavert að á síðustu árum er fólk með lesblindu og ýmsar þroskaraskanir farið að sækja ritlistarnámskeið mín án þess að minnast nokkuð á fötlun sína fyrir fram. Við græðum öll á því að skapa saman. Til er listform sem kallast þátttökulistir og byggir á samsköpun faglærðs og ófaglærðs listafólks. Þátttökulistir í öllum sínum fallega fjölbreytileika eru orðnar æði útbreiddar og í ljósi þess fetti gagnrýnandi RÚV fingur út í leikaraval Þjóðleikhússins í söngleiknum Sem á himni.
Listahátíð er líklega sú menningarstofnun sem hefur verið iðnust við að beina kastljósinu að inngildandi áhrifamætti samsköpunar enda segir í skipulagsskrá að hátíðin skuli vera almenningi til heilla. Það hlýtur að vera öllum til heilla að undir merkjum samsköpunar sjáum við hvert annað eins og við erum.
Réttar skoðanir eða rangar
Það hefur tekið mig fjörutíu ár og ýmiss konar upplifanir að reyna að skilja ofangreindar skoðanir mínar. Oft á ég erfitt með að tjá mig af því að á öðrum endanum eru viðtakendur sem álíta viðhorf mín argasta bull en á hinum þau sem finnst ég ekki nógu róttæk. Ég óttast oft að ég noti ekki réttu orðin eða að gagnleg hugtök orðræðunnar hafi farið fram hjá mér. Og stundum finnst mér að yngra fólki finnist mannkynssagan hafa byrjað við eigin fæðingu á meðan við hin eldri eigum það til að telja að þróun hugmyndasögunnar hafi stoppað um leið og við hættum að fylgjast með. „Free the nipple?“ segja sumar kvenfrelsiskonur á mínum aldri, „það kláruðum við fyrir löngu!“
Mér leiðist að við öskrum skoðanir okkar hvert upp í annað í stað þess að úrbeina ólík viðhorf í inngildandi samvinnu, til dæmis með aðferðum þátttökulistanna. Slíkt er forsenda þess að við getum gert það sem best er af öllu fyrir okkur sjálf og samfélag okkar – að skipta um skoðun.
Höfundur rekur Stílvopnið og stjórnaði fyrir hönd ReykjavíkurAkademíunnar samstarfsverkefninu ÖLLUM TIL HEILLA – samtali um samfélagslistir.
Athugasemdir