Mörg okkar hafa á undanförnum árum upplifað ónotatilfinningu vegna stóraukinnar notkunar okkar á samfélagsmiðlum. Áhyggjurnar eru ekki innistæðulausar. Fjöldi rannsókna styðja réttmæti þessa tilfinningu sem við göngum svo mörg með í brjóstinu og kemur heim og saman við umræðu síðustu missera um aukna vanlíðan ungmenna vegna mikillar notkunar samfélagsmiðla. Allar tölur og gögn segja það sama. Félagsleg einangrun, vanlíðan, alvarlegar sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg, þunglyndi og kvíði hefur aukist svo um munar og hefur þunglyndi meðal ungmenna á aldrinum 15-24 fjórfaldast síðasta áratug, samkvæmt frönskum rannsóknum.
Skuldinni er oft skellt á börnin sjálf, að þau séu bara of mikið í símanum, að yngri kynslóðir fólks séu einhvern hátt veikgeðja og hafi minni þrótt til að standast þessa miklu freistingu. En hvert er viðnám þeirra sem alast upp með samfélagsmiðlum og sjá foreldra sína skruna upp og niður skjámyndina í fullkomnu reiðileysi? Og hvers erum við megnug þegar tækið við nefbroddinn á okkur hefur verið sérstaklega hannað af færustu vísindamönnum heims til að auka óhóflega neyslu á því sem fyrir augun ber og ánetja okkur og börnin okkar viðbrögðum og viðurkenningu annars fólks. Eitt læk getur dimmu í dagsljós breytt, sem dropi breytir veig heillar skálar.
Samfélagsmiðlar búa til skipulag í reiðileysi internetsins, strúktúr sem auðveldar samskipti fólks á milli, auðveldar aðgengi að ýmsum hugarefnum notandans og kynnir hann fyrir nýjum áhugaverðum hlutum, en það er ekki að kostnaðarlausu. Undir er geðheilsan og tími barnanna okkar á þeirra viðkvæmustu árum. Tíma sem við verjum ekki á uppbyggilegan hátt í návist hvors annars. Rannsóknir sýna að „fjarlægðin“ á milli fólks hefur aukist, sér í lagi meðal ungs fólks en tíðni barna sem hitta vini sína sjaldnar en einu sinni í mánuði hefur aukist stórkostlega frá því 2010, en hafði þá verið stöðug um áratuga skeið. Þá sýna rannsóknir jafnframt að áhrif samfélagsmiðla á geðheilsu ungra stúlkna eru margfalt meiri en á stráka. Stjórnendur stórfyrirtækjanna sem halda úti samfélagsmiðlum eru full meðvitaðir um þessi áhrif. Þrátt fyrir það er algríminu, sem sýnir ungu stúlkunum okkar afskræmda og innrammaða mynd af því hvað það er að vera kona, ýtir undir sjálfsskaða og heldur þeim límdum við skjáinn, ekki breytt.
Það er margt sem að við meinum börnunum okkar um. Við setjum aldurstakmarkanir á ýmislegt, stórt og smátt, kvikmyndir og kaup á áfengi. Við gerum það til að halda börnum og ungmennum frá því sem við teljum skaðlegt og óæskilegt, fyrir því eru góð og gild rök. Þrátt fyrir það minnist ég þess ekki að raunverulega hafi verið rætt um slíkar takmarkanir vegna samfélagsmiðla, þrátt fyrir skaðleg áhrif þeirra. Ég er þó ekki að tala fyrir slíku banni en tel það alveg ljóst að mikil vitundarvakning verður að eiga sér stað og á hinu pólitíska sviði er einboðið að takmarka frekar framleiðslu á efni sem verst hefur áhrif á sjálfsmynd barna og ungmenna. Það er hverju og einu foreldri í sjálfsvald sett hvernig þessu er háttað en við verðum að átta okkur á því að við erum fyrirmyndirnar, það er okkar að sveipa af dulúðinni sem hvílir yfir þessari vanheilla þróun, það er okkar að ræða þessi mál opinskátt um leið og við þurfum að vera tilbúin til að sleppa símanum og eiga gæða stundir með fólkinu okkar.
Athugasemdir