Um hádegisbil 22. apríl í fyrra uppgötvuðu verðir á Jorn safninu í Silkeborg að einn safngesta var að bera lím á eitt þekktasta verk safnsins „Den forurligende Ælling“. Safngesturinn límdi síðan mynd af sér á hluta verksins og skrifaði síðan nafn sitt, Ibi-Pippi, á málverkið. Ibi-Pippi var handtekin á staðnum og forverðir safnsins hófust þegar handa við að hreinsa verkið. Sú vinna stóð mánuðum saman og þótt límið sem Ibi-Pippi notaði hafi verið mjög sterkt tókst forvörðunum að fjarlægja „viðbótina“ að mestu leyti en hins vegar ekki áritunina.
Einn þekktasti listmálari Dana
Asger Jorn er meðal þekktustu listmálara Dana og þekktur víða um heim. Hann fæddist í þorpinu Vejrum á Norðvestur- Jótlandi árið 1914 en ólst upp í Silkeborg. Að loknu fimm ára námi við Kennaraskólann í Silkeborg sneri hann sér að myndlist sem hann starfaði við til æviloka árið 1973.
Hann hét fullu nafni Asger Oluf Jørgensen en tók árið 1946 upp listamannsnafnið Asger Jorn. Hann dvaldi langdvölum í Frakklandi, Sviss og á Ítalíu. En hafði ætíð sterk tengsl við Silkeborg, sem hann leit á sem sinn heimabæ. Asger Jorn var mjög afkastamikill listamaður en líka ötull safnari. Árið 1953 færði hann Listasafninu í Silkeborg nokkurt safn listverka og við andlát hans 1973 hafði hann gefið safninu 5500 listaverk eftir 140 listamenn víðsvegar að úr heiminum. Árið 2010 var nafni safnsins breytt og heitir nú Museum Jorn, safneignin telur nú um 30 þúsund verk.
Myndirnar af flóamarkaðnum
Árið 1958 keypti Asger Jorn allmargar myndir, einkum olíumálverk, á flóamarkaði í París en þar var hann þá með vinnustofu. Verkin, sem voru eftir ýmsa lítt þekkta málara, kostuðu lítið. Á vinnustofunni tók Asger Jorn nú til við að breyta verkunum. Það gerði hann með því að mála nýja mynd yfir hluta léreftsins. Þekktust þessara „endurbættu“ mynda eins og listamaðurinn kallaði þær, er „Den Foruroligende Ælling“ sem kannski mætti þýða sem Ískyggilegi, eða áhyggjufulli, andarunginn. Upphaflega málverkið er í raunsæisstíl, lítið hús umlukið trjám, engin mannvera sjáanleg. Hægra megin í myndfletinum er litskrúðugur andarungi í yfirstærð, hann málaði Asger Jorn. Neðst til hægri má sjá tvö nöfn, ekki mjög auðlesin. Annað þeirra er kannski Jorn, hitt líklega Berton. Ískyggilegi andarunginn er meðal allmargra verka sem Asger Jorn „endurbætti“ með þessum hætti og hanga uppi í Museum Jorn í Silkeborg.
Ibi-Pippi mætir á staðinn
Þegar starfsfólk Jorn safnsins mætti til vinnu og opnaði dyr safnsins klukkan 10 að morgni 22. apríl í fyrra bjóst það ekki við að þessi dagur yrði öðruvísi en aðrir dagar. Reytingur af fólki, gestir sem kæmu til að skoða verkin á safninu og um hádegisbil mætti búast við gestum á veitingastaðinn í safninu. Öryggisgæsla hafði alla tíð verið fremur lítil og gestir þurftu ekki að skilja bakpoka eða hliðartöskur eftir í læstum skápum.
Meðal þeirra sem komu á safnið um hádegisbil voru þrjár manneskjur sem hvorki ætluðu sér að skoða verkin né fá sér hressingu á safninu. Þetta fólk tók stefnuna rakleiðis að Ískyggilega andarunganum. Einn þremenninganna dró fram límtúpu og makaði líminu á hluta andarungans, og setti þar síðan mynd af sér. Skrifaði síðan nafnið sitt Ibi- Pippi stórum stöfum neðarlega á hægri hluta myndarinnar. Allt þetta festi einn úr hópnum á myndband og sendi reyndar samtímis út á netið.
Ibi- Pippi gerði ekki tilraun til að flýja af vettvangi og hreyfði engum mótmælum við handtöku.
Dönsku kennitölulögin
Samkvæmt dönsku lögum bera allir Danir kennitölu. Hún samanstendur af 10 tölustöfum: fæðingardegi, mánuði og ári og síðan fjórum tölustöfum til viðbótar. Hjá körlum er aftasti stafur oddatala en hjá konum slétt tala.
Sjái maður fjóra öftustu stafina í kennitölunni, til dæmis 3907, veit maður að viðkomandi er karl, samkvæmt dönsku þjóðskránni, ef það eru t.d 2468 þá er það kona. Árið 2014 var lögum breytt og nú gátu karlar og konur óskað eftir að skipta um kyn í þjóðskránni, og þar með fengið nýja kennitölu. Ekki fylgdi þessari lagabreytingu krafa um líkamlegt kynleiðréttingarferli.
Per Erik varð Ibi-Pippi
Ibi-Pippi er óvenjulegt nafn. Það gildir sömuleiðis um persónuna sem ber það.
Ibi-Pippi er 45 ára að aldri. Fékk við skírn nafnið Per Erik og fjölskyldunafnið var Orup Hedegaard. Fullt nafn var sem sé Per Erik Orup Hedegaard.
Árið 2015 sótti Per Erik um kynskiptingarskráningu í þjóðskrá. Og fékk þá nýtt nafn, heitir nú Ibi-Pippi Orup Hedegaard. Per Erik, eða Ibi- Pippi fór ekki þá í líkamlegt kynleiðréttingarferli og hefur ekki gert. Þess má geta að fyrir þessa breytingu hafði Per Erik verið tvígiftur og eignast sex börn.
Skömmu eftir að hafa fengið nýja nafnið fór Ibi-Pippi í sund. Þegar hann kom í búningsklefann hrukku konur sem þar voru við og sögðu að hann hefði greinilega farið klefavillt. Þegar Ibi- Pippi sagðist vera kona, þótt hún liti svona út, kölluðu konurnar á starfsmann. Sá skipaði Ibi- Pippi að fara í karlaklefann en þegar hún neitaði, og sýndi nýja sjúkratryggingakortið, var henni að lokum vísað í búningsklefa ætlaðan fötluðum. „Ég ákvað að fara í sund til að kanna hvernig brugðist yrði við“ sagði Ibi- Pippi síðar í viðtali.
Dags daglega gengur hún í karlmannsfötum en þegar hún klæðir sig uppá velur hún kvenfatnað.
Ibi- Pippi hefur árum saman unnið fyrir sér með textaskrifum og gefið út allmargar bækur, sögur og ljóð. Hún hefur einnig tekið þátt í samkundum á vegum hægri hreyfingarinnar Stram Kurs en segir það sem hún gerði á Museum Hjort ekki tengjast þeirri hreyfingu á neinn hátt.
Viðbótarbreyting
Ibi- Pippi hefur sagt að með því að líma mynd af sjálfri sér á mynd sem Asger Jorn hafði breytt vildi hún mótmæla því að listamenn, eða hver sem er, geti keypt listaverk og gert það að sínu með því að breyta myndinni og merkja hana síðan eigin nafni. Eins og Asger Jorn hefði gert, og kallað „modifikation“ minni háttar breytingu eða aðlögun. „Það sem ég gerði var viðbótarbreyting og þess vegna merkti ég mér verkið, alveg eins og Asger Jorn gerði“.
Sekt og fangelsisdómur
Síðastliðinn mánudag, 13. mars, var Ibi-Pippi, í Bæjarréttinum í Viborg (lægsta dómstigi af þremur) dæmd í 18 mánaða fangelsi og til greiðslu tæpra tveggja milljóna danskra króna (38 milljónir íslenskar). Sektarupphæðin miðast, að sögn dómara, við viðgerðarkostnaðinn á verkinu. Ibi- Pippi hefur áfrýjað niðurstöðunni til Landsréttar en ekki hefur verið tilkynnt hvenær málið verði tekið fyrir þar. Hún sagðist hafa búist við að fá dóm en sér þætti sektin í hærra lagi.
Kvenna- eða karlafangelsi?
Danskir fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um þetta sérkennilega mál. Sú spurning hefur líka vaknað, ef dómurinn stendur, hvort Ibi- Pippi skuli afplána í karla- eða kvennafangelsi. Fangelsisyfirvöld svöruðu aðspurð að yfirleitt væri kennitalan látin ráða en vildu að öðru leyti ekki segja neitt um þetta tiltekna mál. Sjálf hefur Ibi- Pippi sagt að verði dómurinn staðfestur í Landsrétti vilji hún afplána í kvennafangelsi.
Athugasemdir