Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ráðinn bæjarstjóri Akraneskaupstaðar.
Haraldur var fyrst kjörinn á þing í alþingiskosningunum árið 2013. Þar áður var Haraldur formaður Bændasamtaka Íslands, á árabilinu 2004 til 2013. Haraldur hefur þá jafnframt rekið bú á Vestri-Reyn, skammt utan Akraness, frá árinu 1995 með konu sinni, Lilju Guðrúnu Eyþórsdóttur, en þau tóku við búi af foreldrum Haraldar.
Í tilkynningu á vef Akraneskaupstaðar er haft eftir Valgarði Lyngdal Jónssyni, forseta bæjarstjórnar Akraness, að algjör einhugur hafi ríkt í bæjarstjórn um ráðningu Haraldar. „Haraldur hefur þekkingu og reynslu sem við bæjarfulltrúar erum fullviss um að muni nýtast vel í starfi bæjarstjóra, Akraneskaupstað og samfélaginu hér á Akranesi til heilla.“
Í sömu tilkynningu er haft eftir Haraldi sjálfum að hann telji Akranes vera eitt merst spennandi sveitarfélag landsins og að það sé heiður að vera trúað fyrir starfinu. Haraldur svaraði ekki í síma þegar Heimildin reyndi að ná tali af honum. Haraldur tekur við starfinu af Sævari Frey Þráinssyni sem ráðinn var forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Þegar Haraldur lætur af þingmennsku sinni mun Teitur Björn Einarson taka sæti hans. Teitur sat á þingi á árunum 2016 til 2017 en hefur verið varaþingmaður frá árinu 2017. Hann er sonur Einars Odds Kristjánssonar fyrrverandi alþingismanns.
Athugasemdir (1)