Samkvæmt fyrri grein minni um efnið gætu lesendur talið að ég sé þeirrar skoðunar að íslenska ellilífeyriskerfið sé í flesta staði ómögulegt. Sú er þó alls ekki raunin. Þegar við einblínum ekki á söguna, fortíðina, fyrirheit eða efndirnar og kerfið er skoðað í ljósi nútíðar og framtíðar sést að víða hefur vel tekist til og margir hafa það raunar ágætt innan þess. Íslenska lífeyriskerfinu hefur töluvert verið hampað erlendis og skorað svo hátt á sumum mælikvörðum að það hefur talist eitt það besta, ef ekki það besta heimi. Kerfið hlaut sem dæmi hæstu einkunnina árið 2021 samkvæmt alþjóðlegu MERCER-vísitölunni sem er ætlað að mæla gæði lífeyriskerfa út frá nægjanleika, gæðum og trausti. Þar eru borin saman kerfi 43 þjóða út frá því hverju 22 ára gamall einstaklingur sem hefur störf nú um stundir geti átt von á í lífeyrisgreiðslur við lok starfsferils, sem verður 2055 eða síðar. Auk þess rennir nýleg samanburðarrannsókn á lífeyriskerfum innan OECD-ríkjanna stoðum undir það að eftir nokkra áratugi verði kerfið almennt farið að skapa eftirlaunaþegum góða framfærslu. Sá framreikningur byggir á því hvernig kerfið var 2018 og hverju það muni skila einstaklingi sem starfar í óbreyttu kerfi í 40 ár.
Hér eru vissulega jákvæð teikn á lofti sem sýna fram á möguleika kerfisins, en það er hins vegar engin vissa fyrir því að það fái að þróast og styrkjast í friði með þessum hætti næstu áratugina. Alþjóðlegar samanburðarrannsóknir geta hins vegar verið flóknar í framkvæmd og ýmsir séríslenskir þættir skekkja myndina og gefa rangar vísbendingar um örlæti íslenska kerfisins. Sem dæmi þá hefst lögbundinn eftirlaunaaldur hér síðar en hjá flestum þeim þjóðum sem við viljum miða okkur við, eða við 67 ára aldur. Það er líka töluvert algengt að Íslendingar seinki töku ellilífeyris meira en gengur og gerist í OECD-löndunum, eða langleiðina til sjötugs, og margir halda líka áfram að vinna eftir að hafa hafið töku lífeyris. Auk þess segir svona framreikningur ekkert um kjör núverandi ellilífeyrisþega eða þeirra sem fara á eftirlaun næstu tvo áratugina eða svo.
Þegar horft er til samfélagslegra heildarhagsmuna þá er lítið við því að segja að tekjutengingu sé að finna innan ellilífeyriskerfisins, en hún er klárlega of mikil, og ríkið tekur orðið allt of mikið til sín þegar almenn skattheimta bætist svo þar við. Hafa ber í huga að ellilífeyriskerfið er ekki lokað kerfi þar sem skerðingarnar á almannatryggingalífeyri þeirra sem betur eru settir fjárhagslega hífa sjálfkrafa þá upp sem verst eru staddir innan þess. Ef til vill væri eðlilegast að aðskilja ellilífeyriskerfið með einhverjum hætti frá ríkissjóði. Þá væri hægt að nýta þær almannatryggingagreiðslur sem dregnar hafa verið af þeim best settu í raunverulega endurdreifingu til þeirra sem lakast hafa það innan þess. Það væri hugsanlega skref í átt til þess að auka sáttina um kerfið. Í alþjóðlegu samhengi er Ísland vissulega stöndugt velferðarsamfélag þar sem algild fátækt er nánast óþekkt. En afstæða fátæktin er líka erfið, það er erfitt að geta ekki lifað lífinu í samræmi við þau efnahagslegu viðmið og gildi sem ríkja innan samfélagsins og slíkt grefur undan andlegri heilsu og sjálfsvirðingu fólks. Það er auðvitað ekkert lögmál að eldri borgarar eigi að geta framfleytt sér á lægri framfærslu en aðrir samfélagshópar. Ekki eru allir ellilífeyrisþegar í þeirri stöðu að geta gengið í eða nýtt eigið eignasafn til að bæta þar við sem upp á kann að vanta, og margt eldra fólk er ekki í stakk búið til að bæta efnahagslega stöðu sína með frekara vinnuframlagi.
Það vekur undrun að meðalskattbyrði eftirlaunafólks á árunum 1990-2019 hefur hækkað umtalsvert meira en hjá fólki á vinnualdri. Þessi þróun heldur áfram og vinnur þannig gegn þeim kjarabótum sem aukning á uppsöfnuðum lífeyrisréttindum hefði átt að færa nýjum lífeyrisþegum undanfarna tvo til þrjá áratugi. Eldri borgarar eru nú um stundir með skattbyrði nálægt eða rétt undir meðalskattbyrði allra framteljenda landsins þrátt fyrir að tekjur hópsins séu verulega undir meðaltekjum samfélagsins. Á sama tíma benda rannsóknir til þess að hlutfall eldri borgara hérlendis er eiga erfitt með að ná endum saman geti verið um 15%, sem hlýtur að teljast umtalsverð afstæð fátækt, og það er töluvert meira en afstætt fátækrahlutfall íslensku þjóðarinnar í heild. Hér er greinilega eitthvað á ferðinni sem þarfnast lagfæringar. Raunar er vart hægt að hugsa sér viðfangsefni sem meiri samfélagsleg sátt ætti að vera um en það að auka velferð eldri borgara. Öll eigum við foreldra, ættingja og vini sem eldast og verðum auk þess sjálf ellilífeyrisþegar með tímanum ef okkur endist aldur til.
Íslenska ellilífeyriskerfið er samfélagslega mikilvægt og kemur að lífi svo margra að það verður einfaldlega að ná fram sátt um það. Til þess þarf að samræma einstaklingsbundin og eignarréttarleg sjónarhorn annars vegar og hagsmuni hins opinbera hins vegar með lausn sem fléttar saman hagsmunum einstaklinga og heildar með viðunandi hætti. Slík lausn má þó aldrei fela í sér að hagsmunum hinna verst stöddu innan kerfisins sé fórnað. Grái herinn, baráttuhópur eldra fólks um lífeyrismál, höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu vegna óhóflegrar tekjutengingar, skerðingar og skattheimtu á ellilífeyri. Nú liggur fyrir að það mál hefur tapast bæði í héraði og Hæstarétti, en hafa ber í huga að lögmæti tiltekinna gjörninga þarf ekki endilega að fara saman með siðferðilegu réttmæti þeirra. Það þarf því augljóslega að fara aðrar leiðir til að ná fram sátt um kerfið, og raunar er óvíst að sú sátt hefði náðst þótt niðurstaðan hefði orðið önnur. Hér þarf að hafa margt í huga; til dæmis þá staðreynd að atvinnurekendur gætu greitt launþegum hærri laun ef skyldubundnar greiðslur í lífeyrissjóð yrðu lækkaðar eða felldar niður. Hugsanlega væri æskilegt að minnka sjóðsöfnun innan lífeyrissjóðakerfisins og auka jafnvel gegnumstreymi í staðinn. Það er ekki knýjandi nauðsyn heldur pólitísk ákvarðanataka að útvista ellilífeyriskerfinu meira og minna frá ríki til atvinnulífs.
Mikilvægasta skrefið er þó að lækka flækjustig kerfisins og gera það gagnsærra og einfaldara fyrir notandann. Í kjölfarið þyrfti að fara fram samfélagsleg umræða og skýr opinber stefnumótun á grunni þeirrar umræðu með það að leiðarljósi að ná fram ákveðinni niðurstöðu. Ef samkomulag næðist um hóflegar tekjutengingar, skerðingar og skattheimtu innan kerfisins, og grunnlífeyrir almannatrygginga væri nægjanlegur fyrir þá sem mest þurfa á að halda, gæti orðið til ellilífeyriskerfi hérlendis á tiltölulega skömmum tíma sem bæði eldri borgarar og verðandi eldri borgarar væru sáttir við.
Höfundur er viðskiptasiðfræðingur. Greinin er sú síðari af tveimur en þær byggja að stofni til á eftirfarandi meistararitgerð höfundar í hagnýttri viðskiptasiðfræði: Jósef Gunnar Sigþórsson. 2022. „Ísland best í heimi“? Um réttindi og skyldur innan íslenska ellilífeyriskerfisins.
Athugasemdir