Stríð Rússlands veldur ómældum skaða fyrir úkraínska þjóð og land þeirra. Í fréttamiðlun er áhersla á skaða stríðsins á líf manna, samfélags og innviði, en því til viðbótar eru grafalvarleg umhverfisáhrif.
Svarta gullið, svarta moldin Chernozem, auðlind Úkraínu, er ein frjósamasta mold sem finnst og þekur um 56% landsins. Matvælastofnun SÞ (FAO) gaf út fyrsta heimskort um svarta mold á alþjóðlegum degi jarðvegs, 5. des. 2022. Dökk að lit og full af lífrænum efnum, kolefni, og framleiðir mat ekki bara fyrir landsmenn heldur fyrir heiminn, hveiti, bygg, maís, repju, repjuolíu, sólblómafræ og sólblómaolíu. Úkraína er/var sannkölluð brauðkarfa Evrópu og heimsins. Blár og gulur þjóðfáni Úkraínu táknar einmitt gullna hveitiakra undir bláum himni.
Úkraína er sannkallaður landbúnaðarrisi, með 70% af sínu frjósama landi sem landbúnaðarland. Árið 2018 fór helmingur hveitiframleiðslunnar til Asíu og N-Afríku og 30% til Evrópu. Um 50 lönd eru háð Úkraínu og Rússlandi um allt að 30% af sínu hveiti. Mörg þeirra standa höllum fæti, glíma við vannæringu og flytja inn mest af sínum kaloríum. Rússland og Úkraína eru meðal mikilvægustu útflutningslanda heims af landbúnaðarvörum, mat og áburði. Talið saman var hlutur þeirra síðustu ár að meðaltali um 19, 14 og 4 prósent heimsframleiðslu af byggi, hveiti og maís.
Hvað er í húfi?
Stríðið hefur því áhrif langt út fyrir átakasvæðin og hefur áhrif á heimsmarkaðsverð fæðu sem þegar var hátt vegna Covid-19. Stríðið ógnar fæðuöryggi heimsins og hefur áhrif á hagkerfi heimsins, sjá til dæmis umfjöllun FAO um áhrif á fæðuöryggi heimsins, og um ástandið í Úkraínu og samantekt um áhrif stríðsins á fæðuöryggi heimsins og viðbragðstillögur FAO.
Til viðbótar við uppskerubrest er mikil röskun til dæmis á sáningu og uppskeru í akuryrkju yfir árið. Mannfall, mannekla, skortur á aðföngum, fræskortur, orkuskortur, peningaskortur, tap á landi til innrásaraðila, uppskera fer ekki fram eða skemmist á ökrunum eða við óviðunandi geymslu, óvissa með flutning á markað, þetta og margt fleira eru nýir þættir sem bændur Úkraínu þurfa að fást við.
Umhverfisáhrif einnar sprengju á akur er mikil, gígur opnast á yfirborði, dýralífi eytt, í kjölfarið er bruni, sprengivirk losun þungmálma og eiturefna dreifist yfir land og í andrúmsloft. Hugsið ykkur þær þúsundir vopna sem hafa sprungið yfir bæi, borgir, í iðnaðarhverfum og náttúrulegum svæðum. Um 16.000 eldflaugárásir voru fyrstu níu mánuðina, nú er svo komið að vopnaframleiðendur hafa varla undan að anna eftirspurn. Mengun vegna hernaðarárása getur borist úr jarðvegi í grunnvatn og andrúmsloft og dreifst þannig enn frekar. Þessi umhverfisógn á sér stað í stríði Rússlands gegn Úkraínu og mun valda skaða næstu ár, löngu eftir að stríði lýkur. Hvort sá skaði sé afturkræfur á eftir að koma í ljós. Jarðvegsfræðingar Úkraínu eru nú að rannsaka og læra að þekkja hvers konar mengun fylgir hverri vopnategund, og meta umfang skaða stríðsins. Auðvitað einungis á svæðum undir yfirráðum Úkraínu.
Jarðlög verða fyrir raski eftir skurðgröft og jarðvegur verður fyrir mengun og þjöppun vegna umferðar þungra stríðstækja, og bruna ökutækja og skriðdreka. Önnur vopn líkt og jarðsprengjur sem skildar eru eftir í jarðvegi valda sams konar skaða á umhverfi og lífi. Jafnvel fyrir stríðið var Úkraína einna mest mengaða land af jarðsprengjum, nú er talið að um 30% landsins sé mengað út frá jarðsprengjum.
Tjón á mannvirkjum, iðnaðarsvæðum og innviðum, olíulekar, skemmdir á vatnsveitum og fráveitum og ryk valda frekari mengun í lofti, vatni og jarðvegi og neikvæðum áhrifum á heilsu manna. Stríðsrekstur felur í sér aukna losun gróðurhúsalofttegunda, raskar hagkerfum heimsins.
Allt þetta hefur áhrif á vistkerfi, leiðir til eyðileggingar búsvæða, taps á líffræðilegri fjölbreytni og verri þjónustu vistkerfa.
Umhverfisáhrif stríðsins eru alvarleg og líkleg til að versna. Því er spáð að áhrifin á vatn, loft, jarðveg og dýralíf vari til langs tíma. Áhrif sem valda verri lífsgæðum og verri þjónustu vistkerfa. Einnig er líklegt að þetta geri okkur erfiðara að ná árangri við aðrar áskoranir í umhverfismálum heimsins, svo sem loftslagsbreytingum, tapi á líffræðilegum fjölbreytileika og heimsmarkmiðum um hlutleysi gegn landhnignun og sjálfbærni. Vísindamenn Úkraínu og aðrir eru að meta skaðann en erfitt er að greina áhrif þegar stríðið stendur enn yfir.
Mynd byggð á grein Pereira 2022:
Uppskera
Í upphafi stríðsins voru miklar áhyggjur af áhrifum þess á fæðuöryggi. Erfitt er að áætla hversu stór uppskerubrestur er vegna stríðsins, og tölur um það eru misvísandi. Í sumar var uppskera hveitis áætluð um 19 milljónir tonna, eða um 40% minni en síðasta uppskerutímabil, og talið líklegt að enn minni uppskera fengist 2023. Minni notkun á áburði mun einnig skila minni uppskeru fyrir þá bændur sem þó munu sá í akra.
Við lok ársins í desember taldi NASA líklegt að bændur hefðu náð inn 26,6 milljónum tonna af hveiti árið 2022, nokkuð meira en spáð hafði verið, en samt minna en uppskera síðasta árs, sem var 33 milljónir tonna, en nálægt 5 ára meðaltalinu sem er 27,9 milljónir tonna. Hins vegar, vegna stríðsins, hefur Úkraína ekki aðgang að um 22% af þessu hveiti sem er í Austur-Úkraínu.
Matvælastofnun SÞ telur hins vegar að uppskera ýmissa tegunda hafi verið um 20% minni en meðaltal áranna 2018-2020.
Mikil hækkun varð á matvælavísitölu FAO við innrás Rússa í Úkraínu, og náði hámarki í mars 2022. Nú í lok ársins hefur sú verðhækkun gengið nokkuð til baka. Markaður hefur lagað sig að breyttum aðstæðum nú í ár þar sem hveiti frá Ástralíu, Brasilíu og Bandaríkjunum kom inn í stað afurða Úkraínu, en enn er langt í land að áhrif á fæðuöryggi séu úr sögunni. Áfram er spáð að matvælaverð í heiminum haldist hátt, margt spilar þar inn í flókinn samkeppnismarkað, auk stríðsins, til dæmis óvissa með flutning á afurðum og aðföngum, orkukreppa og fleira.
Staðan eftir eitt ár
Samkvæmt samantekt ráðuneytis umhverfisverndar og náttúruauðlinda Úkraínu birt 2. desember, þá hefur 9 mánaða stríðsrekstur Rússlands haft áhrif á 3 milljónum hektara úkraínskra skóga, 450.000 hektarar eru undir hernámi eða á bardagasvæðum. Náttúruleg svæði Úkraínu eru mikilvæg m.t.t. líffræðilegrar fjölbreytni. Svæði 900 náttúrufriðlanda sem svara til 1,24 milljón hektara hefur orðið fyrir áhrifum stríðsins. Umhverfisspjöll eru þegar talin svara til tjóns upp á a.m.k. 5467 milljarða ISK. Umfang tjóns á landbúnaðarsvæðum er enn ótalið, og umfang tjóns á átakasvæðum er ótalið.
Í stað þess að Úkraína sé matarkarfa heimsins sem fyrir stríðið fæddi sitt fólk og svo til viðbótar um 400 milljónir manna utan Úkraínu. Þá var staðan í desember um 9,3 milljónir manna í Úkraínu sjálfri, sem þarfnast matar og annarrar aðstoðar við framfærslu. Í febrúar hafði talan hækkað í 12,2 milljónir. Það er, ein af hverjum þremur fjölskyldum á í erfiðleikum með að fá mat.
Mannúðaraðstoð fengu 15,8 milljónir á árinu 2022, en það voru mun fleiri, eða 17,7 milljónir, sem þörfnuðust hjálpar. Við lok ársins 2022 voru um 5,6 milljónir Úkraínumanna vegalaust fólk innan eigin lands, þessi tala var í hámarki í byrjun maí þegar 8 milljónir voru á flótta. Um 8 milljónir eru nú flóttafólk í Evrópu. Um 16 milljónir manna þarfnast vatns og hreinlætisaðstoðar. Fólk á við mismunandi aðstæður, á flakki eða íbúar á svæðum þar sem skortur er á hreinu vatni, vegna skorts á orku eða innviðir, vatnsveitur, fráveitur hafa verið eyðilagðar eða mengað út frá sér. Við slíkar bágbornar aðstæður í stríði er svo aukin hætta á að smitsjúkdómar breiðist út og auki neyð fólksins enn frekar.
Stríðið stendur enn yfir og óljóst er um umfang skaða á líf íbúa og umhverfisins í Úkraínu og næstu nágrannalanda sem og heiminum, vegna mengunar, loftslagsáhrifa og fæðuskorts. En ljóst er að þarna bíður eitt stærsta verkefni Evrópu á endurheimt gæða jarðvegsins og þjónustu vistkerfa.
Umhverfi og öryggi manna er samofið. Svar alþjóðasamfélagsins hlýtur að vera krafa um endurheimt landkosta Úkraínu og bætur fyrir umhverfisskaða stríðsins, vistmorð Úkraínu. Heimurinn stendur með Úkraínu, meirihluti ríkja á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna samþykkti 23. febrúar sl. ályktun þar sem krafist er að rússneskur her hverfi tafarlaust og án skilyrða frá Úkraínu. Óvissan er mikil, hvenær verða velsældarvísar Úkraínu, mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði, komnir í viðunandi horf og akrar gullnir á ný?
Athugasemdir