Fyrirtæki í eigu ríkisins og sveitarfélaga höfðu atkvæðarétt og tóku þátt í atkvæðagreiðslu um verkbann Samtaka atvinnulífsins á félagsfólk Eflingar. Verkbannið felur í sér að um 20 þúsund félögum er bannað að vinna og fá ekki greidd laun á meðan. Engu skipti hvar á landinu fyrirtækin eru staðsett né hvort þau ættu með einhverjum hætti aðild að kjaradeilunni.
Á meðal stjórnenda fyrirtækja sem áttu kost á að greiða atkvæði um verkbann voru stjórnendur Íslandsbanka, þar sem ríkissjóður er stærsti hluthafinn, og Landsbanka, sem er að nær öllu leyti í eigu ríkisins, auk stjórnenda Landsvirkjunar, RARIK og Ríkisútvarpsins, sem öll eru í eigu ríkisins. Samtals eru sex opinber hlutafélög, sem eru fyrirtæki að fullu í eigu ríkisins, í félagatali SA. Fleiri félög í ríkiseigu, svo sem dótturfélög þessara opinberu hlutafélaga, og önnur sem eru í eigu sveitarfélaga, höfðu einnig atkvæðarétt, Orka náttúrunnar, Hitaveita Egilsstaða og Fella og Fráveita Hafnarfjarðar, svo dæmi …
Venjulegir Íslendingar hafa alist upp við þá trú að í lýðræði birtist vilji meirihlutans jafnframt því að jafnræði sé með þeim sem hafa rétt til að kjósa.
Í yfirstandandi kjaradeilu virðast reglur lýðræðisins litlu skipta.
Skv. lögum um atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara gætu 90% þeirra sem greiða atkvæði um tillöguna verið á móti en samt væri tillagan samþykkt, þ.e. ef nægilega margir sitja heima og greiða ekki atkvæði. Þetta er ekki lýðræðisleg kosning - það sjá allir.
„Lýðræðið er öflugasta verkfærið sem við eigum“ sagði Halldór Benjamín framkvæmdastjóri SA í viðtali við Morgunblaðið.
Halldór er ekki að tala um lýðræði eins og við þekkjum það - því innan Samtaka atvinnulífsins er lýðræðið mælt í krónum og aurum. 44% aðildarfélaga SA eru smáfyrirtæki með 10 starfsmenn eða færri, 5,5% eru með 250 starfsmenn eða fleiri. Gildi atkvæða í kosningu um verkbann „miðast við greidd árgjöld næstliðins reikningsárs“ og árgjöld „reiknast af heildarlaunagreiðslum næstliðins árs og gildir það einnig um launagreiðslur stjórnenda fyrirtækja.“ (Ofurlaun forstjóra og annarra stjórnenda get því skilað nokkrum atkvæðum hjá SA).
Icelandair er með rúmlega 3000 starfsmenn og greiða því háar fjárhæðir til SA - og hefur fyrirtækið því margfalt atkvæðavægi. Önnur dæmi um stór fyrirtæki eru Festi og Eimskip sem eru með tæplega 2000 starfsmenn hvort félag og hafa atkvæðavægi í samræmi við það. Til að vega á móti atkvæðum þessara þriggja fyrirtækja þarf um 700 - 800 lítil fyrirtæki og 110 stærstu fyrirtækin, eða um 5% fyrirtækjanna í SA, geta ráðið um helming atkvæða.
Verkbann SA var samþykkt með 94,73% atkvæða og þátttaka var 87,88%. Þessar hlutfallstölur segja okkur ekki hve mörg af um 2000 aðildarfélögum SA eru hlynnt verkbanni, tölurnar segja að meirihluti fjármagnsins sem ræður atkvæðavægi hafi greitt atkvæði og samþykkt verkbann. Á Íslandi eru starfandi rúmlega 20000 fyrirtæki þannig að aðeins um 10% þeirra eru í SA.
SA telur sig hafa umboð til að reka tuttuguþúsund félaga Eflingar úr vinnu með boðuðu verkbanni. En eins og fram er komið þá eru það stóru fyrirtækin sem ráða för og er greinilegt að það hugnast ekki öllum fyrirtækjaeigendum að fylgja þeim að málum.
Sigmar Vilhjálmsson formaður samtaka smærri fyrirtækja sem nefnast Atvinnufélagið hefur lýst þeirri afstöðu að SA verji ekki hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja þegar hagsmunir þeirra fara ekki saman með hagsmunum stóru fyrirtækjanna.
Aðalgeir Ástvaldsson framkvæmdastjóri SVEIT, sem eru samtök um 150 fyrirtækja sem eru í Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, tilkynnti Samtökum atvinnulífsins um að fyrirtæki innan vébanda þeirra telji sig óbundin af ákvörðun SA um að setja verkbann á félaga Eflingar.
Ólýðræðislegt skipulag SA sýnir að fjármagnið ræður för og í krafti þess ætla valdamestu fyrirtækin að leiða ómælt tjón yfir landsmenn. Og tilgangurinn er sá að sýna að verkalýðurinn skal ekki komast upp með aðrar kröfur en þær sem SA hefur blessað, að láglaunafólk á Íslandi skuli ekki ná endum saman nema með óhóflegu vinnuálagi.