„Flestum ætti að vera það ljóst, sem horfa núna á efnahagsstöðuna hvernig hún hefur breyst frá jólum – þegar allir þessir þættir eru lagðir saman – og ég get alveg tekið undir orð forsætisráðherra að það sé alveg óþarfi að vera í sífelldum „bendingarleik“, að allt hefur lagst á eitt til þess að hita upp í íslensku hagkerfi. Sem verður meðal annars til þess að við verðum að hækka stýrivesti meira og það er ekki með léttum hug sem við verðum að hækka stýrivexti. Svo það sé alveg á hreinu.“
Þetta er meðal þess sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun þar sem hann og aðstoðarseðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir, sátu fyrir svörum nefndarmanna. Umræðuefnið var áhrif verðbólgu á hagkerfið og heimilin í landinu.
Hann benti á að núna væru stýrivextir 6,5 prósent. „Ég veit ekki hvað við þurfum að gera til þess að ná verðbólgunni niður þannig að það er ekki með léttum huga sem við gerum það.“
Ýmislegt var skeggrætt á fundinum og voru vaxtahækkanir Seðlabankans ofarlega í huga nefndarmanna. Ekki er það að ástæðulausu en Heimildin greindi frá því í gær að allir helstu lánveitendur hefðu hækkað óvertryggða vexti sína í kjölfar nýjustu stýrivaxtarhækkun Seðlabanka Íslands. Greiðslubyrði slíkra lána hefur hækkað um 42 prósent frá því í maí í fyrra. Á sama tíma hefur hlutfall þeirra heimila sem ná ekki endum saman farið úr tíu í 18 prósent.
Viðskiptahallinn stafar af neyslu – ekki bara Tenerife-ferðum
Seðlabankastjóri sagði í byrjun október síðastliðnum að kröftugt viðbrögð í einkaneyslu á fyrri helmingi ársins þyrfti ekki að koma á óvart. Tíðar tásumyndir frá Tenerife á Kanaríeyjum hefðu verið merki um að heimili landsins hefðu nýtt sér uppsafnaðan sparnað sem safnaðist í kórónuveirufaraldrinum. Varðandi fleyg orð Ásgeirs um tásur á Tenerife þá benti hann á á fundinum í morgun að gengi krónunnar hefði veikst um 10 prósent frá síðasta hausti og fram í janúar sem stafaði af viðskiptahalla.
„Viðskiptahallinn stafar af neyslu og það er margt sem kemur þar til – ekkert bara utanlandsferðir. Líka bara kaup á ýmsum varningi. Þessi orð féllu þegar ég var að útskýra það af hverju Seðlabankinn væri ekki að fara yfir gjaldeyrismarkaðinn og verja gengi krónunnar. Þetta var bara til þess að reyna að fá fólk til að skilja þetta því við getum ekki staðið í því að fjármagna viðskiptahalla. Við bara getum ekki gert það sem þjóð. Rétta stýritækið þar eru vextir.
Við hins vegar gripum inn í gjaldeyrismarkaðinn á árinu 2020 vegna þess að viðskiptahallinn þá stafaði af því að okkar helsta atvinnugrein, ferðaþjónustan, hafði orðið fyrir miklu höggi. Ég held að allir hafi skilið þetta, ég held að öll þjóðin hafi áttað sig á því af hverju gengið væri að veikjast og af hverju við vorum í þessari stöðu.“
Hann sagði að hann hefði gert sér far um það að tala skýrt. „Og ég fæ ekki annað séð en að þjóðin sé nokkurn veginn með á því hvað er að gerast líka. Ég fær ekki annað séð en þegar ég les blöðin og fjölmiðla að þjóðin átti sig á nákvæmlega hvernig efnahagsframvindan er. Það er að einhverju leyti takmarkað hvað Seðlabankinn getur gert og hvað hann getur ekki gert. Stundum ganga hlutirnir öfugt við það sem maður hafði vænst.“
Hefur sérstaklega áhyggjur af fólki á leigumarkaði
Ásgeir sagðist jafnframt ekki hafa sérstakar áhyggjur af fólki sem ætti húsnæði og væri með óverðtryggð eða verðtryggð lán – fólk hefði val um hvora leiðina það færi í þeim efnum. Hann hefði frekar áhyggjur af þeim sem væru á leigumarkaði.
„Ég hef sjálfur ekki svo miklar áhyggjur af þeim sem eru á fasteignamarkaði, sérstaklega ekki þeim sem keyptu á góðum tíma og eru búnir að fá miklar hækkanir á fasteignaverði – og sérstaklega þeim sem fengu nafnvaxtalán þar sem skuldabréfin hafa hækkað um raunvirði um ein 20 prósent jafnvel. Ég hef ekki áhyggjur af þessu fólki. Ég hef áhyggjur af ungu fólki sem er að koma inn á leigumarkaðinn og langar til að stofna heimili og koma sér fyrir,“ sagði hann.
Verðbólgan bitnar mest á þeim sem minnst hafa
Rannveig sagði meðal annars á fundinum að þau hefði ekki áhyggjur af skuldastöðu fyrirtækja né heimila. „Við höfum aftur á móti gríðarlegar áhyggjur af verðbólgunni. Fyrst og fremst vegna þess að verðbólga er í rauninni svona eins og öfugur skattur og bitnar mest á þeim sem eru með lægstar tekjurnar. Þeim sem eru bara að fá laun en eru ekki með sparnað og annað til þess að ganga á.“
Hún benti enn fremur á að verðbólgan væri ekki einungis að hækka vegna húsnæðis. „Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 8,3 prósent í janúar þannig að þetta er ekki bara húsnæði. Það er heldur ekki bara opinberar hækkanir því að ef við horfum á alla undirliði vísitölunnar – munum það að verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent – þá voru í janúar 70 prósent liða að hækka meira en 6 prósent. Þannig að verðbólgan er orðin á mjög breiðum grunni og það er eitthvað sem við höfum gríðarlegar áhyggjur af.“ Í þessu samhengi hafi peningastefnunefnd áhyggjur af áhrifum nýrra kjarasamninga.
Athugasemdir