Það er verið að klippa róna fyrir framan mig. Ég er staddur einhvers staðar. Í sófanum heima, uppi í rúmi, á klósettinu, á sólarströnd, í skíðaferð, í rykmettaðri rútu í Andesfjöllunum, í sótthreinsaðri tannlæknabiðstofu í Hlíðasmára. Það skiptir engu hvar ég er staddur í tíma og rúmi. Beint fyrir framan mig er verið að klippa róna. Klippa róna? Hvað er ég að tala um? Ég er að tala um nákvæmlega það. Það er verið að taka alkólíseraðan útigangsmann og klippa á honum hár og skegg í rakarastól. Það er verið að klippa róna fyrir framan mig. En mig grunar að ég þurfi að útskýra málefnið ögn betur.
„Þú ert samhengislaust, sjálfsmyndarlaust andlag reiknilíkana.“
Jú, sjáið til. Það sem um ræðir eru myndbönd sem sýna róna vera klippta. Þessi myndbönd spilast í símanum mínum og tölvunni minni þegar ég opna samfélagsmiðlana. Ég bað í raun aldrei um að fá þessi myndbönd inn í vitund mína. Einn daginn virðist bara svona myndband hafa poppað inn á fréttaveituna mína og ég hef horft á það til enda, og með því gefið til kynna að ég kunni að meta það. Með öðrum orðum: Mín stafræna saga virðist sýna – og tölur ljúga aldrei – að ég er mjög gjarn á að horfa á rónaklippivídeó alveg til enda, og þess vegna hugsar forritið: „Hey, höldum áfram að sýna þessum gaur rónaklippivídeó. Klippum róna fyrir framan hann þar til hann segir stopp.“ Og ég hef ekki enn sagt stopp. Það er enn verið að klippa róna fyrir framan mig.
Skammtur hvers og eins er ólíkur
Áður en lengra er haldið þarf ég náttúrlega enn og aftur að vera viss um að það sem ég er að segja hér virki ekki eins og samhengislaus þvæla fyrir lesendur. Ég átta mig á því að einhverjir vita líklega ekkert hvað ég er að tala um. Það er vegna þess að það er ekki víst að það sé verið að klippa róna fyrir framan ykkur. Ykkar „skammtur“ er kannski fólginn í einhverju allt öðru. Kannski fáið þið sífellt myndbönd af fólki að lakka á sér neglurnar, fólki að mála húsþök, labradorhundum að syngja diskólög, bankastarfsmönnum í Malasíu að teygja hendurnar til himins, dyraötum, fólki að skafa mosa af gömlum gangstéttarhellum eða hvaða „efni“ sem reiknilíkönin, hvort sem þau eru í boði Facebook eða TikTok, hafa reiknað út að þið fáið ekki nóg af. Það sem er allavega líklegt er að þið sjáið meira af einni tegund af myndböndum en öðrum – en það eru einmitt myndböndin sem þið eruð gjörn á að horfa á til enda. Í mínu tilfelli eru það myndbönd þar sem rónar eru teknir af götunni og þeir klipptir. Þar liggur minn veikleiki. Og nú vil ég beina athyglinni að því að nýju.
Þó að rónaklippivídeóin virðist vera nánast endalaus (mér sýnist ég sjá nýtt og nýtt á hverjum degi) þá eru þau í raun öll nákvæmlega eins. „Söguþráðurinn“ er eftirfarandi. Heimilislaus, loðinn og óþrifalegur náungi, oftast klæddur í larfa, er tekinn inn af götunni. Honum er skellt í rakarastól á mjög hipp og kúl rakarastofu þar sem ungur og vel snyrtur rakarinn lætur sínar tattúveruðu lipru hendur leika um höfuð rónans með ýmist skærum eða rakvél.
Myndböndin eru klippt hratt þannig að eftir aðeins 1-2 mínútur fáum við að sjá endurbreyttan rónann í allri sinni dýrð og kemur þá í ljós að undir öllu hárinu er að finna manneskju með andlit. Við fáum „að stara inn í lofttæmi augna hans“, svo vitnað sé í orð Dylans. Að klippingunni lokinni er róninn svo klæddur í tískulegan fatnað sem eru oftast herraleg jakkaföt með „bro“-twisti. Hápunktur myndbandsins er þó skömmu síðar þegar við fáum að sjá rónann horfa á sjálfan sig í spegli til að virða fyrir sér umbreytinguna. Þá fáum við áhorfendur örlítinn dópamínskammt, enda örlar jafnvel á oggulitlu stolti í augum rónans. Þetta gefur okkur notalega tilfinningu um að nú hafi manneskju verið bjargað af götunni. Stundum glittir í tár, stundum ekki, og stundum fylgir með stutt komment frá rakaranum þar sem hann segir að honum líði alltaf vel í hjartanu eftir að hafa gert góðverk eins og þetta – því mestu góðverk sem hægt er að gera er að láta fólk líða vel með sjálft sig. Því næst er róninn kvaddur og hann gengur, vel snyrtur í tískulegum fatnaði, út í sólina, með pírð augu, lyktandi af rakspíra. Og yfirleitt finna þessir rónar sér svo góða vinnu, klífa upp metorðastigann, eignast börn og byrja að borga í lífeyrissjóð.
Uppnefni og einfaldanir
Eða reyndar alls ekki. Því auðvitað er málið ekki svona einfalt. Það sem við köllum „róna“, sem er í raun niðrandi uppnefni, eru oftast manneskjur með langa sögu af áföllum og fíknivanda. Rónaklippivídeó eru hranaleg fantasía. Hver einn og einasti þeirra endar á nákvæmlega sama stað og áður eftir að hárið vex aftur. Því alveg óháð hvaða fantasíur við viljum spila í höfðinu okkar – þá er ein hársnyrting ekki nægilegt inngrip í líf manneskju til að snúa áratuga löngum harmi við. Og það er líklega þess vegna sem ég vil í raun ekki sjá neitt meira en akkúrat þetta. Þegar róninn er kvaddur við útgang rakarastofunnar vil ég strax fá nýjan róna, nýtt vídeó, nýja klippingu. Ég vil láta klippa nýjan róna. Og í þessum heimi er einmitt svo mikilvægt að þetta séu bara „rónar“ en ekki manneskjur, því það væri alltof flókið að meðtaka alla áfallasöguna í svona stuttu myndbandi.
Þetta var aldrei meðvituð ákvörðun. Ég hef aldrei sest og ritað niður að efst á mínum „content“ óskalista séu stutt myndbönd af hipsterum að klippa róna. Ég hef ekki einu sinni hugsað þessa hugsun frá upphafi til enda fyrr en nú. Þessir sjúku órar eru bara eitthvað sem TikTok og Facebook og algrímarnir hafa sogað út úr mér og mínu hegðunarmynstri. Og auðvitað er þetta sjúkt. Ég veit vel að þetta er ekki ofbeldisfullt efni eða klám í hefðbundnum skilningi. En í raun er þetta ekkert mikið skárra. Ég hef rúllað, róna eftir róna, inn í vitund mína og kroppað úr hverjum þeirra eina dópamínögn og hent þeim svo frá mér eins og tómri kókómjólkurfernu. Og þessi samhyggðarögn sem ég hef fundið með rónunum er ígildi þess að henda tíkalli í hatt útigangsmanns og halda svo áfram göngu sinni en vera samt svo ósköp glaður yfir að vera ekki hann. „Once upon a time you dressed so fine, threw the bums a dime, in your prime“. Og við vitum hvernig sú saga endar.
Að vera ekki lengur til
Það eru víst bara til örfáar sögur undir sólinni og stór hluti þeirra eru einhvers konar útfærsla á: „Fátækur verður ríkur“. Öskubuska, Forrest Gump, Dolly Parton. Ekkert hefur jafn mikið aðdráttarafl og þetta grunnstef. En innan þessarar grunnsögu er að finna enn dýpri kjarna og sá kjarni er að harmurinn hverfur aldrei. Zidane að skalla Materazzi fyrir framan 1,5 milljarða áhorfenda. Charlie Chaplin að leika umrenninginn. Það skiptir ekki máli hversu ríkur maður verður, harmurinn er alltaf til staðar og hann er alltaf jafn óútreiknanlegur.
Í minni hröðu míkróskammta tilveru hafa nú litbrigði þessa grunnstefs verið eimuð niður í eilífa lúppu af hipster að klippa róna. Og þó að það sé fábreytilegt þá er það samt ekkert endilega ólógískt. Því í hvert skipti sem róninn birtist, nýklipptur og strokinn, þá verður manni svo ljóst að „harmurinn varir að eilífu“ svo vitnað sé til síðustu orða listmálarans Van Goghs. Þetta er þunglyndisleg niðurstaða, en lærdómurinn sem við eigum að draga er að sjálfsögðu að samfélög okkar eru byggð upp á þeim sáttmála að við öxlum harminn í sameiningu. Við lærum eitthvað af því að upplifa harm annarra. Og hver veit. Dag einn mun kannski einhver þessara róna skjóta gneistum sínum í gegnum skjáinn. Þú ert kannski í sófanum, kannski í Andesfjöllunum, kannski á tannlæknabiðstofu. En þú áttar þig skyndilega á að þú ert eiginlega hvergi enda er öll þín veröld bara sífelld míkró-endurgjöf af eigin hugsunum. Þú ert ekki neitt, átt engar rætur, átt hvergi heima. Þú ert samhengislaust, sjálfsmyndarlaust andlag reiknilíkana. Og hálfklipptur róninn beinir augum sínum að linsunni og spyr:
How does it feel?
Athugasemdir (2)