1 Hagnaðurinn minni en árið áður
Allir stóru bankarnir þrír; Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, hafa nú birt ársreikninga sína vegna ársins 2022. Samanlagður hagnaður þeirra á því ári var 66,9 milljarðar króna. Það er nokkuð minna en þeir þénuðu árið áður, sem var gríðarlega arðbært. Þá var hagnaður bankanna þriggja 81,2 milljarðar króna, eða 170 prósent meira en þeir högnuðust um árið 2020. Í fyrra hagnaðist Landsbankinn minnst, eða um 17 milljarða króna, en hinir tveir voru með svipaðar hagnaðartölur. Arion banki hagnaðist um 25,4 milljarða króna en Íslandsbanki um 24,5 milljarða króna.
Bankarnir þrír urðu allir til á grundvelli neyðarlaga sem sett voru haustið 2008, í kjölfar bankahrunsins. Þá voru eignir fallinna banka fluttar með handafli yfir á nýjar kennitölur. Samanlagður hagnaður stóru bankanna frá hruni er 817,1 milljarðar króna. Mestur var hann árið 2015, en þá litaði umfangsmikil eignasala uppgjörið.
2 Vaxtatekjur í aðalhlutverki
Stærsta tekjulind bankanna í fyrra voru hreinar vaxtatekjur. Þær voru samtals 129,9 milljarðar króna, eða næstum 25 milljörðum krónum meira en þær voru árið 2021. Hreinar vaxtatekjur jukust því um 24 prósent milli ára eftir að hafa einungis vaxið um 2,3 prósent milli 2020 og 2021.
Vaxtatekjurnar byggja á muninum á þeim vöxtum sem bankarnir borga fyrir að fá peninga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum fjármuni. Sá munur kallast vaxtamunur. Hann var 2,7 til 3,1 prósent á síðasta ári, sem er meiri munur en var árið áður, þegar hann var 2,3 til 2,8 prósent. Mestur var hann hjá Arion banka en minnstur hjá Landsbankanum, eina stóra banka landsins sem er að mestu í eigu íslenska ríkisins.Vaxtamunur íslenskra banka er talsvert meiri en þekkist á meðal annarra norrænna banka.
3 Hreinar þóknanatekjur upp um tíu prósent
Hinn stóri tekjupósturinn í grunnrekstri banka eru þóknanatekjur, stundum kallaðar þjónustutekjur. Þar er um að ræða þóknanir fyrir til dæmis eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf en líka þau gjöld sem einstaklingar og heimili greiða fyrir ýmis konar þjónustu sem bankarnir veita þeim. Hreinar þóknanatekjur Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka voru 40,8 milljarðar króna á síðasta ári. Það er tíu prósent meira en þær skiluðu bönkunum þremur í hreinar tekjur á árinu 2021. Hæstar voru þóknanatekjurnar hjá Arion banka, 16,1 milljarður króna, en lægstar hjá Landsbankanum, 10,6 milljarðar króna.
4 Eigið fé tveggja minnkaði
Bankar halda á miklu magni af eigin fé. Það magn sem þeir þurfa að halda á, til að geta til dæmis tekist á við áföll og virðisrýrnun lána, var aukið verulega eftir bankahrunið til að koma í veg fyrir að sama staða kæmi upp á ný. Eigið fé viðskiptabankanna þriggja var samanlagt 686,3 milljarðar króna um síðustu áramót. Það er 5,3 milljörðum krónum meira en þeir áttu í eigið fé ári áður en eigið fé tveggja banka, Arion banka og Landsbankans, dróst lítillega saman milli ára á meðan að það jókst hjá Landsbankanum.
5 Arðsemi eigin fjár verri en 2021
Sá mælikvarði sem stjórnendur banka nota til að mæla árangur sinn er ekki endilega hversu mikill hagnaður er í krónum talið, heldur hver hlutfallsleg arðsemi þessa eigin fjár er. Stjórnir viðskiptabanka á Íslandi gera kröfu um að arðsemi eigin fjár sé að minnsta kosti tíu prósent. Sögulega þá náði hún að vera sameiginlega rúmlega ellefu prósent að meðaltali hjá bönkunum þremur á árunum 2009 til 2018, en þar vigtar inn í að einskiptistekjur vegna t.d. sölu eigna voru umtalsverðar á fyrri hluta þess tímabils.
Arðsemi eigin fjár allra bankanna þriggja jókst umtalsvert á árinu 2021, þegar hún var á bilinu 10,8 til 14,7 prósent. Í fyrra dróst hún saman hjá öllum og var á bilinu 6,3 til 13,7 prósent, minnst hjá Landsbankanum og mest hjá Arion banka. Hjá Íslandsbanka var hún 11,1 prósent. Stærsta ástæða þess að arðsemin er svona lág hjá Landsbankanum er lækkun á gangvirði óskráðra eignarhluta bankans í Eyri Invest hf. sem nam 10,5 milljörðum króna í fyrra. Landsbankinn á 14,1 prósent í Eyri Invest, sem er langstærsti eigandi Marel.
Markaðsvirði Marel lækkaði um 43,9 prósent á síðasta ári, úr 663,5 milljörðum króna í tæplega 367 milljarða króna.
6 Kostnaðarhlutfallið breyttist
Önnur leið til að auka hagnað er að spara í kostnaði. Þar snýst allt um að ná niður hinu svokallaða kostnaðarhlutfalli, sem mælir hvað kostnaðurinn er stórt hlutfall af tekjum. Yfirlýst markmið íslensku bankanna er að ná því hlutfalli niður fyrir 40-50 prósent. Einfaldasta leiðin til að ná kostnaðarhlutfalli niður er að fækka starfsfólki.
Kostnaðarhlutfall Arion banka var 45,6 prósent og hjá Íslandsbanka lækkaði það úr 46,2 í 42,1 prósent milli ára. Mest var það hjá Landsbankanum þar sem kostnaðarhlutfallið mældist 46,8 prósent. Það hafði verið 43,2 prósent árið áður.
7 Seðlabankinn biður bankana að fara rólega í útgreiðslur
Ein skilvirkasta leiðin til að auka arðsemi eigin fjár er að minnka einfaldlega eigið féð með því að greiða það eigið fé sem þeir halda á umfram kröfur eftirlitsaðila út til hluthafa. Bæði Arion banki og Íslandsbanki hafa það sem yfirlýst markmið að gera það, í gegnum arðgreiðslur og endurkaup á bréfum. Minna eigið fé þýðir að hlutfallsleg arðsemi eiginfjár í annars óbreyttum rekstri eykst. Seðlabankinn hefur hins vegar beðið stóru bankanna um að stíga varlega til jarðar þegar kemur að útgreiðslu á eigin fé á næstunni.
Arion banki, eini stóri bankinn sem er ekki að neinu leyti í opinberri eigu, hefur verið allra banka duglegastur í þessari vegferð. Alls greiddi bankinn út arð eða keypti eigin bréf af hluthöfum fyrir 31,5 milljarða króna á árinu 2021. Í fyrra skilaði Arion banki skilað um 32,3 milljörðum króna til hluthafa sinna í gegnum arðgreiðslur og endurkaup á bréfum. Bankinn ætlar að greiða hluthöfum sínum út 12,5 milljarða króna í arð á grundvelli þessa árangurs í ár auk þess sem til stendur að halda áfram að kaupa eigin bréf af hluthöfum.
Íslandsbanki greiddi út 11,9 milljarða í arðgreiðslu í mars 2022 vegna ársins 2021. stjórn bankans leggur til að hluthafar fái 12,3 milljarða króna í arð vegna síðasta árs. Auk þess liggur fyrir áætlun um endurkaup á eigin bréfum upp á 15 milljarða króna. Í ársreikningi bankans segir að í ljósi „alþjóðlegrar efnahagsóvissu og óstöðugleika á fjármagnsmörkuðum hefur Seðlabanki Íslands beðið íslensku bankanna um að stíga varlega til jarðar þegar kemur að útgreiðslu eigin fjár á næstunni. Því hefur bankinn í hyggju að ráðast í endurkaup eigin hlutabréfa með hefðbundnu endurkaupaferli að fjárhæð fimm milljarðar króna. Þeim tíu milljörðum króna sem eftir standa verður bætt aftur við eigið fé bankans til útreiknings eiginfjárhlutfalla. Bankinn mun óska eftir endurnýjaðri heimild til endurkaupa á eigin hlutabréfum á aðalfundi bankans í mars og hefur áform um að bæta enn frekar samsetningu eigin fjár fyrir árslok 2024.“
Landsbankinn greiddi samtals 20,6 milljarða króna í arð á árinu 2022. Í nýbirtum ársreikningi hans segir að bankaráð Landsbankans leggi til að 8,5 milljarðar króna verði greiddir út vegna síðasta rekstrarárs. Verði tillagan samþykkt munu arðgreiðslur Landsbankans á árunum 2013 til 2023 samtals nema 175,2 milljörðum króna.
8 Há laun og bónusgreiðslur á fullu í einum banka
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, fékk alls 87,2 milljónir króna í laun frá bankanum í fyrra eða um 7,3 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Heildarlaun hans, sem samanstanda af launum, árangurstengdri greiðslu upp á 9,1 milljón króna og mótframlagi í lífeyrissjóð, hækkuðu um 25 prósent milli ára. Á árinu 2021 fékk Benedikt 69,8 milljónir króna greiddar, eða um 5,8 milljónir króna á mánuði að meðaltali. Arion banki hefur einn stóru bankanna innleitt kaupauka- og kaupréttarkerfi sem umbunar starfsfólki umtalsvert. Í fyrr gjaldfærði bankinn 1,6 milljarð króna vegna kaupaukakerfisins sem er svipuð upphæð og fór í bónusa árið áður, en það kerfi virkjast ef Arion banki nær því markmiði að vera með meiri arðsemi en helstu samkeppnisaðilar sínir. Það hefur náðst síðustu tvö ár. Samkvæmt kaupréttaráætlun Arion banka geta allir fastráðnir starfsmenn keypt hlutabréf í bankanum fyrir 1,5 milljón króna einu sinni ári í fimm ár, en áætlunin stendur fram á árið 2026.
Heildarlaun bankastjóra og lykilstjórnenda hinna stóru bankanna, Landsbankans og Íslandsbanka, breyttust líka í fyrra. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, var með 61,6 milljónir króna í heildarlaun á árinu 2022, eða 5,1 milljón króna að meðaltali á mánuði. Laun hennar hækkuðu um 14 prósent á milli ára.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka var með 59,8 milljónir króna í heildarlaun á síðasta ári. Það var rúmum tveimur milljónum krónum meira en hún fékk í föst laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóði á árinu 2021. Þá voru heildarlaun hennar hins vegar 68,6 milljónir króna vegna þess að Birna fékk sérstaka 10,9 milljón króna greiðslu vegna yfirvinnu í tengslum við undirbúning hlutafjárútboðs og skráningar Íslandsbanka á markað sumarið 2021.
9 Fækkar hjá Íslandsbanka en fjölgar hjá Arion banka
Landsbankinn er að nánast öllu leyti í eigu íslenska ríkisins þótt nokkur fjöldi starfsmanna eigi lítinn hlut. Arion banki hefur verið skráður á markað frá sumrinu 2018. Fjöldi hluthafa hans var 7.400 í lok árs 2020, 11.287 í lok árs 2021 og 12.059 um síðustu áramót. Þeim hefur því fjölgað um 63 prósent á tveimur árum.
Íslandsbanki var einkavæddur að hluta sumarið 2021 þegar íslenska ríkið seldi 35 prósent hlut í bankanum í almennu útboði, sem fjölgaði hluthöfum hans gríðarlega. Hluthafarnir voru um 24 þúsund eftir að því útboði lauk. Alls 22,5 prósent í viðbót var svo selt í lokuðu útboði í mars 2022 til alls 207 fjárfesta.
Hluthöfum í bankanum hefur fækkað skarpt frá almenna útboðinu og voru ríflega 13 þúsund í lok síðasta árs. Þeim hefur því fækkað um ellefu þúsund frá sumrinu 2021.
10 Unnið að gerð stærsta banka á Íslandi
Nýverið var greint frá því að stjórn Kviku hefði óskað eftir því við stjórn Íslandsbanka að hefja viðræður um samruna bankanna tveggja. Stjórn Íslandsbanka samþykkti að hefja viðræður á fundi sínum 9. febrúar síðastliðinn.
Báðir bankarnir eru skráðir á hlutabréfamarkað, en Íslandsbanki er miklu stærri en Kvika banki. Virði beggja hefur tekið stökk upp á við eftir að greint var frá beiðninni um samrunaviðræður.
Markaðsvirði Íslandsbanka er nú 255 milljarðar króna á meðan að markaðsvirði Kviku banka er um 97 milljarðar króna. Verði af sameinungunni mun sameinaður banki verða sá stærsti á Íslandi.
Íslandsbanki er til rannsóknar hjá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands í tengslum við framkvæmd á lokaða útboðinu á hlut ríkisins í bankanum í fyrravor. Frummat þess liggur þegar fyrir og þar kemur fram að eftirlitið telji Íslandsbanka hafa brotið lög og reglur. Í nýbirtum ársreikningi Íslandsbanka er gert ráð fyrir því að greiða stjórnvaldssekt vegna þessa en ekki er greint frá því hversu há sú færða skuldbinding er.
Athugasemdir