Umgjörð sjókvíaeldis á Íslandi fær algjöra falleinkunn í kolsvartri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom fyrir augu þingsins í gær. Aldrei áður hefur Ríkisendurskoðun gert jafnmargar athugasemdir í úttektum sínum.
Og myndin er réttilega kolsvört; eftirlit og stjórnsýsla á sjókvíaeldi er veikburða og brotakennd og þó lagabreytingar hafi verið gerðar til úrbóta hefur þeim ekki verið fylgt eftir. Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinnur gegn því að auðlindin skili hámarks ávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda.
Leyfum til sjókvíaeldis hafi verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds og jafnvel dæmi um að uppbygging skarist á við aðra mikilvæga nýtingu strandsvæða, svo sem siglingaleiðir og helgunarsvæði fjarskipta- og raforkustrengja. Þetta er samantekt á þeim athugunum Ríkisendurskoðunar. Hér er sumsé komin staðfesting á þeim áhyggjum sem hafa verið viðraðar síðastliðin ár af þingmönnum á Alþingi og úti í samfélaginu af hálfu náttúruverndarsamtaka sem hafa haldið uppi öflugu aðhaldi við stjórnlausa uppbyggingu greinarinnar.
Sjókvíaeldi hefur nefnilega vaxið stjórnlaust og veikburða viðleitni til að skapa skárri lagaumgjörð er líka á ábyrgð Alþingis. Þingmenn bera þar líka ábyrgð. En þrátt fyrir veika lagaumgjörð sem þó hefur verið samþykkt á þingi, er varla farið eftir þeim lögum sem hafa verið sett. Grundvallarstofnunum á borð við Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Hafrannsóknarstofnun, er falið veigamikið hlutverk í þessum málaflokki, í vöktun, mælingum og rannsóknum en líka að framfylgja þeim lagasetningum sem þó hafa verið settar hér á þinginu, en líka að standa vörð um nýtingu.
Undirfjármögnun veikir mikilvægar stofnanir og eftirlit
Rauði þráðurinn er að þessar mikilvægu eftirlitsstofnanir eru undirmannaðar og alltof fjárvana til að sinna sínum lögbundnu hlutverkum. Og þar með bætast þær í hóp ríkisstofnanna sem einfaldlega geta ekki sinnt gríðarlega mikilvægu, lögbundnu hlutverki sínu vegna fjárskorts. Hlutverk sem varðar ekki bara vöktun á nýtingu auðlinda í viðkvæmu vistkerfi hafsins og þar með gríðarlega mikilvæga vöktun og eftirlit út frá náttúruverndarsjónarmiðum eða verndun lífríkis, heldur snýst þetta líka um að tryggja að starfsumhverfi greinarinnar uppfylli öll eðlileg skilyrði og kröfur og skili okkur sannarlega tekjum í ríkissjóð sem vonast er til. Og uppfylli sjálfsagðar kröfur íbúa landsbyggðarinnar um fjölbreyttni í atvinnumál í heimabyggð. Kröfur sem geta samt ekki verið keyrðar áfram með undanlátssemi í garð óviðunandi starfshátta og meðferðar á lífríki hafsins.
Tekið við vondu búi
Viðbrögð matvælaráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins við skýrslu Ríkisendurskoðanda voru góð, þar sem hún sagði að mikilvægt væri að taka alvarlega þá gagnrýni sem er að finna í skýrslunni, enda staðan mjög dökk. Það er líka ljóst að matvælaráðherra tók við vægast sagt skelfilegu búi frá forrennara sínum, sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins. Sem virðist ekki hafa gert neitt af nokkru viti til að styrkja umgjörðina í kringum þessa viðkvæmu atvinnugrein og þennan viðkvæma málaflokk sem snýst um nýtingu á viðkvæmu lífríki og að halda vernd utan um náttúruauðlindir. Matvælaráðherra talaði í fréttum um mikilvægi þess að ná utan um stöðuna og hamraði á mikilvægi þess að ná utan um málaflokkinn og stöðuna með skýrum hætti sem snertir á fleiru en einu ráðuneyti og mörgum stofnunum. Að þrátt fyrir að ráðuneyti hennar muni bregðast strax við þó engar lagabreytingar verði á þessu vorþingi.
Ég vil hvetja ráðherrann til dáða, og þrátt fyrir engar lagasetningar, að vera í góðu sambandi við þingið og þingnefndir um viðbrögð og næstu skref. Ég treysti líka matvælaráðherra vel til að horfa til umhverfissjónarmiða sem umhverfisverndarsamtök hafa haldið staðfastlega á lofti undanfarin ár. Ekki veitir af að bregðast strax við, því tíminn er knappur og í hröðum viðbrögðum er hægt að horfa til nokkurra af þeim 23 tillagna Ríkisendurskoðunar til úrbóta sem geta komið fljótt til framkvæmda; eins og að efla strax eftirlit, hvar beita má fjáraukalögum til að veita auka fjármagni til þess og að beita þvingunarrúræðum með markvissum hætti. Þá þarf að taka leyfisveitingaferlið til endurskoðunar og í lokavinnu við gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum þarf að auka aðkomu almennings og hagsmunasamtaka.
Að auki þarf til langtíma að endurskoða auðlindagjaldið í fiskeldi eða önnur form af enn frekari gjaldtöku vegna nýtingar á náttúruauðlindum.
Við verðum að læra af umgjörð sjókvíaeldisins nú þegar uppbygging fiskeldis á land verður meira áberandi. Landeldið er betri kostur miðað við sjókvíaeldið þegar kemur að umhverfissjónarmiðum. Í því samhengi sjáum við stórkarlaleg áform um landeldi á laxi í Ölfusi. Þar verður að stíga varlega til jarðar og gæta að orkunotkun, breytinga á grunnvatni og hreinsun á frárennsli, ásýnd landslags og ekki síst samfélagslegra áhrifa. Næg eru misheppnuð fordæmin af viðlíka risaverkefnum sem snerta umhverfi og lífríki sem hafa átt að bjarga heilu samfélögunum en hafa því miður gengið freklega á náttúruauðlindir og umhverfi. Horfum frekar til framtíðar, grænnar framtíðar.
Athugasemdir