Nýlega bárust fréttir af andláti Votlendissjóðs. Sjóðurinn varð ekki gamall en lifði hátt og varð fljótlega vinsæll meðal okkar ríka og fræga fólksins. Núvitundarfólk, vísindaelítan og aðrir þeir sem vildu að eftir sér væri tekið, stukku fljótt á vagninn. Var það að vonum, enda fréttir sem virtust af himni komnar, fullyrtu að 70% koltvísýringslosunar þjóðarinnar væri af völdum framræstra mýra. Flestum var ljóst að það gat ekki verið mikil áhætta fólgin í að vera í votlendisliðinu. Svo komu líka fljótt fregnir af lengd grafinna skurða frá landnámi og gott ef þeir áttu ekki að ná til tunglsins og jafnvel til baka aftur. Það gat ekki klikkað að veðja á þennan hest. Allir tilbúnir að borga fyrir að moka ofaní skurði og þetta var líka svo myndrænt og strax hægt að sjá að búið væri að moka ofaní. Stórfyrirtæki styrktu sjóðinn og fengu svo uppáskriftir til að þau gætu haldið áfram að menga. Þetta væri sko engin skógrækt þar sem þyrfti að bíða í 50 ár eftir að hægt væri að tala um einhverja binding. Nei hér gerðist allt strax. Moka ofaní nokkra skurði og daginn eftir búið að stoppa losun sem næmi bílaeign allra íbúa Stokkseyrar. Frábært, bara stórkostlegt.
Það voru reyndar til einstaka kverúlantar sem efuðust, töldu brunann ofmetinn, sömuleiðis lengd skurðanna, að bruninn væri að mestu búinn enda stærstur hluti framræslunnar orðinn fimmtíu ára og annað í þeim dúr. Þetta voru aðallega gamlir búfræðingar og náttúruvísindamenn af gamla skólanum sem enginn tók mark á lengur. Enda létu menn þessar úrtöluraddir ekki draga úr sér mátt. Vinsældir sjóðsins jukust ár frá ári og færustu menn þjóðarinnar kepptust við að veita sjóðnum forstöðu. Stjórn sjóðsins, sem einnig var sjálfskipuð öndvegisfólki, kaus enda að skipta ört um framkvæmdastjóra til að tryggja að sá hæfast fyndist á endanum. Það var loks þegar óskabarn þjóðarinnar, vinmargur og vinsæli útvarpsmaður með meiru, var ráðinn, að hjólin fóru fyrir alvöru að snúast. Hann kom fram í hverjum útvarpsþættinum á fætur öðrum og þáttastjórnendurnir, vinir hans, tryggðu að þjóðinni væri ljóst að hér væri sko réttur maður á réttum stað. Hann sá líka um að skurðgrafa færi ekki svo út í mýri, að sjónvarpsnotendur fengju ekki af því fréttir. Stjórn sjóðsins hafði augljóslega valið rétt, kosið fjölmiðlagúru fram yfir fræðimann.
Svo var reyndar eins og eitthvað hefði gerst, raddir vorsins þögnuðu, svo notuð sé tilvitnun í heimsbókmenntirnar. Flestir töldu þetta bara covidáhrif eins og annað sem aflaga fór í heiminum. En það hættu sem sagt að berast fréttir af sigurgöngu sjóðsins. Útvarpsmaðurinn síkáti virtist hafa öðrum hnöppum að hneppa, og menn sáu skurðgröfur standa verklausar um allar sveitir. Og svo kom reiðarslagið. Andlát er sennilega ofmælt, en sjúklingurinn var frystur í von um að tækist að endurvekja hann þegar betur áraði eins og sagði í tilkynningunni. Það kom nefnilega í ljós að ekki var eftirspurn eftir þjónustunni og þegar framkvæmdastjórinn sá að meira en önnur hver króna var farin að renna í hans einkasjóð þá var sómakennd hans nóg boðið og hann sagði upp, enda maður sem ekki má vamm sitt vita. Það kom svo í hlut formanns stjórnar að tilkynna okkur almúganum að skortur á vottun væri sennilega ástæða lítillar eftirspurnar, jafnvel ráðherrar sem fara með stjórn ríkisjarða fengjust ekki til að leggja sjóðnum lið eins og málum væri nú komið, hvað þá bændur.
Ég votta Votlendissjóði samúð mína.
Höfundur er fjárbóndi.
Athugasemdir