Ákvörðun Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um að hætta skuli rekstri sérútbúinnar flugvélar Landhelgisgæslu Íslands og selja flugvélina TF-SIF er óforsvaranleg og ólögleg, að mati Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Með þeirri ákvörðuninni er brotið gegn alþjóðaskuldbindingum og vegið að þjóðaröryggisstefnu Íslands.
Þetta er inntak ályktunar Félags íslenskra atvinnuflugmanna um fyrirhugaða sölu á flugvél Gæslunnar. Þar tilgreina flugmenn að hvergi komi fram með hvaða hætti ráðherra ætli að uppfylla skyldur ríkisins þegar kemur að öryggisgæslu og björgun á hafi út, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, með tilliti til samstarfs við önnur ríki og ákvæði íslenskra laga. Þær skyldur sé ekki hægt að uppfylla án sérútbúinnar flugvélar enda sé leitar- og björgunarsvæði það sem Ísland ber ábyrgð á 1,9 milljónir ferkílómetra.
„Ísland ber ábyrgð á öryggisgæslu og löggæslu, leit og björgun á þessu svæði“
„Ísland ber ábyrgð á öryggisgæslu og löggæslu, leit og björgun á þessu svæði. Það að hafa ekki tiltæka sérútbúna flugvél líkt og TF-SIF til leitar á svona stóru svæði, þar sem umferð bæði flugvéla og skipa er mikil, og heldur áfram að aukast t.d. með aukinni umferð bæði skemmtiferðaskipa og fraktflutningaskipa, er með öllu óásættanlegt og vegur augljóslega gegn þjóðaröryggi og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins,“ segir í ályktun flugmanna.
Flugmenn vekja athygli á að ekki sé að finna heimildir í lögum um Landhelgisgæsluna né í lögum um loftferðir heimildir til að framselja skyldur stofnunarinnar um öryggisgæslu og löggæslu á hafsvæði Íslands. Þá telja flugmenn að með sölu á TF-SIF sé vegið að þjóðaröryggisstefnu Íslands og leiða að því líkum að ráðherra hafi ekki upplýst þjóðaröryggisráð um áform sín og þannig brugðist skyldum sínum.
Í ályktuninni er hnykkt á því að ekki sé heimild til sölu flugvélarinnar í fjárlögum eða fjáraukalögum, og því hafi ráðherra tekið ákvörðunina án heimildar frá Alþingi. „Uppsagnir flugmanna vélarinnar án slíkrar heimildir er ekki hægt að túlka öðruvísi en grimma atlögu að þeim starfsmönnum Landhelgisgæslunnar. Uppsagnir á störfum þessara flugmanna fela jafnframt í sér brot á kjarasamningi FÍA við Landhelgisgæsluna og starfsaldursreglum sem eru hluti af þeim kjarasamningi. Mun FÍA að sjálfsögðu standa vörð um störf þeirra og leita atbeina Félagsdóms gerist þess þörf.“
Kominn tími til að taka pokann og fara heim til sín.