Lögreglu hafa aldrei borist fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi en á síðasta ári, 2022. Alls bárust 1.086 tilkynningar þar um á árinu og þá var tilkynnt um 1.288 tilvik þar sem uppi var ágreiningur milli skyldra eða tengdra aðila. Það er sömuleiðis metfjöldi slíkra tilkynninga. Að meðaltali bárust því um sjö tilkynningar hvern einasta dag síðasta árs um annaðhvort heimilisofbeldi eða ágreining tengdra aðila.
Í um 70 prósentum tilvika beitti maki eða fyrrverandi maki ofbeldinu og hlutfallið er svipað þegar horft er til ágreinings tengdra aðila. Alls urðu 737 manns fyrir ofbeldi af hálfu 674 árásaraðila. Í langflestum tilvikum eru það karlmenn sem beita ofbeldinu, í 78 prósent tilvika. Að sama skapi eru það í langflestum tilvikum konur sem verða fyrir ofbeldinu, í 67 prósent tilvika.
Því sem næst eingöngu karlar grunaðir um kynferðisbrot
Á síðasta ári bárust lögreglu 262 tilkynningar um nauðganir, að jafnaði um 22 á mánuði. Eru það fleiri tilkynningar en síðustu þrjú ár á undan og næstmestur fjöldi tilkynntra nauðgana síðasta áratuginn. Aðeins árið 2018 var tilkynnt um fleiri nauðganir, 270 talsins. Af þeim tilkynningum sem lögreglu bárust áttu 184 nauðganir sér stað á síðasta ári, en 78 nauðganir höfðu átt sér stað fyrr.
262
Alls var tilkynnt um 634 kynferðisbrot árið 2022, sem eru ögn færri tilkynningar en á síðasta ári en eilítið fleiri tilkynningar en meðaltal síðustu þriggja ára á undan. Tilkynningum um kynferðisbrot gegn börnum fækkaði lítið eitt en 114 slík brot voru tilkynnt til lögreglu á árinu. Sé hins vegar horft til kynferðisbrota gegn börnum sem áttu sér stað á síðasta ári voru þau 52 talsins, helmingi færri en að meðaltali síðustu þrjú ár á undan.
Tilkynningar um blygðunarsemisbrot fast að því helminguðust á síðasta ári, voru 58 tilvik, og vændismálum fækkaði einnig verulega, úr 44 árið 2021 í 11 árið 2022.
Brotum á kynferðislegri friðhelgi fjölgaði hins vegar um helming frá árinu 2021. Alls voru 79 slík brot tilkynnt, þar af 59 sem áttu sér stað árið 2022. Þess ber þó að geta að brot gegn kynferðislegri friðhelgi urðu aðeins refsiverð í febrúar 2021.
Sem fyrr eru það því sem næst eingöngu karlar sem eru grunaðir um að hafa framið kynferðisbrot, alls 95 prósent.
Athugasemdir