Mennta- og barnamálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp sem heimilar stjórnvöldum að afla gagna til að mæla og kanna líðan, velferð og farsæld barna á Íslandi. Frumvarpið tengist áformum stjórnvalda um að útbúa mælaborð um farsæld barna sem hefur verið í þróun síðustu ár og er það mat ráðuneytisins að nauðsynlegt sé að sérstakur lagagrundvöllur verði lagður undir verkefnið.
Með því að safna gögnum um farsæld barna vonast stjórnvöld til að fá betri yfirsýn yfir stöðu barna á Íslandi sem unnt er að nýta við stefnumótun, forgangsröðun fjármuna og fleiri atriði.
Áform um frumvarp til laga um gagnaöflun um farsæld barna var birt í samráðsgátt stjórnvalda 20. janúar. Engar umsagnir hafa verið skrifaðar um áformin enn sem komið er en í umsögnum um áform um mælaborð um farsæld barna sem birt var í mars 2021 var áformunum almennt vel tekið. Þroskahjálp benti á að við gerð mælaborðsins yrði samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafður til hliðsjónar auk Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Tillit tekið til athugasemda barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna
Í greinargerð um frumvarpsáformin segir að að stjórnvöld vilji tryggja aðgengi að ópersónugreinanlegum gögnum sem gefa yfirsýn yfir stöðu barna, ekki síst barna sem tilheyra viðkvæmum hópum. Gögnin verði nýtt með markvissum hætti í stefnumótun og eftirfylgni með aðgerðum. Einnig er horft til þess að tryggja opið aðgengi að tölfræðigögnum og afurðum þeim tengdum.
Komið var til móts við athugasemdir barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda við vinnslu frumvarpsáformanna. Nefndin kallaði eftir markvissri gagnaöflun og opnu aðgengi að tölfræðigögnum um stöðu og hagi barna á Íslandi.
Nefndin beindi því til íslenskra stjórnvalda að tölfræðigögnum um líðan og velferð barna væri safnað og þau væru sundurliðuð með tilliti til aldurs, kyns, fötlunar, staðsetningar, þjóðernisuppruna og félagslegrar stöðu. Þá mæltist nefndin til þess að gögnin væru aðgengileg öllum stjórnvöldum, félagasamtökum og hagaðilum. Einnig hefur nefndin kallað eftir því að tölfræðigögn séu markvisst nýtt í stefnumótun í málaflokkum er varða börn og eins forgangsröðun fjármuna og verkefna.
Námsmat, mæting og upplýsingar frá barnavernd meðal gagna sem má afla
Gögnunum sem stjórnvöld hyggjast safna má skipta í tvennt hvað varðar uppruna. Annars vegar er um að ræða skráningargögn sem falla til víðs vegar í starfsemi með börnum og ungmennum. Sem dæmi má nefna nemendaskrá í skólum, niðurstöðu námsmats, mætingu nemenda, skráningargögn vegna barnaverndar og gögn frá Þjóðskrá Íslands.
Hins vegar er um að ræða gögn sem falla til vegna gagnaöflunar frá börnum og ungmennum sjálfum vegna spurningalistarannsókna þar sem gögnum er safnað nafnlaust frá börnum og ungmennunum, svo sem varðandi hlutlæg og huglæg atriði í þeirra lífi, til dæmis æskulýðsrannsóknir sem framkvæmdar hafa verið um árabil.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/csgbbFSuk96G_730x4480_uTwJmhM2.jpg)
Ríki, opinberar stofnanir, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og fræðasamfélagið, svo dæmi séu tekin, koma til með að geta nálgast þau gögn sem stjórnvöld afla í opnu aðgengi, eftir að búið er að vinna gögnin með tilliti til persónuverndarsjónarmiða.
Skýrari lagaheimild nauðsynleg
Skýrari heimild þarf í lögum fyrir öflun gagnanna og því telur ráðuneytið nauðsynlegt að sérstakur lagagrundvöllur verði lagður undir verkefnið svo hægt sé að innleiða mælaborð um farsæld barna. Önnur úrræði en lagasetning koma ekki til greina til að ná settum markmiðum að mati ráðuneytisins og er lagasetningin ekki síst mikilvæg til að tryggja persónuverndarsjónarmið.
Ráðuneytið metur það sem svo að ef frumvarpið nær ekki fram að ganga væri erfitt að tryggja að stefnumótun stjórnvalda í málaflokknum byggist á markvissri gagnasöfnun við alla ákvörðunartöku, stefnumótun og forgangsröðun er varðar málefni barna.
Til stendur að birta frumvarpsdrögin í samráðsgátt stjórnvalda í næsta mánuði og stefnt er að því að leggja frumvarp fyrir Alþingi á vorþingi. Áður en frumvarpið verður lagt fram þarf að gera breytingar á æskulýðslögum, barnaverndarlögum, lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla og lögum um samþættingu í þágu farsældar barna.
Frestur til að skila inn umsögn um frumvarpsáformin til laga um gagnaöflun um farsæld barna er til 3. febrúar og hægt er að skila inn umsögn hér.
Athugasemdir