Fjórir þingmenn, tveir úr Sjálfstæðisflokki og tveir úr Samfylkingu, hafa lagt fram frumvarp sem felur í sér að börn verði ekki lengur sjálfkrafa skráð í trú- eða lífsskoðunarfélag foreldra sinna. Þess í stað þurfa foreldrar með forsjá að taka ákvörðun um að skrá barn sitt sérstaklega í slík félög. Þangað til eru staða þeirra skráð ótilgreind.
Þingmennirnir: Hildur Sverrisdóttir og Haraldur Benediktsson úr Sjálfstæðisflokki, Helga Vala Helgadóttir úr Samfylkingu og varaþingmaðurinn Dagbjört Hákonardóttir úr sama flokki, leggja líka til að aldur barna til að taka sjálf ákvörðun um inngöngu í eða úrsögn úr skráðu trú- eða lífsskoðunarfélagi verði lækkaður úr 16 í 12 ár. Verði frumvarpið samþykkt munu breytingarnar taka gildi 1. júlí 2023.
Trú- og lífskoðunarfélög fá greitt 1.192 krónur úr ríkissjóði á hvern einstakling 16 ára og eldri sem skráður er í þau. Til stóð að lækka þessa tölu í fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs en meirihluti fjárlaganefndar, sem er skipaður nefndarmönnum Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, lagði til milli umræðna að sóknargjöld yrðu hækkuð um 85 krónur á hvern einstakling í stað þess að lækka þau um 52 krónur líkt stefnt hafði verið að. Þessi breyting jók kostnað ríkissjóðs vegna þessa um 384 milljónir króna í ár. Fyrir vikið greiðir ríkissjóður rúmlega 3,3 milljarða króna vegna slíkra gjalda á árinu 2023.
Sá trúarsöfnuður sem fær stærstan hluta sóknargjalda greiddan er þjóðkirkjan.
Síðasta stóra breyting fyrir áratug síðan
Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna. Síðastliðna áratugi hefur hlutfall þeirra sem tilheyra henni dregist saman og frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað á hverju ári. Alls voru 58,7 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna um nýliðin áramót. Það hlutfall fór í fyrsta sinn undir 60 prósent í fyrrasumar. Skráðum hefur fækkað um tvö þúsund frá 1. desember 2021.
Síðasta breyting á lögunum um trú- og lífskoðunarfélög, sú sem var gerð fyrir tíu árum, hafði mikið að segja um þessa þróun. Áratugum saman var skipulag mála hérlendis þannig að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það.
Þessu var breytt árið 2013 og samkvæmt gildandi lögum þurfa báðir foreldrar að tilheyra sama trú- og lífsskoðunarfélagi til að barnið sé skráð í félag, annars skráist barnið utan trúfélaga. Á sama tíma var ramminn utan um hvers kyns félög mættu skrá sig sem trú- og lífsskoðunarfélög og þiggja sóknargjöld rýmkaður.
160 þúsund standa utan þjóðkirkjunnar
Þeir íslensku ríkisborgarar sem kusu að standa utan þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldamót. Þeir eru nú 160.534. Af þeim eru alls 29.903 skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga samkvæmt tölum frá Þjóðskrá, en þar er um að ræða þá sem hafa sérstaklega tekið afstöðu til þeirrar skráningar sinnar. Auk þess voru 72.670 með ótilgreinda skráningu, en ef einstaklingur er með slíka skráningu þá hefur hann ekki tekið afstöðu til skráningar í trú- og lífsskoðunarfélag.
Önnur stóð ástæða fyrir því að þessi þróun hefur orðið er mikil fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi. Erlendir ríkisborgarar með heimilisfesti á Íslandi voru 65.090 um síðustu áramót, eða 16,7 prósent þeirra 387.800 sem þá bjuggu á landinu. Um er að ræða mikla breytingu á skömmum tíma. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda fór fyrst yfir fimm prósent hérlendis árið 2006 og yfir tíu prósent árið 2017.
Þessar samfélagsbreytingar hafa líka leitt af sér mikla fjölgun á skráningum í kaþólsku kirkjuna, en nú eru tæplega 15 þúsund manns skráðir í hana. Fjöldi þeirra hefur meira en fjórfaldast á rúmum tveimur áratugum en stærstu hóparnir sem hingað flytja – Pólverjar og ríkisborgarar Eystrasaltslanda – koma frá löndum þar sem kaþólska kirkjan er sterk.
Þá hefur Siðmennt, sem hefur verið skráð lífsskoðunarfélag frá árinu 2013, einnig vaxið fiskur um hrygg og eru skráðir meðlimir þess nú 5.402. Félagið er það eina sem berst beinlínis gegn sóknargjöldum og fyrir algjöru trúfrelsi.
Athugasemdir