Veltan á innlendum kortum Íslendinga erlendis var 262,8 milljarðar króna á árinu 2022. Á sama tíma var velta erlendra korta hérlendis 248,3 milljarðar króna. Það þýðir að Íslendingar, sem voru í heild 387.800 um síðustu áramót, eyddu 14,5 milljörðum krónum meira í útlöndum á kortum sínum en þeir tæplega 1,7 milljónir erlendra ferðamanna sem komu til Íslands á því ári.
Þetta má lesa úr árlegri samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar á kortaveltu Íslendinga.
Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis rúmlega tvöfaldaðist milli ára í krónum talið og jókst um 90 prósent að raunvirði. Ferðamenn frá Bandaríkjunum eyddu mest allra ferðamanna á Íslandi á árinu 2022, en þeir voru ábyrgir fyrir 35 prósent af allri erlendri kortaveltu. Bretar komu þar á eftir með tæplega tíu prósent og ferðamenn frá Þýskalandi voru í þriðja sæti með um sjö prósent. Þetta er í beinu samræmi við það að flestir ferðamenn komu frá þessum löndum, í þeirri röð sem þau röðuðu sér í eyðslustiganum.
Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu innanlands í fyrra var 25,5 prósent. Það er mun lægra hlutfall en var fyrir kórónuveirufaraldurinn, þegar hlutfallið var 30 til 34 prósent.
Gríðarleg aukning í netverslun
Alls voru brottfarir Íslendinga frá Leifsstöð 588.650 talsins á síðasta ári, sem er aukning um næstum 170 prósent frá árinu á undan og ekki langt frá þeim fjölda sem var árið 2019, síðasta heila árinu áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Í krónum talið eyddu Íslendingar um 105 milljörðum krónum meira með kortum sínum erlendis en þeir gerðu á árinu 2021, þegar ferðatakmarkanir vegna kórónuveirufaraldurs voru þó enn í gildi að hluta sem gerðu ferðalög erlendis erfiðari en í fyrra. Því jókst eyðsla Íslendinga erlendis um 66 prósent milli 2021 og 2022.
Alls eyddu Íslendingar 974 milljörðum króna á kortum sínum innanlands árið 2022. Í krónum talið var það aðeins meira en árið áður en þegar búið er að taka tillit til verðbólgu dróst sú neysla saman um 4,4 prósent.
Þar er aðallega um samdrátt í kortaveltu í verslun að ræða. Ásókn Íslendinga í að kaupa sér hluti í gegnum verslun á netinu jókst að sama skapi um fimm prósent að raunvirði og hefur alls aukist um 254 prósent á fjórum árum. Alls eyddu Íslendingar tæplega 42 milljörðum króna af kortum sínum í að kaupa hluti á netinu á síðasta ári.
Seðlabankastjóri tekur Tene fyrir
Ýmis ummæli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um eyðslu og tíðar utanlandsferðir landsmanna á síðustu mánuðum hafa vakið athygli. Þar hefur Ásgeir sérstaklega tekið fyrir ferðir til Tenerife, en þær hafa verið afar vinsælar hjá Íslendingum. Vefurinn Túristi greindi til að mynda frá því í lok nóvember að á fyrstu tíu mánuðum ársins 2021 hafi 61 þúsund farþegar frá Íslandi lent á Tenerife, sem var aukning um fimmtung frá sama tímabili árið 2019.
Í ágúst sagði hann að helst „vildi Seðlabankinn að fólk hætti að eyða peningum.“ Í október, þegar hann rökstuddi stýrivaxtahækkun upp í 5,75 prósent, sagði Ásgeir það ekki hafa komið á óvart að kröftugt viðbragð hefði komið í einkaneyslu í fyrrasumar. Fólk hefði sparað peningana sína í tvö ár á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð og hafi lokst getað eytt þeim, meðal annars í ferðalög. „Það voru allir að taka myndir af tánum á sér á Tene eða eitthvað álíka í sólbaði.“
Þegar stýrivextirnir voru svo hækkaðir upp í sex prósent í lok nóvember sagði Ásgeir að áframhaldandi vöxtur í einkaneyslu hefði komið Seðlabankanum á óvart og komið niður á gengi krónunnar. „Þegar þjóðin er að fara á Tene, það kostar gjaldeyri.“ Seðlabankinn gæti ekki „fjármagnað Tene-ferðir úr forðanum.“ Ef viðskiptahalli yrði viðvarandi myndi Seðlabankinn því ekki halda uppi gengi krónunnar með inngripum á gjaldeyrismarkað heldur yrði hann að hækka stýrivexti til að takmarka neysluna.
Þessi orð hafa farið öfugt ofan í marga, meðal annars Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR. Hann sagði í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 í desember að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans á síðustu mánuðum væru „að refsa stórum hópi fólks sem er ekki að fara til Tenerife og eyða um efni fram heldur er bara að reyna að komast af milli mánaða.“ Stýrivaxtahækkanirnar bíti hins vegar lítið á þeim tekjuhæstu sem mestu eyði.
Athugasemdir