Lög um rammaáætlun gera hvergi ráð fyrir því að heilu vatnasviðin verði sjálfkrafa friðlýst þó svo að einstakir virkjunarkostir séu metnir í verndarflokki, segir í ítarlegri bókun og athugasemdum sveitarstjórnar Skaftárhrepps vegna tillögu Umhverfisstofnunar að friða vatnasvið Skaftár. Tillagan er gerð á grundvelli þess að virkjunarkosturinn Búlandsvirkjun var settur í verndarflokk rammaáætlunar við afgreiðslu Alþingis á 3. áfanga hennar síðasta sumar. „Friðlýsing nú getur leitt til þess að verulegir samfélagslegir og þjóðhagslegir hagsmunir fari forgörðum,“ segir sveitarstjórnin í bókun sinni og leggst hún gegn friðlýsingu svæðisins fyrir allri orkuvinnslu.
Fleiri virkjunarmöguleikar í ánni
Sveitarstjórnin segir að í friðlýsingartillögunni felist að raskað yrði „grundvallarniðurstöðu um stefnu sveitarfélags í landnýtingu, sem fól í sér málamiðlun og var grunnur að samþykki sveitarfélagsins fyrir stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og jákvæðu viðhorfi til umhverfislega tækra virkjunarkosta utan miðhálendislínu“. Bent er á að „langur vegur“ sé frá því að virkjunarmöguleikar á vatnasviðinu séu fullrannsakaðir, þótt einn virkjunarkostur, Búlandsvirkjun, hafi fengið umfjöllun í rammaáætlun.
Sveitarfélagið hefur einnig beinna hagsmuna að gæta því jörðin Á sem liggur að Skaftá er í þess eigu. Það þýðir að sveitarfélagið hefur yfir vatnsréttindum að ráða á svæði þar sem fallhæð Skaftár er um 50 metrar „og ljóst að mikil vatnsorka fylgir jörðinni“.
Virkjunarhugmyndin Búlandsvirkjun var mjög umdeild. Sú sem leiddi baráttuna gegn henni var Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi á Ljótarstöðum í Skaftárhreppi. „Þetta er besta jólakveðja sem ég hef nokkru sinni fengið,“ sagði í hún samtali við Kjarnann í lok síðasta árs, um friðlýsingartillögu Umhverfisstofnunar. „Ég trúi því að þetta haldi,“ sagði Heiða um hvort hún óttaðist að ekki yrði af friðlýsingunni. „En ég er líka búin að læra það að ekkert er öruggt í þessu lífi, sérstaklega ekki ef það eru peningar einhvers staðar í spilinu.“
Málamiðlun vegna Vatnajökulsþjóðgarðs
Sveitarstjórn Skaftárhrepps rifjar í bókun sinni vegna málsins upp að við endurskoðun aðalskipulags í kjölfar stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs hafi verið brýnt fyrir sveitarfélaginu að marka sér stefnu til framtíðar varðandi þær áherslubreytingar á landnotkun sem óhjákvæmilega fylgdu stofnun hans.
Á þessum árum voru til skoðunar og í gangi rannsóknir á fýsileika þess að bæta vatnsbúskap virkjana á Tungnaársvæðinu með mögulegri veitingu efstu kvísla Skaftár um Langasjó til Tungnaár. Segir sveitarstjórnin nú að þessi hugmynd hafi verið talin „afar hagkvæm“. Niðurstaðan varð hins vegar sú að Langasjávarsvæðið ásamt Eldgjá yrði hluti af stækkuðum Vatnajökulsþjóðgarði og að framkvæmdahugmyndum á borð við virkjunaráform yrði fundinn staður neðan miðhálendislínu. Virkjunarmöguleikar þar séu nánast að öllu leyti á einkalandi og því „er augljóslega um verulega hlunnindamöguleika viðkomandi jarða að ræða“.
Íhlutun í skipulagsvaldið
Í gildandi aðalskipulagi Skaftárhrepps er gert ráð fyrir Búlandsvirkjun. Almenn stefna skipulagsins hvílir að sögn sveitarstjórnarinnar á því að tækifæri til orkuvinnslu verði skoðuð. Afstaða hennar er því sú að þótt Búlandsvirkjun hafi verið flokkuð í verndarflokk rammaáætlunar, og það hafi þá þýðingu að sveitarfélaginu beri að taka mið af því við endurskoðun aðalskipulags, sé almenna stefna aðalskipulags óbreytt varðandi orkumál.
„Í öllu falli er það í andstöðu við stefnu Skaftárhrepps að orkuvinnsla yfir 10 MW verði gerð óheimil á stórum hluta sveitarfélagsins,“ segir í bókuninni. Slík ákvörðun ríkisins sé „íhlutun í skipulagsvald sveitarfélags“ sem hafi stoð í sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga samkvæmt stjórnarskrá.
„Augljóslega geta fýsilegir og umhverfisvænni virkjanakostir komið til skoðunar í Skaftá, aðrir en Búlandsvirkjun,“ segir einnig í bókun sveitarstjórnarinnar. Við endurskoðun aðalskipulags sé gert ráð fyrir að Búlandsvirkjun falli út en almennt er það stefna sveitarfélagsins að unnt verði að taka „jákvæða afstöðu til virkjunarhugmynda sem koma fram innan sveitarfélagsins, þar með talið í Skaftá“.
Vafasöm lagaheimild
Lagaheimild um málsmeðferð fyrir friðlýsingu er að finna í 53. grein náttúruverndarlaga. Ákvæðið felur í sér að grundvöllur fyrir friðlýsingu sé verndarflokkur rammaáætlunar sem Alþingi hefur samþykkt og nái þá til svæða sem flokkuð hafa verið í verndarflokk.
En sveitarstjórnin hafnar því að flokkun virkjunarkosts í verndarflokk leiði til þess að landsvæði flokkist sjálfvirkt sem landsvæði sem beri að friðlýsa. Vill hún meina að „vafasamt“ sé að lagaheimild sé fyrir hendi til friðlýsingar vatnasviðs Skaftár.
Friðlýsing geti ekki átt sér stað
Við skoðun ályktunar Alþingis, 3. áfanga rammaáætlunar, „verður ekki séð að Alþingi hafi tekið skýra afstöðu til þess að friðlýsa eigi tiltekið landsvæði þótt Búlandsvirkjun hafi verið felld í verndarflokk“. Hvorki umfjöllun Alþingis né rammaáætlunar feli í sér að tekin hafi verið afstaða til friðlýsingar tiltekinna landsvæða, heldur varði umfjöllunin eingöngu virkjunarkostinn Búlandsvirkjun. Við mat á þeim virkjunarkosti var horft til vatnasviðs Skaftár, með ákveðnum hætti. „Augljóslega eru fleiri mögulegir virkjunarkostir á vatnasviði Skaftár sem eru órannsakaðir,“ segir í bókun sveitarstjórnarinnar. „Friðlýsing er ekki tímabær.“
Þá segir sveitarstjórnin að „skyldubundið mat“ sem sé forsenda friðlýsingar landsvæðis hafi ekki farið fram. „Friðlýsing landsvæðis getur því ekki átt sér stað“.
Tillaga Umhverfisstofnunar um friðlýsingu Skaftár nái yfir áhrifasvæði annarra virkjunarkosta sem eru í biðflokki í 3. áfanga, þ.e. Hólmsárvirkjunar við Einhyrning án miðlunar og Hólmsárvirkjun við Atley.
Friðlýsingar eru í eðli sínu ráðstöfun sem ætlað er að hafa varanlega þýðingu, bendir sveitarstjórnin ennfremur á. „Grundvöllur friðlýsinga á Íslandi hefur almennt hvílt á því að fyrir liggi skýr afstaða Alþingis.“ Slík afstaða liggi ekki fyrir.
Mun skerða eignarréttindi varanlega
Skaftárhreppur, sem landeigandi jarðarinnar Ár, telur skýra lagaheimild fyrir friðlýsingunni skorta. „Friðlýsing mun skerða eignarréttindi viðkomandi jarðar varanlega sem landeigandi getur ekki sætt sig við,“ segir í bréfi vegna þessa þáttar málsins sem Einar Kristján Jónsson, sveitarstjóri Skaftárhrepps, hefur sent Umhverfisstofnun. „Verði framhald á málinu, áskilur landeigandi sér allan rétt til að fá ákvörðun um friðlýsingu hnekkt og/eða krefjast bóta vegna hvers kyns skerðinga á eignarréttarlegum hagsmunum sem leiða af friðlýsingunni.“
Athugasemdir