Umhverfismál eru stærstu og umfangsmestu mál jarðar. Allar ákvarðanir nútíðar og framtíðar taka mið af umhverfi, loftslagi, náttúru og lífríkinu öllu. Þannig lifum við af. Samt er ekki starfrækt heilt og öflugt umhverfisráðuneyti á Íslandi þar sem verndun náttúru og loftslags er í fyrsta sæti.
Þó er það einmitt núna sem við getum breytt um kúrs ef við þorum og viljum. En þá troða íslensk stjórnvöld umhverfismálum inn í grænþvottahús í sérlegu orkuráðuneyti sem öskrar af áfergju á meiri orku fyrir meiri neyslu, harðari ágang og öflugri eyðingu náttúru og lífríkis. Svo er orkustefnan léttskoluð í grænsápu og seld sem græn framtíð.
Kunnátta í hamfarastjórnun
Við höfum áður, við fordæmalausar aðstæður, sótt sérþekkingu út fyrir raðir stjórnmálamanna og skipað kunnáttufólk á ráðherrastóla. Munið, þarna um árið, þegar við spiluðum rassana úr buxunum og þvældumst timbruð um í flugeldaþoku eftir andlegt og fjárhagslegt hrun. Þá ríkti neyðarástand í landinu út af peningum og mannskapurinn var á mórölskum bömmer sem lagaðist samt mjög fljótt við að tengja við ömmu og raula í lopapeysum um logandi jökul og silfur á vogum. EN, þá fengum við sérfræðinga í bókhaldi og lagaflækjum á ráðherrastóla til að taka til eftir partíið. Við lögðum ekki niður fjármálaráðuneytið eða tróðum því inn í sjávarútvegsráðuneytið. Og við viðurkenndum, fíklarnir sem við vorum, að stjórnmálamenn eru ekki endilega bestir í hamfarastjórnun og sóttum aðstoð út fyrir raðirnar.
Það sama gerðist nýlega í heimsfaraldrinum. Þau stjórnvöld sem settu sig á hliðarlínuna, sóttu kunnáttufólk með fagþekkingu til forystu og bjuggu til öflugt og daglegt samtal við almenning, náðu bestum árangri.
Stjórnstöð í hamfarahlýnun
Það er stuð í grænþvottahúsinu. Krókódílamenn sveipaðir grænum skikkjum seilast í orkuauðlindir og vilja ólmir eiga og reka innviði og almanna- og öryggiskerfi þjóðar og komast þannig í peningaáskrift.
Um leið ríkir neyðarástand á allri plánetunni út af ágangi, ofneyslu og yfirgangi gráðugustu skepnunnar. Dýrategundir deyja út og manneskjum fjölgar ört. Þær taka meira og meira pláss á sama tíma og það er svo lífsnauðsynlegt fyrir líf á jörðinni að mannskepnan tóni sig töluvert niður. Um leið smættum við málaflokkinn um náttúru og loftslag og stingum honum í grænþvottavél í freku og hávaðasömu orkuráðuneyti.
Ef ekki væri svona mikill handagangur í grænþvottahúsinu þá væri hér í gangi neyðaráætlun vegna hamfarahlýnunar og fyrir náttúruvernd. Sérfræðingateymi á borð við kóvit-gengið stýrði sérlegu náttúru- og loftslagsverndarráðuneyti og ræki stjórnstöð og héldi stöðufundi og mótaði samfélagslínur. Og sérfræðingateymin ættu sér fasta staði á öllum helstu fréttamiðlum.
Græni vangadansinn
En orkumálaráðherra dansar við lobbíista og lukkuriddara og grænir pilsfaldar lyftast. Svo er vaggað í grænum vangadansi og það er hvíslað í eyra: Þetta er allt spurning um matreiðslu og markaðssetningu. Við köllum það grænt í dag. Ég geri fyrir þig og þú gerir fyrir mig. Allt sem þarf er íslensk náttúra. Og hún hangir bara þarna og gerir ekki neitt. Það er enginn að nota hana. Að sjálfsögðu færum við stórar náttúrufórnir fyrir græna framtíð.
Það þarf að frelsa umhverfisráðuneytið úr gíslingu og gera það að alvöru stjórnstöð umhverfisverndar og öryggismála. Öflugt umhverfisráðuneyti hefði viðbragðsteymi vistkerfis- og loftslagsvísindafólks í forystu. Allar aðrar pólitískar ákvarðanir tækju mið af stefnunni í umhverfismálum frá þessu alvöru ráðuneyti ... sem er ekki til. Þaðan kæmu stóru línurnar, af því að öll pólitík er umhverfispólitík í dag.
Athugasemdir