Í bráðabirgðatillögum starfshópa Auðlindarinnar okkar er gert ráð fyrir að sértækum byggðakvóta verði ráðstafað til byggða „þar sem veiðar og vinnsla eiga framtíð fyrir sér“. Honum sé í dag „smurt of þunnt“ og nýta ætti hann til að efla byggðir þar sem veiðar og vinnsla eiga framtíð fyrir sér.
Nýta ætti þau takmörkuðu gæði sem sértækur byggðakvóti sé til að efla sjávarútveg til lengri tíma en nýta fremur og efla önnur úrræði til að styrkja brothættar byggðir þar sem veiðar og vinnsla eigi ekki framtíðina fyrir sér. Í tillögunni er þá gert ráð fyrir að Byggðastofnun verði falið að meta í hvaða byggðum veiðar og vinnsla eigi framtíð.
Starfshópar í verkefninu Auðlindin okkar hafa skilað bráðabirgðatillögum til matvælaráðuneytisins og kynnti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra þær á fundi ríkisstjórnar í morgun. Starfshóparnir, sem eru fjórir, eru hálfnaðir og því metið svo að rétt sé að birta bráðabirgðaniðurstöður þeirra.
Í tillögununum er meðal annars fjallað um kerfi fiskveiðistjórnunar. Þar er tilgreint að rétt sé að halda aflamarkskerfinu áfram, enda hafi það aukið hagkvæmni og hagsæld.
Þá er gert ráð fyrir, samkvæmt tillögunum, að almennur byggðakvóti verði afnuminn og honum verði þess í stað bætt við sértækan byggðakvóta og/eða strandveiðar. Á síðasta fiskveiðiári var almennum byggðakvóta úthlutað til 50 byggðarlaga í 29 sveitarfélögum. Þar af fengu sextán byggðarlög úthlutað lágmarksúthlutun, 15 þorskígildistonnum.
Hið sama á við um svokallaðar skel- og rækjubætur, og línuívilnun, tillögur gera ráð fyrir að þau réttindi verði afnumin og þeim einnig bætt við sértæka byggðakvóta eða strandveiðar. Útdeiling þeirra sé ógagnsæ og með því að afnema þau verði fiskveiðikerfið einfaldara.
Hvað varðar strandveiðikerfið kemur ekki afdráttarlaust fram hvað starfshóparnir vilja að við það verði gert. Í tillögu þar um segir einungis að skerpa skuli og endurskoða markmið strandveiða. Þau markmið geti verið af ýmsum toga og eru nefnd dæmi þar um, til að mynda að markmiðið geti verið kerfi sem veiti öllum aðgang, að það auki líf í höfnum eða það geti örvað atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum.
Þá er, sem fyrr er sagt, gert ráð fyrir að sértækum byggðakvóta verði úthlutað til færri byggðalaga og með það fyrir augum að sjávarútvegur í viðkomandi byggðarlögum verði sjálfbær í framtíðinni. Þannig muni draga úr úthlutun ef vel gangi í sjávarútvegi í byggðalaginu en hann hugsanlega aukinn gangi verr.
Athugasemdir (3)