Yfir 2.500 tonn af hvalkjöti var flutt frá Íslandi til Japans í síðasta mánuði. Þetta er fyrsti útflutningur á hvalkjöti frá Íslandi frá árinu 2018 er um 1.500 tonn voru flutt til Japans. Eitt fyrirtæki stundar hvalveiðar á Íslandi, Hvalur hf. Síðasta sumar gerði fyrirtækið út tvö skip frá hvalstöðinni í Hvalfirði og voru 148 langreyðar veiddar. Hvalveiðar voru ekki stundaðar þrjú ár þar á undan, þ.e. árin 2019-2021.
Upplýsingarnar um útflutninginn fékk Heimildin hjá íslenskum tollyfirvöldum eftir að hafa leitað til matvælaráðuneytisins sem hafði þær ekki. Ráðuneytið gat þó sagt að hlutverk þess þegar komi að útflutningi hvalkjöts væri að gefa út vottorð um að kjötið væri af þeim hvalategundum sem heimilt er að veiða og veiddar eru samkvæmt tilhlýðilegum reglugerðum. Slíkt vottorð var ekki gefið út árið 2022 en „mun verða gefið út í þessum mánuði“, sagði í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Heimildarinnar.
Útflutningur er birtur á vef Hagstofunnar. Þar hafa nú verið birtar upplýsingar um fyrstu 11 mánuði síðasta árs. En það var í þeim tólfta, desember, sem hvalkjötið var flutt út til Japans.
„Samkvæmt birtingaráætlun Hagstofunnar verða upplýsingar um inn- og útflutning í desember 2022 birtar 31. janúar 2023,“ sagði í svari frá sérfræðingi Skattsins, sem tollurinn heyrir nú undir, við fyrirspurn Heimildarinnar. „Áður en til birtingar hagtalna kemur fyrir desember 2022 geta tollyfirvöld staðfest að hvalkjöt var flutt frá landinu í desember 2022. Útflutningurinn fór fram með skipi með skráð viðskiptaland Japan. Ekki eru veittar frekari upplýsingar um heiti eða skráningu fars. Heildarbrúttóþyngd hvalkjötsins var 2.738.421 kg. og nettóþyngd 2.576.351 kg.“
Hvalur hf. fékk í byrjun júlí 2019 veiðileyfi til fimm ára og hefur því leyfi til veiða á næsta ári. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, sagðist í samtali við Morgunblaðið í haust ekki sjá því neitt til fyrirstöðu að halda til veiða næsta sumar. Miðað við aðstæður nú væri það „sjálfsagt mál“.
En það finnst ekki öllum „sjálfsagt mál“ að halda hvalveiðum áfram. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði snemma á síðasta ári að sýna þyrfti fram á að það væri „efnahagslega réttlætanlegt“ að endurnýja veiðiheimildir til hvalveiða eftir að þær renna út í ár, þ.e. 2023. Hún sagði að í sögulegu samhengi hafi hvalveiðar haft neikvæð áhrif á útflutningshagsmuni landsins og að orðsporsáhættan sem fylgi áframhaldandi veiðum sé talsverð. Engar veiðar á stórhvelum hefðu verið stundaðar í þrjú ár og að einfaldasta og líklegasta skýringin væri kannski sú að viðvarandi tap er af veiðunum.
Blekið var hins vegar vart orðið þurrt á síðum Morgunblaðsins sem birti þessi orð ráðherrans í aðsendri grein en að Kristján Loftsson tilkynnti að hvalveiðiskipin myndu enn á ný halda til veiða sumarið 2022. Sem þau og gerðu.
Kjarninn birti fjölda frétta af veiðunum sem samtökin Hard to Port fylgdust náið með. Nokkur fjöldi dýranna sem dregin voru dauð að landi í hvalstöðinni í Hvalfirði voru með fleiri en einn sprengiskutul í sér sem þýðir að sá fyrsti hefur geigað, ekki sprungið og dauðastríð dýranna því væntanlega lengst. Í einhverjum tilvikum voru dýrin hæfð í bægsli eða höfuðkúpu, þ.e. bein, og þá springur skutullinn ekki. Í öðrum tilvikum höfðu kelfdar kýr verið drepnar og fóstur þeirra skorin úr þeim í hvalstöðinni.
Fréttir af þessum aðförum urðu til þess að matvælaráðherra setti nýja reglugerð um verulega hert eftirlit með hvalveiðum í byrjun ágúst. Frá þeim tíma var skylt að hafa veiðieftirlitsmenn um borð í veiðiferðum Hvals hf. Þannig á að reyna að tryggja að farið sé að lögum um velferð dýra.
Athugasemdir