Ég hef unnið í átta ár í Blómatorginu, þar sem ég er verslunarstjóri. Eigandinn lést nýlega, þann 28. desember. Þannig að það er smá óvissa hér í búðinni en við sjáum hvernig fer.
Vill standa sig eftir fráfall eigandans
Eigandinn hét Sigurður Þórir Sigurðsson og var búinn að reka blómabúðina allt frá því að ég var krakki. Faðir hans stofnaði fyrirtækið, en sjálfur var hann búinn að reka það í 56 ár. Já, þannig að þetta er svolítið erfiður tími fyrir okkur hér í blómabúðinni, en við höldum áfram. Ég var búinn að þekkja Þóri lengi og hann var rosalega góður vinur. Í raun búinn að kenna mér allt. Það er auðvitað erfitt að missa góðum vin. Í vinnu hugsa ég að eftir andlát hans þurfi ég að standa mig.
Það var þannig að fyrir átta árum var ég að leita að vinnu með skóla, en ég var í forritunarnámi sem er svolítið annað en það sem ég er að gera núna. Svo ég ákvað að kíkja við og spyrja hvort það vantaði manneskju. Hér vantaði starfsmann fyrir sumarið og Þórir bað mig um að byrja eins fljótt og ég gæti.
Fyrst var ég bara að vinna með skóla. Eftir nokkur ár ákvað ég að hætta í námi til að vera hér í fullu starfi. Mér líkar vel hér. Þetta dugir alveg. Ég er ánægður með launin, vinnuna, og svo er þetta gott andlega.
Jú, þegar það er mikið að gera þá er álagið mikið en oftast er það hvorki of mikið né of lítið, bara þægilegt. Það er mjög skemmtilegt að vinna með blóm allan daginn. Þú getur alltaf lært eitthvað nýtt og það er það besta við þetta. Fullt af nýjum blómum koma á markað sem þú lærir á, svo lærir þú nýjar innpökkunarleiðir og bara nefndu það.
Gefandi að vinna með blóm
Þórir var búinn að vera rosalega veikur og liggja á spítala síðustu þrjá mánuði. Undanfarin ár hefur hann minnkað mikið við sig í vinnu þannig að ég hef fengið tíma til að aðlagast. Í lok síðasta sumars veiktist hann illa og lést í lok desember. Hann bað mig um að gera mitt besta til að halda áfram í búðinni og halda henni. Sérstaklega af því hann var búinn að verja síðustu árum í að kenna mér að reka hana, svo ég ætla að reyna allt hvað ég get til að standa við loforðið sem ég gaf honum.
Ég held að ég verði að vinna við blóm alla ævi, en við sjáum hvert lífið leiðir mig. Það er enn möguleiki að fara aftur í skóla, en ég er sáttur. Þótt ég myndi hætta hér væri ég örugglega að vinna áfram með blóm.
Skemmtilegast er að fá að spjalla við fólk og aðstoða það. Margir leita til okkar eftir aðstoð. Sumir eru ekki einu sinni að versla, heldur að spyrja almennra spurninga um blóm. Eru kannski í vandræðum með blómin heima eða vita ekki hvernig á að sinna blómum sem þeir hafa fengið að gjöf. Fólk vantar oft hjálp við að hugsa um blómin. Er óvisst um hvort blómin eigi að fara í volgt eða kalt vatn. Allt getur þetta skipt máli.
Hingað leitar fólk ekki mikið vegna viðburða, en alltaf eitthvað, enda erum við ekki í hefðbundnum blómaskreytingum, höfum aldrei verið það og höfum lítinn tíma til að sinna slíku. Öðru hvoru hef ég þó tekið að mér skreytingar, til dæmis fyrir brúðarvendi. Hvað varðar skreytingar á kistu í jarðarför gefst sjaldan tími til slíks hér. Þú þarft líka að hafa séraðstöðu fyrir slíkt, sem er ekki til staðar hér. Oftast er sérstakur skreytari sem vinnur við slíkt.
Hins vegar var mikið af blómum í jarðarförinni frá vinum Þóris. Hann þekkti svo marga. Þar voru blóm frá fólki sem hefur skreytt fyrir hann, heildsalinn sem hann verslaði lengi við mætti með blóm, sem og garðyrkjumennirnir sem sjá okkur fyrir blómum.
Hvítar krísur seljast best
Hvað rósir varðar var Þórir mjög hrifinn af kamala-rósum. Þær eru geggjaðar því þær opna sig alveg, eins og tebolli. Þórir var hins vegar sérstaklega hrifinn af krísum, sem eru stórar og standa lengi. Krísur eru líka nokkuð örugg blóm, því mörgum finnst þær fallegar, þannig að ef fólk er óvisst með hvernig blóm á að kaupa er alltaf óhætt að mæla með krísum. Sjálfum finnst mér krísur líka fínar. Þær voru uppáhaldsblóm okkar beggja. Krísur koma í alls konar litum en hvítar krísur seljast best.
Hvít blóm hafa sérstaka merkingu. Hvítur er litur jarðarfara og friðar. Þegar fólk er að kaupa hvít blóm er það oft vegna andláts eða jarðarfara. Hvítar liljur eru mjög algengar. Þess vegna forðast margir hvíta litinn þegar það er að kaupa blóm heim, en það hefur samt verið að breytast undanfarin ár. Bæði eru fleiri sem eru tilbúnir til að taka blómvendi í litum fyrir jarðarfarir, eins eru fleiri farnir að kaupa hvít blóm fyrir heimilið.
Tilfinningin sem ég fæ er að fólk telji að hvít blóm geti verið slæmur fyrirboði, en persónulega lít ég ekki svo á. Andlát þarf heldur ekki að vera slæmt, þótt það sé sárt fyrir þá sem eftir lifa. Kveðjustundin snýst um góðar minningar og hlýjar hugsanir. Hvað Þóri varðar, sem tengist okkur hér svo sterkt, þá vil ég halda í góðu minningarnar. Það var auðvitað sárt og erfitt að hann skyldi falla frá en ég vil halda í það góða sem hann skildi eftir sig. Ég held að það sé mikilvægt á svona stundum að horfa fram á veginn í stað þess að festast í því sem var. Það er mikilvægt að festast ekki í því sem hefur þegar gerst og gleyma því að hugsa um það sem gæti orðið. Þess vegna verðum við alltaf að horfa fram á veginn.
Athugasemdir