Karlar hafa lítið tilfinningalæsi og eru enn þá plagaðir af einhverju hetjuviðhorfi, að bjarga sér sjálfir. Ef körlum líður illa fara þeir frekar að berja einhverja, eða drekka brennivín, frekar en að setjast niður og tala um líðan sína. Þetta rekum við okkur á alls staðar.“
Þetta eru orð Högna Óskarssonar geðlæknis, sem ætti að þekkja vel til, hafandi sinnt geðlækningum í á fimmta áratug. Tilefnið er að samkvæmt nýrri samnorrænni rannsókn sem Högni vinnur að ásamt öðrum kollegum er hefur tíðni sjálfsvíga karla, 25 ára og eldri, haft tilhneigingu til að aukast hér á landi miðað við hin Norðurlöndi, og í yngsta aldurshópnum, undir 25 ára, er hún hvað hæst. Ekki nóg með það heldur hefur sjálfsvígum karla fækkað á hinum Norðurlöndunum, frá síðustu aldamótum, á meðan slíku er ekki að heilsa hér á landi. Þvert á móti hefur sjálfsvígum karla, eldri en 25 ára, fjölgað hér á landi frá aldamótum.
Sjálfsvíg eru alltaf harmleikur sem snertir marga. Þau snerta fjölskyldu, stórfjölskyldu, vinahópa, skólahópa og vinnuhópa, heil samfélög jafnvel. Þau eru samfélaginu þannig mjög dýr, á mörgum sviðum. „Ef við horfum til dæmis til ungra karla þá er mjög dýrt fyrir samfélagið að missa þá, hvort sem er vegna sjálfsvíga eða alvarlegra veikinda, á aldrinum 25, 30, 40 ára. Það er búið að fjárfesta mjög mikið í manneskjunni, í gegnum menntakerfið og heilbrigðiskerfið að einhverju leyti líka. Þetta eru glötuð verðmæti. Þetta er kaldranaleg nálgun til að lýsa þessu en það þarf að reikna þetta í efnahagslegu tilliti líka,“ segir Högni og setur þessa nálgun í samhengi við að ekki hafa verið settir fjármunir í forvarnir gegn sjálfsvígum, að hans mati, svo vel sé. Hið sama megi segja um geðheilbrigðiskerfið. „Fyrir samfélagið er mikilvægt að ná betur utan um þetta, bæði efnahagslega, út frá lýðfræðilegum sjónarmiðum og út frá hamingjustuðli samfélagsins, og ekki síst til að vernda okkur fyrir þeim áföllum sem fylgja í kjölfar þess að einhver tekur þá ákvörðun af svipta sig lífi.“
Auðveldara að ná til kvenna
Högni segir að niðurstöður rannsóknarinnar sem nefnd er hér að framan hafi stungið, sú staðreynd að hér á landi, ólíkt Evrópu og raunar heiminum öllum, hefði sjálfsvígum karla ekki fækkað að eninu marki undanfarna tvo áratugi. Hann telur nauðsynlegt að hefjast handa af fullu afli við forvarnarvinnu gegn sjálfsvígum, sem muni miðast að körlum, til að bregðast við. „Þetta hljómar ekki vel, svona kynjafræðilega, en að mínu mati er mjög mikilvægt að leggja áherslu á karlana. Það er auðveldara að ná til kvennanna, þær hafa meira stuðningsnet í kringum sig, eru opnari fyrir því að ræða málin við vinkonur sínar eða fjölskyldu og eru duglegri að leita sér hjálpar. Það er bara staðreynd að konur leita sér frekar lækninga. Það sá ég mjög vel meðan ég praktíseraði sjálfur, þó það hafi breyst nokkuð með árunum.“
„Ef körlum líður illa fara þeir frekar að berja einhverja, eða drekka brennivín, frekar en að setjast niður og tala um líðan sína“
Spurður hvort hann hafi greint einhverja breytingu þarna á, einhverja viðhorfsbreytingu á þeim áratugum sem hann praktíseraði geðlækningar, játaði hann því. „Vissulega hefur það orðið og það eru í dag miklu minni fordómar gagnvart geðröskunum en var. Menn eru tilbúnari til að leita sér aðstoðar en það vantar samt herslumuninn á til að karlar stígi fram og segi: Heyrðu, ég er þunglyndur og ég þarf einhverja aðstoð.“
Forvarnarverkefni fjaraði út eftir hrunið
Um aldamótin komu fram nokkrir árgangar karlmanna þar sem sjálfsvígstíðni var mjög há. Högni segir að engar skýringar hafi fundist á því hví svo hafi verið. Bylgja sjálfsvíga hafi farið yfir Austfirði um 1990 en það sem gerðist um aldamótin hafi verið með öðrum hætti og ekki fundist skýring á. Þetta sést vel á ógnvænlegum fjölda sjálfsvíga karlmanna árið 2000 en það ár sviptu 42 karlar sig lífi, flestir á aldrinum 18 til 29 ára, 18 talsins.
Staðan þá hafi orðið til þess að Landlæknisembættið setti árið 2003 af stað forvarnarverkefni gegn þunglyndi og sjálfsvígum, sem Högni tók að sér að stýra og hlaut það nafnið Þjóð gegn þunglyndi. Högni segir að þetta hafi verið viðbragð við hinum mikla fjölda sjálfsvíga áranna á undan. Aflað hafi verið fjármuna frá einkaaðilum og sveitarfélögum sem hafi skilað sér í því að hægt var að koma verkefninu vel úr hlaði. Einblínt var á þunglyndi, enda það undirrót flestra sjálfsvíga að því talið er. Högni segir verkefnið hafa rúllað ágætlega, eins og hann kallar það, en svo hafi fjármálahrunið orðið 2008. Við það hafi peningarnir horfið og fjarað undan verkefninu. Síðan, segir Högni, hafi lítið verið að gerast í málaflokknum en nú sé vilji til að láta til sín taka.
„Meiningin er að setja af stað verkefni sem er á svipuðum nótum og Þjóð gegn þunglyndi var. Þótt tíðni sjálfsvíga hafi lækkað lítillega hér á landi þá erum við enn þá á eftir Norðurlöndunum og þurfum að gera miklu meira í þessum málum. Í Finnlandi og Danmörku til að mynda var sjálfsvígstíðni mjög há fyrir aldamótin en þar hefur hún lækkað langmest síðan þá. Það hafa verið forvarnarverkefni í gangi á öllum Norðurlöndunum en það sem hamlar okkur Íslendingum í þessu er að við erum svo lítil þjóð, okkar stofnanir eru svo mannfáar, hvað sem stjórnarandstaðan eða aðrir segja í þessu efni. Ég var til að mynda á norrænum sérfræðingafundi í júní síðastliðnum og mætti þar einn héðan en annars staðar voru teymi fólks og þannig er munurinn. Forvarnir gegn sjálfsvígum eru hér á landi kannski á ábyrgð einnar manneskju hjá Landlæknisembættinu, sem er síðan kannski ekki nema í hálfu starfi við það verkefni.“
Sem fyrr segir vill Högni að umrætt forvarnarverkefni beinist að körlum. Hlutfallið milli kynjanna hafi enda verið þannig að á móti hverri einni konu séu það 3,2 karlar sem svipti sig lífi. Þannig hafi það verið mjög lengi, þó hlutföllin sveiflist aðeins. Sjá má á tölum Landlæknisembættisins, þegar horft er á tíu ára meðalfjölda, að á árabilinu 2002 til 2011 var hlutfallið 1 á móti 3,1 og á árabilinu 2012 til 2021 var hlutfallið 1 á móti 3,4.
Íslendingar ekki öðruvísi en aðrir
Eins og áður er nefnt er talið að stærstan hluta sjálfsvíga megi rekja til þess að fólk hafi áður þjáðst af þunglyndi. Högni segir að tölur þar um séu þó nokkuð á reiki. „Því miður höfum við ekki gert neinar innlendar rannsóknir á þessu, það þarf að gerast til að hægt sé að skilgreina áhættuhópana. En það er alveg ljóst að meirihlutinn er þunglyndur, og áfengi og þunglyndi saman er eitur þegar menn eru í uppnámi. Stundum kemur þetta þó eins og þruma úr heiðskíru lofti. Við þurfum því að ná að greina íslensku áhættuhópana, það er ekki nóg að fara í erlendar rannsóknir og yfirfæra þær.“
„Þunglyndi skeytir engu um stéttaskiptingu“
Þegar blaðamaður tekur undir mikilvægi þessa og nefnir að ýmislegt hér á landi sé öðruvísi en annars staðar, þar á meðal að vetur hér séu bæði langir og harðir og talað hafi verið um að það hafi áhrif til aukins þunglyndis, glottir Högni og svarar: „Já, en það er nú bara ekki þannig. Jú, auðvitað geta erfiðir vetur lagst á fólk. En við erum alveg sambærileg við hin Norðurlöndin. Það er sama þjóðfélagskerfi, svipuð pólitík, heilbrigðiskerfi og menntakerfi eru sambærileg. Töluverður hluti annarra Norðurlandabúa býr á svipuðum slóðum og Íslendingar, í Norður-Noregi, Norður-Svíþjóð og Finnlandi. Við getum því alveg nýtt þeirra reynslu, og gerum það, en við þurfum líka að gera okkar rannsóknir til að segja okkur hvernig við getum best gripið inn í. Þær rannsóknir vantar að mestu leyti. Þetta kallar á peninga og einhvern sem getur helgað sig þessu að fullu.“
Þrátt fyrir að rannsóknir vanti segir Högni þó að almennir áhættuþættir er varða sjálfsvíg séu þekktir. „Það er fyrst og fremst þunglyndi sem þar er undir. Þunglyndi fer ekki í manngreinarálit, það er algjörlega óháð menntun, vinnu, búsetu, kyni eða öðru. Þunglyndi skeytir engu um stéttaskiptingu, það getur lagst á alla. Við þekkjum þessa almenna áhættuþætti, þunglyndi, áfengisneyslu ef hún er samfara þunglyndi, skapgerðarbresti, hvatvísi, lélega reiðistjórnun. Búi karlmenn einir á miðjum aldri eru þeir mögulega frekar útsettir fyrir vanlíðan. Svo eru það auðvitað áföll, dauðsföll í fjölskyldunni, makamissir, atvinnumissir, allt getur það haft áhrif.“
Verður að gera sálfræðiþjónustu aðgengilegri
Hvenær tekst að koma miðstöð forvarna gegn sjálfsvígum á laggirnar er enn ekki alveg ljóst en Högni ásamt öðrum, þar á meðal verkefnisstjóra Landlæknisembættisins, vinna hörðum höndum að undirbúningnum. Horft er til þess að ná til yngri karlmanna í skólunum og þeirra sem eldri eru á vinnustöðum en þar fyrir utan yrði allt fræðslu- og forvarnarefni rafrænt og hægt að nálgast það með ýmsum hætti. Þá sé mjög mikilvægt að takast megi að ná utan um það sem þegar er verið að gera og styðja þar við. Högni nefnir samstarfsverkefni heilsugæslunnar og Landspítala sem felst í að greina þunglyndi og sjálfsvígshættu. Hann leggur einnig áherslu á að fleiri komi að verkefninu, til að mynda Píeta-samtökin, Bergið, Sorgarmiðstöð, Geðhjálp og Hjálparsími Rauða krossins 1717.
Einn vandinn sem takast verði á við sé að þegar tekst að hleypa verkefninu af stokkunum verði jafnframt að verða búið að tryggja það að menn sem náist til, sem sjái fræðsluefni og leiti í framhaldinu hjálpar, hafi tryggan stað að leita á. „Það þarf að undirbúa það alveg sérstaklega vel vegna þess að ef fólk hringir í geðlækni á stofu þá fær fólk alla jafna þau skilaboð að það sé hálfs árs bið, eða þaðan af meira. Bráðamóttaka geðdeildar Landspítala gerir sitt besta en það þarf mun meira til. Sértæka móttöku sem tryggir að öllum beiðnum verði strax svarað og vel skipulögð eftirfygld tryggð. Það er ekkert gagn að þessu öðruvísi,“ segir Högni. Hann tekur þá undir ákall þess efnis að þjónusta sálfræðinga verði gerð fólki mun aðgengilegri og hún verði niðurgreidd. Undarlegt sé að af því hafi enn ekki orðið, þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnmálamanna þar um sem ná áratug eða áratugi aftur í tímann. „Það er alveg ljóst að það þarf að gerast,“ segir Högni með miklum þunga.
Högni hætti eigin læknastofurekstri í febrúar á síðasta ári, þá 77 ára gamall. Sérfræðilækningar hóf hann að stunda árið 1980 og því var hann starfandi geðlæknir, sinnti sjúklingum, í fjörutíu ár. Spurður hvort hann hafi á þeim áratugum sinnt mörgum sjúklingum sem sviptu sig lífi svarar hann: „Já, það gerðist vissulega hjá mér eins og öðrum. Ekki oft en það gerðist. Það er alltaf erfitt fyrir okkur lækna, sálfræðinga, heilbrigðisstarfsfólk, að takast á við slíkt. Það þarf að taka því alvarlega og setjast niður, fara yfir hvað gerðist. Af hverju misstum við? Hvað getum við gert öðruvísi? Við þurfum að spyrja hvernig fólki líður því það situr oft eftir með sjálfsásakanir og sektarkennd. Stundum kom þetta mér fullkomlega á óvart og þá þurfti líka að meta það.“
Spurður hversu lengi hann sjái fyrir sér að helga krafta sína þessum störfum segir Högni að hann hafi, eftir að hann hætti eigin rekstri, ákveðið að nýta tíma sinn og orku í verkefnið. Hann sé vel í sveit settur til þess, hafi þekkingu, reynslu, sambönd bæði innan- og utanlands auk þess sem hann sé markþjálfi og komi því að verkefni sem þessu með breitt svið. „Ég geri þetta, ég segi ekki fram í andlátið, en svo lengi að ég geti fylgt þessu vel úr hlaði.“
Athugasemdir