Ég var í útlöndum yfir jól og áramót og slapp því að mestu leyti við að fagna fæðingu frelsarans. Það er gott að fara frá Íslandi af og til. Við komum heim fimmta janúar og keyrðum inn í Reykjavík gegnt síðdegistraffíkinni og við dáðumst að því hversu falleg borgin okkar er. Ég fyllist yfirleitt þjóðlegu stolti þegar ég kem heim frá útlöndum, þá finnst mér Ísland best og fallegast og stend yfirleitt fastur á þeirri skoðun þangað til ég þarf að eiga í samskiptum við einhverja landa mína. Það var bílaröð frá Háskólanum að Kringlunni, jafnvel lengra í austurátt, eins og vanalega í síðdeginu. Á veturna er teppan yfirleitt á „golden hour“, þegar sólin baðar allt gylltum bjarma, þeim tíma dags sem best er að taka ljósmyndir. Fallegasta stund dagsins og útsýni flestra er af stýrinu sínu og aftan á næsta bíl.
Fimmta janúar var bjarminn áþreifanlegur, mér leið eins og gæti farið út og snert hann. Það var sennilega rétt metið, fattaði ég þegar ég kíkti á fréttirnar heima. Þessi fallegi dagur var fólki hættulegur, enda var börnum haldið inni á leikskólum og fólk hvatt til heimavinnu. Heilsuverndarmörk ársins voru sprengd. Ég komst í uppnám og lærði nýtt orð, þannig að lesturinn einkenndist jafnan hlut af spennu og sorg.
„Þessi fallegi dagur var fólki hættulegur, enda var börnum haldið inni á leikskólum og fólk hvatt til heimavinnu.“
Borgaryfirvöld ítrekuðu mikilvægi þess að nota virka eða vistvæna samgöngumáta, en gerðu ekkert til þess að virkja fólk til þess. Strætóferðum var ekki fjölgað, það var ekki ráðist í sérstakt átak við snjómokstur á göngu- og hjólastígum heldur var hvatningin látin duga. Skoðanasystkini borgarstjórnar, undirritaður þar með talinn, fengu að vísu nokkra brauðmola þegar borgarstjóri loggaði sig inn á Facebook til þess að kveða góða vísu um skaðsemi bíla og nagladekkja sérstaklega. Síðan var fólk hvatt til þess að vinna heima. Fólk hvatt til þess að fara ekki út úr húsinu sínu, til þess að vera laus við eitrað andrúmsloftið í Reykjavík. Skömmu áður sagðist innviðaráðherra telja skynsamlegra að fjárfesta í bílum heldur en lest til Keflavíkur. Lest til Keflavíkur leysir auðvitað ekki samgönguvanda Reykjavíkur, en þetta er lýsandi fyrir viðhorf hins opinbera. Best að halda áfram, breyta engu, gera ekkert. Hann sagði þetta með lestina í viðtali um lokun Reykjanesbrautar, en ég minnist á það hér vegna þess að þessi umræða er ekki ný. Hún hefur verið tekin nokkrum sinnum á ári undanfarin ár, nokkrum sinnum á ári hafa læknar líka bent á að fleiri fá hjartaáfall og blóðfall í þessu mengunarskýi, en ekkert gert. Það er rifist um götusópun og nagladekk og engin skref eru tekin til þess að fækka nagladekkjum eða auka götusópun. Ekkert er gert á meðan Reykjavík breytist í einhverja drepleiðinlega dystópíu, þar sem mengunin er áþreifanleg og fólk hvatt til þess að opna ekki glugga. Ekkert er gert. Ekkert. Kannski er best að njóta þess bara hvernig sólin sker mengunarskýið í síðdeginu og spá ekki í það hvað okkur verkjar í bringuna.
Athugasemdir (2)