„Ég er ekkert viss um að það hafi verið alveg þannig,“ sagði formaður borgarráðs í vikunni, þar var hann að ræða stöðu heimilislausra sem töldu sig ekki hafa í nein skjól að venda í versta fannferginu. Einar Þorsteinsson sagði að það hefði mátt vera öllum þeim sem sækja þjónustu hjá gistiskýlum borgarinnar ljóst að opnunartími þeirra yrði lengdur. Hann var, að eigin sögn, ekki að saka neinn um lygar þegar hann dró það í efa að upplýsingagjöf hafi ekki verið nægilega góð, en var síðan með einhverjar óljósar blammeringar um menn og sviðsljós.
Það er auðvitað engin furða að heimilislausir gengu ekki að því sem vísu að þeir fengju að vera inni í versta bylnum og sárasta kuldanum, samband borgaryfirvalda við þennan hóp er ekki til þess gert að byggja upp traust þeirra á milli, nema síður sé.
Ár hvert fer af stað hávær umræða þar sem borgin er minnt á að það geti orðið kalt hérna um hávetur og að heimilislausir séu alvöru lifandi manneskjur, sem endar loks á því að gistiskýli borgarinnar fá heimild til þess að slá yfir þá húsþaki að degi til. Svo framarlega að þeir drekki ekki eða noti önnur vímuefni þar inni, það leysir auðvitað vandann ekki nema að takmörkuðu leyti þar sem fólk með margþættan vímuefnavanda þarf aðstöðu til þess að nota sín efni, jafnvel með smá reisn. Borgin er ekki einu sinni verst hvað þetta snertir.
Nágrannasveitarfélög niðurgreiða lægra útsvar íbúa sinna að hluta til með því að útvista félagslegri þjónustu til Reykjavíkur, á sérlega hagstæðum kjörum, fyrir það borga þau núll krónur og treysta á að þau sem ekki fá viðeigandi þjónustu sæki hana til Reykjavíkur. Borgin er til að mynda eina sveitarfélag höfuðborgarsvæðisins sem heldur úti gistiskýlum fyrir heimilislausa karlmenn.
Borgin er líka skárri en ríkið hvað þjónustu við þennan hóp varðar. Það er stefna hins opinbera að refsa heimilislausum með vímuefnavanda fyrir að vera til. Þeir mega ekki vera mikið drukknir á almannafæri, en mega hvergi annars staðar vera. Þeir mega ekki nota efni sín og eiga í stöðugri hættu á að verða teknir inn í lögreglubíl, þar sem efnin eru tekin af þeim. Þeir treysta ekki á neyðarþjónustu, ég hugsa að flest hafi reynslu af því að bjóða slasaðri heimilislausri manneskju aðstoð og verið grátbeðin um að hringja ekki í neyðarlínuna, af ótta við að lögreglubíll komi í stað sjúkrabíls, af ótta við að efnin verði tekin af þeim, af ótta við annars konar opinbert ofbeldi.
Íhaldið á Alþingi vill ekki breyta þessu, þegar frumvörp um afglæpavæðingu neysluskammta hafa verið lögð til hefur ekki þótt tímabært að ræða það. Kannski er það vegna þess að íhaldssamir kjósendur eru þvílíkar veimiltítur að þeim býður við tilhugsuninni um mannlega reisn fyrir fólk með vímuefnavanda, kannski er það vegna þess að þingmönnunum sjálfum býður líka við því. Kannski trúa þau því að börnin þeirra verði mætt á dæluna um leið og þau eiga ekki yfir höfði sér fangelsisvist fyrir það. Það má allavega vera öllu þokkalega þenkjandi fólki ljóst að refsistefna kemur ekki í veg fyrir neyslu. Fólk má heldur ekki vera í neyslu í friði, viðhorfið er að annaðhvort eigi fólk að verða edrú eða éta það sem úti frýs. Kostulegt viðhorf í ljósi þess að hið opinbera starfrækir engin meðferðarúrræði, heldur eftirlætur það kristilegum félagasamtökum.
Það er magnað að formaður borgarráðs hafi ákveðið að taka þessa línu, ekki eru vinsældir borgarstjórnar þvílíkar að þau megi við þessu yfirlæti, þegar skorið er niður víða á hinu félagslega sviði, leikskólamál eru í járnum og verktökum á ofurlaunum gefnar frjálsar hendur með hvenær þeir moki snjó.
Þetta er hópur sem virðist endalaust mega pönkast í, tortryggja og niðurlægja, og skora jafnvel nokkur prik hjá íhaldsfólki í leiðinni. Kannski vakti það fyrir Einari Þorsteinssyni, að vinna sér inn nokkur prik. Ég er ekkert viss um að þetta sé í alvöru skoðun hans og ekki ætla ég að gera honum upp annarlegan ásetning, ég veit bara hvernig það getur verið þegar menn venjast því að komast í sviðsljósið.
Athugasemdir