Innrás Rússa í Úkraínu var afdrifaríkasta og dapurlegasta frétt ársins 2022. Hún breytir alþjóðakerfinu. Margir héldu að árásarstríð til landvinninga heyrðu sögunni til, a.m.k. í Evrópu. Ostpolitik Willy Brandts beið mikinn hnekki – sú hugmynd að „eðlileg“ samskipti við óvini væri skásti kostur í hörðum heimi, því venjulega reyndu valdamenn ekki að drepa viðskiptavini sína.
Þessi hugmynd hefur gengið upp innan ESB. Engum dettur lengur í hug að Bretar, Frakkar eða Þjóðverjar ráðist á nágranna sína með hervaldi – en það var normið í evrópskum stjórnmálum öldum saman. En nú standa Þjóðverjar frammi fyrir því að Rússar geta stuðlað að manngerðum fimbulvetri í Vestur-Evrópu. Góðu fréttirnar eru þær að illvirki Rússa hafa þjappað ESB, NATO og vesturveldunum saman.
Á árinu varð Covid-19 ekki lengur skæð drepsótt á heimsvísu. Veiran drepur að vísu enn fólk, en í flestum löndum hefur verið slakað á hinum harkalegu varnarviðbrögðum sem talin voru nauðsynleg.
Nýleg stjórnarmyndun í Danmörku eru mikil tíðindi í norrænum stjórnmálum. Blokkakerfið í Danmörku var brotið upp – Socialdemokratiet, forystuflokkur rauðu blokkar, mynduðu stjórn með forystuflokki bláu blokkar, Venstre, og nýjum flokki Lars Løkke, Moderaterne, sem var þegar utan blokka og boðaði samstarf yfir miðjuna. Blokkakerfið lifir áfram í Svíþjóð og Noregi. Finnar og Íslendingar hafa aldrei haft blokkakerfi – allir hafa getað unnið með öllum. Nýja stjórnin í Danmörku er fyrsta meirihlutastjórnin í áratugi, en minnihlutastjórnir hafa verið algengastar þar eins og í Noregi og Svíþjóð. Meirihlutastjórnir hafa verið reglan á Íslandi og í Finnlandi.
Nýja stjórnin í Danmörku minnir dálítið á hið óvenjulega stjórnarmynstur á Íslandi, þar sem flokkar lengst til hægri og vinstri hafa verið saman í stjórn síðan 2017. En það er líka margvíslegur munur. Flokkur forsætisráðherra í Danmörku er jafnaðarmannaflokkur og langstærsti flokkurinn þar, VG flokkur vinstri sósíalista og minnsti stjórnarflokkurinn hér. Venstre er hægri flokkur, en hefur á þessari öld ekki boðað jafn harða nýfrjálshyggju og hægri flokkarnir Liberal Alliance, Nye Borgerlige, Danmarksdemokraterne og nú nýverið Konservativ Folkeparti. Íslenskir nýfrjálshyggjumenn eru flestir í Sjálfstæðisflokki og Miðflokki, þótt þeir séu auðvitað ekki einráðir þar.
Í Danmörku, Svíþjóð og Noregi hafa rauð blokk og blá blokk skipst á um að sitja í ríkisstjórn undanfarna áratugi. Hér hefur Sjálfstæðisflokkur hins vegar setið í ríkisstjórn síðan 1991 – að fjórum árum undanskildum. Það verða 30 af 34 árum ef stjórnin situr til loka kjörtímabilsins. Enginn flokkur í Skandinavíu hefur viðlíka stöðu – hvorki rauður flokkur né blár. Til þess að finna hliðstæðan árangur þarf að fara langt aftur á síðustu öld, þegar jafnaðarmenn í Svíþjóð, Noregi og Danmörku voru álíka þaulsetnir í ríkisstjórnum.
„Hugmyndafræði skiptir máli á tímum venjulegra stjórnmála“
Fylgisþróun íslensku ríkisstjórnarinnar 2022 er áhugaverð. Stjórnarflokkarnir héldu velli 2021 – og bættu í heild lítillega við sig. Það síðarnefnda er fátítt í íslenskum stjórnmálum og eftir hrun hafa allar aðrar meirihlutastjórnir á Íslandi fallið. Allar byrjuðu þær með 60-80% stuðning í könnunum Gallups (nema stjórn Bjarna Benediktssonar 2017, sem aldrei komst yfir 50% stuðning). Stuðningur við allar þessar stjórnir minnkaði mikið fljótlega á kjörtímabilinu. Þær komust í verulegan minnihluta og það sama átti við um fylgi stjórnarflokkanna í heild.
Fyrir Covid virtist fylgisþróun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á svipaðri braut. Stuðningur við stjórnina var kominn niður í 47% í janúar 2020 – og stjórnarflokkarnir sameiginlega fengu 40% fylgi. Þá brast Covid á. Þremur mánuðum síðar var stuðningur við stjórnina kominn í um 60% og sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna í 45%. Stuðningur við stjórnina breyttist lítið út kjörtímabilið og oftast fengu stjórnarflokkarnir sameiginlega 45-50% fylgi. Covid breytti öllu. Venjuleg stjórnmál voru tekin úr sambandi.
Fylgisþróun núverandi ríkisstjórnar svipar til þróunar fyrstu ríkisstjórnar Katrínar fram að Covid – og allra annarra meirihlutastjórna eftir hrun. Mun þróunin það sem eftir lifir kjörtímabils fylgja þeirri almennu tilhneigingu – eða verður eitthvert „Covid-líki“ stjórninni til bjargar? Árið 2022 var innbyrðis ágreiningur stjórnarflokkanna líka meira áberandi en á síðasta kjörtímabili. Hugmyndafræði skiptir máli á tímum venjulegra stjórnmála.
Eftir borgarstjórnarkosningar myndaði Framsókn meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn. Í ríflega 100 ára sögu sinni hefur Framsókn ýmist unnið til hægri eða vinstri. Síðustu áratugi hefur samstarf við Sjálfstæðisflokk verið algengara en áður var, einkum í landsstjórninni. Verður „vinstra brosið“ hjá Framsókn líka sett upp þar á næstu árum?
Margir vinir Bandaríkjamanna og Breta hafa haft áhyggjur af stjórnmálaþróun þessara fyrrum forystuþjóða lýðræðis, alþjóðasamvinnu og mannréttinda. Repúblíkanaflokkur samtímans á fátt sameiginlegt með þeim „gamla góða“ – þar sem „decent Republicans“ voru algengir. En í þingkosningunum 2022 unnu Repúblíkanar ekki þann stórsigur sem andstöðuflokkur forsetans vinnur gjarnan á miðju kjörtímabili hans. Frambjóðendur sem Trump studdi sérstaklega fengu víða lakari útkomu en aðrir frambjóðendur flokksins – og Demókratar héldu Öldungadeildinni. Of snemmt er að segja hvort þetta sé vísbending um endalok Trumps í pólitík – en „litlu verður Vöggur feginn“.
Bresk stjórnmál hafa verið mörgum harmsefni hin síðari ár. Þegar trúðurinn Boris Johnson var rekinn frá völdum tók nýfrjálshyggjukonan Liz Truss við. Hún hraktist úr embætti eftir fáeinar vikur fyrir að framkvæma stefnuna sem hún hafði boðað! Fáir reyndust hafa trú á að kreddur hennar dygðu til að bæta efnahaginn – og sérstaka athygli vakti að vanþóknun markaðarins á hörðum nýfrjálshyggjuaðgerðum var kannski kornið sem fyllti mælinn.
Það kom í ljós, að almennir flokksfélagar sem kusu hana til formennsku í Íhaldsflokknum – mest gamlir karlar – hafa allt aðrar skoðanir en þorri kjósenda flokksins, þingflokkur hans – og flestir aðrir í samfélaginu. Í einmenningskjördæmakerfum er sérlega varasamt að láta öfgafyllstu stuðningsmenn flokka velja foringja.
Fyrir meinfýsna eru greinar í „The Irish Times“ sérstakt góðgæti þessi árin. Írar leyna lítt Þórðargleði sinni yfir óförum og niðurlægingu sinna gömlu, ensku nýlendukúgara eftir Brexit. Og hafa aukna von um sameinað Írland og sjálfstætt Skotland!
Athugasemdir