Árið sem nú er brátt á enda hefur fært með sér marga vísindalegra sigra en um leið heimsbyggðinni í fang nýjar og erfiðar áskoranir. Samfélög heimsins hafa á árinu fetað sig aftur til fyrra lífs eftir kórónuveirufaraldurinn með stuðningi vísindanna, við höfum öðlast nýja sýn á alheiminn með myndum sem James Webb sjónaukinn hefur fært okkur og jafnframt berast tíðindi af mikilvægum áföngum í baráttu við ýmsa illvíga sjúkdóma, nú síðast tengdar Alzheimers-sjúkdómnum. Um leið hafa rannsóknir og fræðilega grunduð stefnumótun stutt þjóðir heims í að taka sem best á móti því fólki sem er á flótta í heiminum, meðal annars af völdum átaka og hnattrænnar hlýnunar.
Þótt samfélagið okkar hafi færst meira í það sem var fyrir heimsfaraldur Covid-19 þá er býsna stuttur tími liðinn frá því alls kyns hömlur voru á samskiptum til að fyrirbyggja dreifingu veirunnar. Heimurinn hefur opnast á ný og fyrir okkur í Háskóla Íslands var sérlega gaman að geta tekið á ný á móti nemendum á háskólasvæðinu sem hefur iðað af lífi í allt haust. Viðbrögð okkar við faraldrinum voru eðileg í ljósi þess að milljónir létust í þessum heimsfaraldri sem er í raun ekki lokið því veiran tekur sífelldum breytingum á þróunarferli sínum. Vísindaleg þekking færir okkur sanninn um það. Við eigum vísindunum allt að þakka hvernig til hefur tekist í baráttunni við Covid-19 og hér á landi hefur vísindafólk Háskóla Íslands á nær öllum fræðasviðum komið að þeirri vinnu, bæði í viðbrögðum og rýni á veirunni sjálfri og greiningu á áhrifum hennar á ólíkar hliðar og hópa samfélagsins.
Árið hefur enn fremur undirstrikað hvernig við mannfólkið erum sjálft valdur af sumum af áskorunum samtímans. Þannig þurfum við að kljást við falsfréttir og alls kyns áróður á degi hverjum, meðal annars í tengslum við Covid-19 og átök og stríð. Daglega stöndum við frammi fyrir alls kyns upplýsingum á netinu og fréttum af skelfilegri innrás Rússa í Úkraínu og þurfum stöðugt að hafa auga með uppruna efnis til að treysta sannleiksgildið. Þessi ógnvænlega innrás hefur sannarlega haft mest og verst áhrif á þau sem verða beinlínis fyrir henni en saklausir borgarar hafa týnt lífi í sprengjuregni Rússa í Úkraínu.
„Við mannfólkið erum sjálft valdur af sumum af áskorunum samtímans“
Það er ógjörningur að gera sér í hugarlund þær hrikalegu aðstæður sem fólk í Úkraínu býr við þegar innrás Rússa í landið hefur staðið í nærri 10 mánuði. Tetyana Kaganovska, rektor Karazin-háskólans í Kharkiv, gaf okkur þó innsýn í það í kvöldfréttum RÚV skömmu fyrir jól en þar kom meðal annars fram að nær allar byggingar skólans hafa skemmst í sprengjuárásum og fjórðungur háskólasvæðisins er í rúst. HÍ leiðir Aurora, fjölþjóðlegt net háskóla, sem hefur það að markmiði að bæta hag samfélaga en þetta net hefur reynt eftir fremsta megni að koma þessum samstarfsháskóla okkar í Úkraínu til aðstoðar, meðal annars með kaupum á búnaði þannig að hægt sé að halda úti kennslu á netinu. HÍ hefur sömuleiðis stutt úkraínska háskólaborgara og úkraínskt flóttafólk, meðal annars með því að bjóða íbúðir til afnota hér á háskólasvæðinu og bjóða úkraínskum háskólanemum skólavist. Hugur okkar er hjá nemendum og starfsfólki Karazin-háskóla, sem syrgir nú samstarfsfélaga og samnemendur sem hafa dáið í stríðinu, og sömuleiðis allri úkraínsku þjóðinni.
Innrás Rússa í Úkraínu undirstrikar einnig þær ólíku aðstæður sem vísindamenn og fræðafólk býr við í sínum störfum og hversu mikilvægt það er að standa vörð um þekkingarleit og vísindastarf háskóla. Á grunni þeirra verða alls kyns uppgötvanir sem leiða ekki bara atvinnuskapandi tækifæri heldur bæta þær hreinlega líf okkar. Með því að stunda markvissar rannsóknir sem standast samanburð við þær sem fara fram við bestu háskóla í heimi leggur fræðafólk Háskóla Íslands sitt af mörkum í þekkingarleit hins alþjóðlega vísindasamfélags og fæst þannig við viðfangsefni sem skipta okkur öll máli. Það hefur birst okkur meðal annars í stórum alþjóðlegum rannsóknarstyrkjum sem vísindamenn skólans hafa aflað á árinu og nýjum verkefnum sem ýtt var úr vör, en skólinn leiðir meðal annars nýtt evrópskt rannsóknarverkefni sem snýst um að finna nýjar leiðir til að berjast við falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Viðfangsefni vísindafólks HÍ snerta líka auðlindir okkar, lífríki og loftslagsbreytingar sem ráða miklu um afkomu okkar mannanna til framtíðar, menningu þjóðarinnar eins og hún birtist meðal annars í tungunni, bókunum og tungumálunum, og stöðu hinna ólíku kerfa samfélags sem stuðla að bæði þroska og heilbrigði fólks á öllum aldri. Þá rýna fræðimenn skólans í þýðingu sviptinga í hinum pólitíska veruleik bæði hér heima og erlendis og hjálpa okkur að skilja og takast á við hamfarir hér á landi, eins og birtist skýrt í eldgosinu í Geldingadölum í haust. Við getum haldið svona áfram endalaust. Vísindafólkið okkar er í fréttum nánast daglega við að túlka nánast allt sem viðkemur mannlegum veruleika, umhverfi og lífríki. Án þessa fólks værum við ekki bara fátækari – líf okkar væri líka miklu snauðara.
Styrkur samfélaga mun í nánustu framtíð byggjast á því hvernig þeim tekst að leysa þau flóknu viðfangsefni sem heimurinn stendur frammi fyrir. Það hefur aldrei verið brýnna að leita nýrrar þekkingar og hafa óskorað frelsi til að leita hennar. Skapandi hugsun kemur ekki af himnum ofan, hún verður til í kraumandi samfélagi þar sem fólk tekst á við verkefni á ólíkum fræðasviðum.
Skapandi hugsun er undirstaða nýsköpunar. Á henni byggjum við framtíð okkar. Þótt við Íslendingar séum gríðarlega ríkir af auðlindum þá er menntun og þekking mikilvægustu verkfærin til að nýta þær með sjálfbærni að leiðarljósi. Þekkingin er nefnilega gjaldmiðill framtíðarinnar.
Athugasemdir (1)