Fyrir nokkrum árum var ég í hópi kunningja í Marrakesh í Marokkó. Að ganga í gegnum þröngar götur gamla bæjarins var mikil menningarleg upplifun. Þótt borgin sé með þeim nútímalegri í álfunni blasti fátæktin og skortur á vatni við íslenskum velmegunaraugum á hverju götuhorni.
Götusala nokkrum, Ahmed að nafni, tókst að selja okkur fjórum timburgerða og – fljótt á litið – bráðsnjalla gestaþraut. Við sömdum um verðið, eins og í þessum heimshluta tíðkast, og greiddum sennilega helming þeirrar upphæðar sem fyrst var gefin upp. Ahmed kvaddi okkur með tár á hvarmi, enda gekk hann að eigin sögn mjög nærri viðskiptalegum þolmörkum. Þegar á hótelið var komið – og Ahmed á bak og burt – hittum við annan hótelgest, samlanda okkar. Sá hafði greitt innan við fjórðung þeirrar upphæðar sem við höfðum prúttað okkur niður á, fyrir sömu vöru. Tárið á hvarmi götusalans hafði sennilega myndast þar af einskærri gleði yfir því að geta í lok dags sagt eiginkonu sinni frá sölutölum dagsins. Við sáum ekki eftir verðlitlum Dirham-seðlunum.
Þessi minning rifjaðist upp fyrir mér þegar ég tók matvörur upp úr pokanum frá Nettó um helgina. Ég hafði verslað á netinu, sem er þægilegur valkostur og væri öldungis frábær ef hægt væri að ráða fleiri menntskælinga með bílpróf til að keyra vörurnar út. Ófyrirsjáanleiki einkennir afhendingartímann, eins og íslenskt efnahagslíf.
Yfir Nettó svífa enn dreggjar af kaupfélagsanda. Þar eru oft vörur sem ekki fást annars staðar og iðulega einhver tilboð. Ég hélt ég hefði dottið niður á eitt slíkt þegar ég keypti heilan kjúkling, seldan í stykkjatali, á 1.229 krónur. Ég er ekki nema mátulega upplýstur neytandi þegar kemur að verði en þetta leist mér ágætlega á. Ég pantaði og beið svo fram eftir degi.
Sendingin átti að koma milli fimm og sex. Hún kom á slaginu sex. Guði sé lof fyrir Airfryer. Ég setti pokana á eldhúsbekkinn og byrjaði að ganga frá vörunum. Þegar ég loksins fann kjúklinginn rak mig í rogastans. Minni kjúkling hef ég hvorki séð né handleikið. Þetta var sannarlega óþekkt vara á pokasvæði. Kjúklingurinn reyndist 1.159 grömm, samkvæmt mælingu, en Google segir mér að venjulegur kjúklingur sé oftast á bilinu 1.500 til 1.700 grömm.
Þegar ég fletti vörunni upp á Nettó, við ritun þessa pistils, kom í ljós að kjúklingurinn var merktur „heill“ og átti að vera „1.300 grömm“. Það hefði borið vott um góða viðskiptahætti að merkja hann „smár“ svo þeir sem hafa litla tilfinningu fyrir eðlilegri þyngd kjúklinga gætu tekið upplýsta ákvörðun. Í sama poka voru þrjár örsmáar appelsínur sem hefðu horfið í fjöldann í ávaxtahillum Krónunnar, þar sem heimsins smæstu ávextir eru seldir í stykkjatali.
Ég tel það ekki eftir mér að hafa eldað tvo heita rétti umrætt kvöld, vegna þess að kjúklingurinn nægði ekki fjölskyldunni. Mér tekst heldur ekki að finna fyrir reiði yfir því að 11% hafi vantað upp á að kjúklingurinn næði auglýstri þyngd – þó ég hafi þar sannarlega verið hlunnfarinn.
Það er skiljanlegt að götusali í Marrakesh, þar sem lífsbaráttan er hörð, reyni að hafa sem mest út úr viðskiptum sínum þegar hópur ríkra Íslendinga rekur á fjörur hans. Auðvitað vissi hann að skranið sem hann seldi okkur væri jafn einnota og glænýju stuttbuxurnar sem við klæddumst í Afríkuhitanum. Fyrir honum vorum við bara ríkir ferðamenn – einnota kúnnar í stykkjatali. En mikið ósköp vildi ég að stjórnendur íslenskra verslanakeðja myndu standast þá freistingu að selja okkur óvenjulega smáar vörur í stykkjatali, í krafti þess að myndir geta blekkt. Á þessu litla skeri okkar er fólk nefnilega takmörkuð auðlind.
Athugasemdir