Niðurstöður fimm ára rannsóknar Náttúrustofnun Norðausturlands sýna að plast finnst í maga og meltingarfærum 69 prósent allra fýla við Íslandsstrendur. Að meðaltali finast um 5,2 grömm af plasti í hverjum fýl.
Árið 2002 var hafist handa við að fylgjast með plastögnum í fýlum í Norðursjó. Byggðist verkefnið á hollenskri fyrirmynd sem upphafleg hófst árið 1982. Eingöngu eru skoðaðir fýlar sem fundist hafa dauðir á ströndum eða í veiðarfærum fiskibáta. Fyrsti íslenski fýllinn sem gerðar voru mælingar á til að kanna plastinnihald í maga hans var krufinn árið 2018. Síðan þá hafa alls 150 fýlar verið krufðir.
Einn fýll með 71 plastbút
Í rannsókn Náttúrustofnunar Norðausturlands í ár fannst einn fýll sem var með 71 plastbút í maga og í meltingarfærum. Niðurstöðu rannsóknarinnar sýna að mun meira magn af plasti finnst í ókynþroska fuglum. Meginástæðan fyrir því er sú að varpfuglar losa sig við plastið úr maganum þegar þeir eru að gefa ungum að borða á varptíma, með því að æla fæðu í munn unga flytur foreldrið plastið úr maga sér yfir í ungan. Þar sem fýllinn byrjar ekki að verpa fyrr en um tíu ára gamall getur mikið magn af plasti safnast upp í maga hans.
Fýllinn fullkominn til rannsókna
Ein megin ástæðan fyrir því að fýllinn er valinn umfram aðrar fuglategundir er sú að hann aflar sér eingöngu fæði á hafi og má því gera ráð fyrir því að allt það plast sem finnst í honum sé plast sem komi úr hafinu. Þá aflar hann sér að mestu fæði á yfirborði hafs og hann ælir ekki ómeltanlegum fæðuleifum, eins og margar aðrar fuglategundir gera. Fýllinn er þó þekktur fyrir að æla sér til varnar, en þá aðallega á varptíma. Það þýðir að frá hausti fram á vor safnast plast saman í maganum á honum.
Örplast í hafi er vandamál
Plastmengun í sjó er alþjóðlegt vandamál sem hefur gríðarleg áhrif á allt líf í höfum heimsins. Örplast er stærsta vandamálið þar sem það fer beint í fæðukeðjuna. Samkvæmt rannsókn World Wildlife Foundation borðar hver einstaklingur í heiminum að meðaltali jafn mikið plast á viku og er í kreditkorti. Langstærstur hluti þess plasts sem maðurinn borðar kemur úr sjávarafurðum. Samkvæmt rannsókn Anne de Vries, nema í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, kom í ljós að 20,5 prósent af öllum veiddum þorski á Íslandi innihélt plastagnir og 17,4 prósent af öllum ufsa innihélt plastagnir.
Athugasemdir