Undanfarið ár hefur verið Vesturlöndum gott, eins undarlegt og það kann að virðast. Eftir hina háðulegu útreið í Afganistan fyrir rúmu ári virtist sem þau væru orðin harla lítils megnug í alþjóðamálum á meðan Rússar þöndu sig í Sýrlandi, í Líbíu og austast í Úkraínu. Framtíðin tilheyrði Pútín, eða í það minnsta Kína. Og svo réðist Pútín inn í Úkraínu alla og allt snerist við. Samtakamáttur Vesturvelda reyndist meiri en margir bjuggust við og ekki aðeins hafa þau sýnt fram á að þau hafa enn mestan diplómatískan og efnahagslegan mátt, heldur einnig bestu vopnin. Enginn efast lengur um hver útkoman myndi verða í hefðbundu stríði NATO og Rússlands ætti slíkt sér stað. Og jafnvel innrás Kína í Tævan, ef til þess kæmi, virðist síður sennileg til að heppnast. Er það þannig að það fyrirkomulag sem býður upp á mesta framþróun mun óhjákvæmilega verða tæknivæddast og þar með best varið? Er það, þegar til kastanna kemur, geta í stríði sem er hinn endanlegi mælikvarði á mátt þjóða?
Á fjórða áratug síðustu aldar virtist lýðræðið hætt komið og hvert Evrópuríkið á fætur öðru urðu einræðinu að bráð. Ekki var með öllu ljóst að lýðræðið ætti sér mikla framtíð heldur var það fasisminn sem boðaði nýja tíma. Þegar svo stríð braust út á milli þessara þjóðfélagsgerða kom í ljós að framleiðslugeta lýðræðisríkjanna var margfalt meiri en hjá einræðisríkjunum. Eftir stríðslok hefur hinum fyrrum öxulveldum Þýskalandi, Japan og jafnvel Ítalíu hins vegar vegnað vel sem lýðræðisríkjum og orðið meðal þeirra ríkustu í heimi.
Þegar hitt módelið sem einnig hafði sigrað í stríðinu, Sovét-kommúnisminn, féll á árunum 1989-91 virtist ljóst að framtíðin tilheyrði lýðræðinu. Nú, og kapítalismanum. Einræðisstjórnir féllu ekki aðeins í Evrópu heldur einnig í Suður-Afríku og Suður-Ameríku, sem sumar hverjar höfðu verið studdar af Vesturveldunum í kalda stríðinu. Sovétríkin reyndust ekki hafa roð við Vestrinu þegar kom að því að bæta lífskjör fólks.
Hernaðarmáttur Vesturveldanna var einnig yfirþyrmandi og tókst á nokkrum vikum að taka út fjórða stærsta her heims í Írak árið 1991 á meðan Sovétríkin höfðu keyrt sig í strand í fjallahéruðum Afganistan áratuginn á undan. Jafnvel Japan, sem hafði virst ætla að verða helsti samkeppnisaðilinn, átti í efnahagslegri stöðnun, hinum svonefnda týnda áratug sínum. Frægt er að sögunni var sagt lokið, enginn samkeppni var lengur til gegn hinu Vestræna módeli sem hlyti að verða allsráðandi þar eftir.
Eftirköst 11. september
En á nýrri öld fór allt í handaskolum. Lýðræðið í forysturíki þess Bandaríkjunum virtist hætt komið þegar ekki tókst að komast að því með óyggjandi hætti hver hefði unnið kosningarnar árið 2000. Árásirnar ellefta september sýndu fram á að hægt var að ráðast beint á bandarískar borgir í fyrsta sinn í sögunni. Vesturveldin þjöppuðu sér í kjölfarið saman og jafnvel Pútín Rússlandsforseti vottaði samúð sína, en innrásin í Írak tvístraði öllu á ný og Bandaríkin hafa síðan ekki verið jafn óskorað forysturíki alþjóðasamfélagsins. Ógöngurnar í bæði Írak og Afganistan sýndu auk þess fram á að þau voru síður en svo ósigrandi hernaðarlega. Og svo kom hrunið og Vesturlönd virtust heldur ekki allsráðandi efnahagslega. Einræðisríkið Kína hafði siglt framúr bæði Bretlandi og Frakklandi, Þýskalandi og Japan, og var orðið næst stærsta efnahagsveldi heims. Hér var komið annað módel fyrir þróunarlönd til að líkja eftir og Kína varð brátt helsti fjárfestirinn í Afríku. Pútín virtist jafnframt vera að endurheimta gamla stórveldisstöðu Rússa á kostnað nágranna sinna og í trássi við Vesturlönd.
Ekki batnaði ástand Vesturveldanna á öðrum áratugnum. Kínverjar héldu áfram að þenjast út með belti og braut en Bretland, eitt ríkasta Evrópulandið, ákvað að ganga úr Evrópusambandinu. Trump var kosinn Bandaríkjaforseti og virtist ætla að draga landið úr öllu alþjóðasamstarfi. Í rísandi stórveldum á borð við Indland og Brasilíu kaus fólk fremur valdboðsstjórnir en lýðræðislegar. Pútín athafnaði sig að vild í Sýrlandi og austurhluta Úkraínu. Þegar svo 300.000 manna her Afgana sem Vesturveldin höfðu eitt mörgum árum og milljörðum dollara í að þjálfa og vopna féll á nokkrum vikum fyrir talíbönum virðist Pútín hafa talið að tími væri til kominn að láta til skarar skríða. Megnugri en þetta voru Vesturlönd víst ekki.
En þar misreiknaði hann sig hrapallega. Samtakamátturinn virtist þrátt fyrir allt meiri en nokkurn óraði fyrir. Og Úkraínuher, sem einnig hafði hlotið vopn og þjálfun frá Vesturlöndum, stóð sig mun betur enn hinn afganski hafði gert. Pútíniska módelið sem byggt hafði verið upp í 20 ár liðaðist í sundur á nokkrum mánuðum. Ekkert meintra bandalagsríkja í Mið-Asíu hefur vottað honum stuðning og jafnvel leppríkið Hvíta-Rús hefur forðast að taka þátt í stríðinu með beinum hætti. Indverjar, sem lengi hafa keypt vopn af Rússum leita nú annað enda rússnesk vopn harla gagnslítil og Kína vill lítið skipta sér af. Úkraína hefur hins vegar sótt um að ganga í Evrópusambandið og gæti gengið í NATO líka, líkt og Svíþjóð og Finnland sækjast nú eftir. Rússneskir hermenn eru sendir heim frá Sýrlandi því þeirra er þörf í innrásinni í nágrannaríkið, á meðan Íranar koma sér fyrir á Krímskaga til að aðstoða Rússa sem fátt virðast geta sjálfir til drónaárása.
En það er ekki aðeins í næsta nágrenni Rússlands sem fólk lítur til Vesturs. Í Íran hafa konur mótmælt því vikum saman að vera neyddar til að ganga með slæður og láta sumar hafa það eftir sér að þær vilji fá að skemmta sér líkt og fólk gerir í Los Angeles og New York. Rétt eins og undir lok síðustu heimsstyrjaldar hefur velgengni í stríði í för með sér menningarleg og jafnvel stjórnmálaleg áhrif víða um heim, allir vilja jú líkjast sigurvegurunum því þeir eiga framtíðina fyrir sér.
Lýðræðið gliðnar í sundur?
En þó Vesturveldin hafi staðist árás Pútíns á jaðar sinn eru enn blikur á lofti, og þær koma ekki síst innan frá. Gamli kaldastríðsjálkurinn Joe Biden leit svo á að heimsmálin snerust um baráttu lýðræðis- og einræðisríkja, og atburðir á valdatíð hans virðast renna stoðum undir þá kenningu. En lýðræðið á heimavelli gæti reynst brothætt. Trump forseti reyndi að standa fyrir valdaráni á síðustu dögum sínum í embætti og ekki víst að lýðræðið í Bandaríkjunum lifi af aðra valdatíð hans. Hvernig sem það fer verður bandarískt þjóðfélag stöðugt tvískiptara. Um 1960 voru aðeins fimm prósent foreldra sem óttuðust að börn sín myndu giftast einhverjum sem kysi annan flokk en þau sjálf, en fyrir 10 árum var sú tala kominn upp í helming og hefur líklega hækkað enn. Ekki er víst hvað þurfi til að grói um heilt á milli, nema þá martraðarsviðsmynd á borð við stríð við Kína, sem yrði líklega enn óheppilegra fyrir heimsbyggðina en borgarastríð í Bandaríkjunum myndi verða.
Ekki gengur öllu betur í öðru kjarnalandi Vestursins, Bretlandi, þar sem fjórir forsætisráðherrar hafa verið við völd á undanförnum sex árum og er sá fimmti væntanlegur. Minnir þetta á vandræðaganginn sem lengi hefur einkennt ítölsk stjórnmál og fer síst skánandi þar sem flokkur sem er skilgetið afkvæmi fasista er nú í oddasötðu. Öllu betur gengur í Þýsklandi og Frakklandi, sem þó hafa gert alvarleg mistök í undirgefni sinni gagnvart Rússum og teljast vart til forysturíkja. Og einnig verður að hafa í huga að aðeins um fimmtungur heimsbyggðarinnar hefur fordæmt innrás Rússa, en aðrir setið hjá. Vesturlönd geta staðið saman en ekki vilja allir standa með þeim.
Vestrið undir forystu Bandaríkjanna var í einstakri stöðu undir lok kalda stríðsins en George W. Bush tókst að glutra henni niður á valdatíð sinni. Eitthvað er að rofa til þessa dagana, en ekki er víst að betur takist að halda á spilunum nú. Á fyrri hluta 20. aldar var ekki ljóst að lýðræðið myndi lifa út öldina, þrátt fyrir að hafa endað hana með glans, og ekki er enn útséð um að það muni hafa þá 21. af.
Athugasemdir