Íslandsbanki hélt áfram að hagnast umfram væntingar á síðustu þremur mánuðum ársins, líkt og bankinn hefur gert allt þetta ár. Í tilkynningu á vef bankans kemur fram að hagnaðurinn þessa þrjá mánuði hafi verið 7,5 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár upp á 14,4 prósent. Vegna þessa góða gengis í rekstri bankans hefur markmið um arðsemi ársins verið hækkuð enn á ný, úr því að vera yfir 10 prósent í 11 til 13 prósent.
Tekjur bankans eru að langstærstum hluta úr reglulegri starfsemi; það er lán til heimila og fyrirtækja og gjöld sem bankinn leggur á fyrir veitta þjónustu. Vaxtamunur bankans, sem er munurinn á þeim vöxtum sem bankinn lánar á og þeim vaxtakjörum sem bankanum sjálfum býðst þegar hann fær sjálfur lánað, hélt líka áfram að aukast. Vaxtamunurinn var 3 prósent á þessu þriggja mánaða tímabili, samanborið við 2,4 prósent á sama tímabili í fyrra.
„Gríðarsterk afkoma“
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, var að vonum mjög ánægð með hagnað bankans, samkvæmt tilkynningunni. „Afkoma Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi var gríðarsterk þar sem hagnaður var 7,5 ma. kr. og arðsemi eigin fjár 14,4% sem er yfir fjárhagsmarkmiðum bankans,“ var haft eftir henni þar.
Bankinn hagnast verulega á hækkandi vaxtaumhverfi en stýrivextir hafa hækkað um 5 prósentustig að undanförnu; farið úr 0,75 prósentum í mars á síðasta ári í 5,75 prósent nú. Bankinn, líkt og hinir stóru íslensku bankarnir tveir, hefur samhliða hækkað útlánavexti sína til viðskiptavina. Bankinn sjálfur verður hins vegar ekki fyrir sömu áhrifum þessara stýrivaxtahækkanna þar sem fjármögnun bankans er ekki að jafn stórum hluta á breytilegum vöxtum og útlánin.
Í umfjöllun Stundarinnar um hækkandi vaxtamun bankanna frá 8. október kom fram að um 30 prósent af útlánasafni Íslandsbanka væru óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum vöxtum. Allar breytingar á vöxtum snerta þennan hóp því bæði beint og hratt, sem hefur greitt sífellt hærri vexti undanfarin misseri, sem hefur þýtt aukinn hagnað bankans.
Minni arðsemi Arion og Landsbanka
Arion banki skilaði ekki jafn mikilli arðsemi og Íslandsbanki en Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir sig og sitt teymi „nokkuð sátt við afkomu bankans“. Arðsemi eiginfjár var 10,5 prósent, samanborið við 17 prósent á sama tímabili í fyrra. Hagnaðurinn var 4,9 milljarðar á tímabilinu.
Vaxtamunur Arion hækkaði líkt og hjá Íslandsbanka á milli tímabila og var 3,2 prósent. Það er ívið meira en markmið bankans um vaxtamun er. Í áðurnefndri umfjöllun Stundarinnar um vexti kom fram í svari upplýsingafulltrúa bankans að markmið Arion væri að hafa vaxtamuninn 3 prósent.
Hagnaður Landsbankans var lægri en Íslandsbanka en hærri en Arion; nam 5,8 milljörðum króna, samkvæmt tilkynningu bankans frá því í gær um uppgjör þriðja ársfjórðungs. Vaxtamunurinn jókst á milli tímabila líkt og hjá hinum tveimur og var 2,8 prósent. Arðsemi bankans, sem er að nær öllu leyti í eigu ríkisins, var 8,5 prósent.
Athugasemdir