Þann 24. október 1975 lögðu næstum allar konur á Íslandi niður störf í fyrsta skipti. Verksmiðjur lömuðust, símsvörun og fiskvinnsla lagðist af. Heimilisstörf voru vart unnin.
Hjúkrun og umönnun aldraðra og veikra var í lágmarki. Börn dúkkuðu upp á vinnustöðum sem sjaldan eða aldrei höfðu fengið slíkar heimsóknir. Margir karlar þreyttu frumraun sína í bleiuskiptum, kartöflusuðu og eggjaspælingum.
Kvennaverkfallið 1975 var einhver besta afurð kvennasamstöðunnar. Útifundur dagsins, sá stærsti í Íslandssögunni, var skipulagður af konum sem höfðu löngu fengið nóg af því að framlag karla til samfélagsins þætti verðmætara en framlag kvenna.
Sex kvennaverkföll
Síðan hafa verið haldin sex kvennaverkföll, það næsta árið 1985. Þá var haldin sýning í hálfkaraðri byggingu sem nú hýsir Seðlabankann. Sýningin hét Kvennasmiðja, konan – vinnan – kjörin, og veitti fólki innsýn í atvinnuþátttöku kvenna í samfélaginu. Aftur skundaði mikill fjöldi kvenna á Lækjartorg þar sem þær kröfðust raunverulegs launajafnréttis. Lög um jafnrétti kvenna og karla, sem sett höfðu verið í kjölfar fundarins 10 árum áður, höfðu ekki náð markmiði sínu.
Árin 2005 og 2010 slógu konur eigin met í stærð útifunda í tvígang þegar um og yfir 50.000 konur söfnuðust saman í miðbænum með sömu kröfu á lofti; raunverulegt launajafnrétti sem enn var langt utan sjónmáls. Árin 2016 og 2018 var yfirskriftin „Kjarajafnrétti strax“ og áhersla lögð á að það þyrfti ekki að breyta konum, heldur samfélaginu.
Fjögur þúsund milljarðar
Það eru 47 ár liðin síðan fyrstu konurnar lögðu niður störf. Rúmlega ein starfsævi. Skoðum hvað hefur gerst síðan þá. Ef við gerum ráð fyrir 14% launamun, 500.000 króna meðaltekjum á mánuði að núvirði og 90.000 konum á vinnumarkaði (sem er allt varlega áætlað), þá hefur:
- Hver þessara kvenna orðið af 80.000 krónum á mánuði.
- Hver þessara kvenna orðið af einni milljón króna á ári, eða 46 milljónum alls.
- Samfélagið sparað sér rúma 4000 milljarða með því að snuða þessar 90.000 konur.
Eðlileg krafa
Í stað þess að koma til móts við kröfur formæðra okkar árið 1975 hafa stjórnvöld og atvinnurekendur dundað sér við að skrifa og stagbæta lög, stofna og afleggja nefndir og setja starfshópa í skýrslugerð aftur og aftur og aftur og aftur. Þrátt fyrir það komast atvinnurekendur enn upp með að taka sér ólöglegan afslátt af vinnuframlagi kvenna. Samfélagið greiðir aðeins fyrir brot af framlagi kvenna til uppeldis, þrifa, umönnunar og hjúkrunar, að ekki sé minnst á skipulag og utanumhald með öllu þessu.
Mín vegna þarf hvorki að leggja mikla vinnu í kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga né viðræður um sanngirni. Lög, reglur, starfshópar, nefndir og skýrslur eru öll á einu máli. Það þarf að leiðrétta verðmætamat samfélagsins og greiða konum sanngjörn laun fyrir það sem þær inna af hendi.
Það væri fróðleg að vita hvort Kvennaverkfallið 1975 sé ekki ennþá það fjölmennasta í söguni, miðað við höfðatölu á þeim tíma.