Öllum þeim sem vistaðir voru á meðferðarheimilinu í Varpholti og á Laugalandi býðst að bóka fund hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Þar gefst þeim tækifæri til að ræða niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar um starfsemi meðferðarheimilisins. Niðurstaða skýrslunnar var sú að börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu hefðu verið beitt andlegu ofbeldi á kerfisbundinn hátt.
Nokkur óvissa hefur ríkt um það hvaða ráðuneyti myndi taka skýrsluna til áframhaldandi umfjöllunar þar sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, sem falið var að gera könnun á starfsemi heimilisins á árabilinu 1997 til 2007, heyrir undir félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Barnaverndarmál heyra hins vegar undir mennta- og barnamálaráðuneyti þar sem Ásmundur Einar Daðason situr á stóli ráðherra. Ásmundur hafði forgöngu um það á síðasta ári að starfsemi heimilisins yrði rannsökuð þegar hann sat sem félags- og barnamálaráðherra. Er niðurstaðan nú sú að hans ráðuneyti muni taka við framhaldi málsins.
Í gærmorgun sendi Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, fyrir hönd ráðuneytisins, þeim einstaklingum sem vistaðir voru á meðferðarheimilinu tölvupóst þar sem þeim var boðið að bóka fund í ráðuneytinu til að ræða niðurstöður skýrslunnar og þær aðgerðir sem ráðuneytið hefði unnið í kjölfar hennar. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er þó enn ekki vitað til hvaða aðgerða verður gripið í kjölfar skýrslunnar, hvort fólkinu sem vistað var þar verði boðnar fébætur eða aðrar skaðabætur til að mynda. Það muni helgast af því sem fram komi á umræddum fundum með fólkinu sem um ræðir, hverjar þeirra áherslur og vilji verði.
Samkvæmt sömu upplýsingum úr ráðuneytinu mun Ásmundur sjálfur hugsanlega funda með einhverjum fyrrum vistbarna en fleiri starfsmenn ráðuneytisins muni sitja fundina.
Í samtölum Stundarinnar við fjölda kvenna sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu hefur komið fram hörð gagnrýni á það sambandsleysi sem þeim hefur þótt einkenna málið allt, bæði á meðan á vinnslu skýrslunnar stóð en eins eftir að hún var gerð opinber fyrir hálfum mánuði síðan. Þær hafa sagst vera bæði undrandi og ósáttar með að ekki hafi komið fram skýr svör um hver afdrif skýrslunnar eigi að verða, til hvaða aðgerða eigi að grípa til að ofbeldi sem þetta geti ekki endurtekið sig og hvernig eigi að koma til móts við þeirra skaða. Fjöldi þeirra hefur jafnframt lýst því að þeim þyki lágmarkskrafa að hið opinbera tryggi þeim faglega aðstoð til að vinna úr sálrænum vanda vegna vistunarinnar á heimilinu. Til þessa hafi þeim ekki boðist neitt slíkt.
Athugasemdir