Dýraníð er reglulega í fréttum. Við hryllum okkur og lítum undan.
Flest okkar hafa samúð með dýrum sem þjást þótt einhverjir hafi komið sér upp brynju gagnvart þjáningu annarra tegunda.
Við eru líka ofurtegundin. Við eigum falleg orð til að lýsa okkur og erum mannúðleg og manneskjuleg og þannig er mennskan alltaf viðmið um mildi og kærleika.
Það er verið að pynta hesta í Borgarfirði. Víða er sogið blóð úr hryssum til að fjöldaframleiða grísi í verksmiðjum. Fyrir norðan er maður sem hefur lengi komist upp með að níðast á nautgripum. Á bæ í Borgarfirði hefur sauðfé verið mishöndlað svo áratugum skiptir. Sögur sem við heyrum og dæmi sem við sjáum og kannski aðeins toppurinn á ísjakanum. MAST kemur svo af fjöllum. Þar á bæ er fólk slegið, setur mál í skoðun og ætlar að hafa auga með. Matvælaráðherra segist líka hafa augun á níðingunum. Dýralæknar þegja og einhverjir og vinir þeirra hafa tekjur af blóðmerarbransanum.
En hvað segja bændur? Jú, ég þekki marga bændur sem eru miður sín og reyna jafnvel að beita sér þegar þeir horfa upp á eða vita af dýraníðingum í sinni stétt. En samtök þeirra mættu vera öflugri því það er bændum í hag að samtök þeirra beiti sér af krafti gegn dýraofbeldi.
Ég legg hér inn dæmi, bara af því að ég varð vitni að því máli. Og athugaðu, kæri lesandi, að þetta er bara lítið dæmi.
Sveitungar í Borgarfirði fengu fund með sveitarstjórn, fulltrúum upprekstrarfélags og forstjóra, lögmanni og dýralækni MAST fyrir rúmu ári vegna dýraníðs sem hefur viðgengist á bæ einum áratugum saman. Fulltrúar MAST voru slegnir og sögðu að málið hefði þurft að kæra fyrir löngu. Flestir viðstaddir sögðust hafa kært oft í gegnum tíðina. Fulltrúarnir sögðust þá allir vera nýir í starfi og því ekki heyrt af málinu fyrr en þarna. Bóndi á fundinum beygði af þegar hann lýsti ástandinu á þessum bæ. Sveitarstjórnarmenn sögðust lítið geta gert og sátu þöglir. En fulltrúar MAST lofuðu að málið yrði tekið föstum tökum. Þeir áréttuðu þó að það þyrfti að rannsaka og að það ferli gæti jafnvel teygst upp í tvö ár.
Tvö ár. Það er kannski lítið þegar búið er að kæra sama málið ótal sinnum í 30 ár. Mér finnst þó gott til þess að vita að MAST kemur ekki að barnaverndarmálum.
Hvað sem líður vinnulagi í þessari stofnun má ljóst vera að málleysingjar þurfa mun sterkari málsvara innan kerfisins og hraðari og öflugri verkferla.
Einhver verður að gera eitthvað í þessu.
Athugasemdir (3)