Nú þegar Seðlabankinn hefur hækkað vexti um 0,75% segir seðlabankastjórinn Ásgeir Jónsson að hækkunin komi til af góðum ástæðum í þetta sinn. Á fundi peningastefnunefndar í morgun endurtók Ásgeir skilaboðin fjórum sinnum, „okkur er að ganga mjög vel“. Á fundinum birtist skýrt að tvær hliðar eru á peningnum þegar litið er til ástands hagkerfis Íslands.
„Þessi aukna verðbólga sem við erum að spá stafar af því að hagvaxtarhorfurnar eru alltaf að batna. Þetta er að ganga miklu betur hjá okkur. Og það er í sjálfu sér alveg ömurlegt fag að vera í hagfræði, vegna þess að jákvæðar fréttir verða alltaf neikvæðar hjá okkur. Síðustu fjóra fjórðunga, kerfið er búið að vaxa um tíu present á hverjum fjórðungi. Og þá þurfum við að hækka vexti og vera neikvæð,“ sagði hann, á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun.
Hagkerfið ofhitnar
Um leið og verðlag „hækkar verulega“ og vaxtagreiðslur fólks aukast, samhliða því að laun hafa hækkað um 8% síðasta árið, lýsir peningastefnunefnd Seðlabankans ákveðnu lúxusvandamáli.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur seðlabankans, bendir á að met hafa verið slegin. „Það eru vísbendingar um að hagkerfið sé að ofhitna,“ sagði Þórarinn í morgun.
Störfum fjölgar um 8% á milli ára, fyrirtæki „í vandræðum með að fá fólk í vinnu“ og „vinnuvikan er tekin að lengjast aftur í fyrsta sinn frá því 2019“, benti Þórarinn á. Á sama tíma eykst svartsýni og almenningur gerir ráð fyrir meiri verðbólgu.
„Við erum með metfjölda af túristum sem eru að reyna ansi mikið á innlenda resorsa,“ sagði Þórarinn.
Ein vísbendingin um hitann í hagkerfinu er það sem hagfræðingarnir kalla „innflutning vinnuafls“.
„Hrein aukning á erlendum ríkisborgurum var yfir 3.500 sem er það mesta sem hefur mælst frá upphafi mælinga,“ segir Þórarinn.
Um er að ræða að stórum hluta fólk sem kemur til starfa í ferðaþjónustu. Spurður út í það hvort lágtekjufólk hefði ekki fengið verulega raunlaunahækkun að undanförnu - að laun hafi hækkað langt umfram verðbólguna - sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að lágtekjufólk færi verst út úr verðbólgunni og að horfa þyrfti á samhengi framhaldsins.
Athugasemdir