Þrátt fyrir ítrekaðar tilkynningar til lögreglu, barnaverndar og félagsþjónustu um árabil býr Anna Khyzhnyak enn við áreiti og ofbeldi af hálfu barnsföður síns, sem hún skyldi við árið 2015. Lögregla hefur ítrekað haft afskipti af manninum, hann hefur sætt nálgunarbanni gegn Önnu og hún hefur kært hann í tvígang. Engu að síður linnir ekki áreitinu og þarf Anna enn að vera í samskiptum við manninn vegna þess að þau deila forræði yfir dóttur þeirra. Anna er orðin úrkula vonar um að fá nokkurn tíma frið fyrir manninum og segir yfirvöld hafa brugðist bæði sér og dóttur sinni.
Anna ræddi við Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum Eigin konur á Stundinni og lýsti þar samskiptum sínum við manninn og kerfið. Maðurinn hefur að sögn Önnu hótað henni lífláti, beitt hana ofbeldi og áreitt árum saman. Framburður Önnu fær stöð í gögnum sem Stundin hefur undir höndum. Þar á meðal eru tugir skilaboða sem maðurinn hefur sent henni, þar sem hann hótar henni meðal annars lífláti. Þá hefur lögregla ítrekað haft afskipti af manninum og móttekið tilkynningar Önnu um áreiti af hans hálfu, sem og húsbrot. Lögreglan hefur þá margsinnis tilkynnt Barnavernd Reykjavíkur um stöðu mála, án sjáanlegs árangurs. Þá ber starfskona Stígamóta, en þangað leitað Anna, hjá lögreglu að hún „hafi áhyggjur af þessu ástandi sem Hanna og barn hennar búi við.“
„Hann sagði mér að hann myndi drepa mig, ef ég byrjaði í sambandi með öðrum mönnum“
Anna skildi sem fyrr segir við barnsföður sinn og hefur síðan og fram á þennan dag sætt áreiti og ofbeldi af hans hálfu, að eigin sögn og samkvæmt gögnum. Um þverbak keyrði árið 2017 sem endað með því að maðurinn var úrskurðaður í hálfs árs nálgunarbann gegn Önnu. Var það eftir að hún hafði setið undir ítrekuðum hótunum og afskiptasemi mannsins. Anna segir að áður en maðurinn var úrskurðaður í nálgunarbann gegn henni hefði hann meðal annars hótað henni lífláti. „Hann sagði mér að hann myndi drepa mig, ef ég byrjaði í sambandi með öðrum mönnum.“
„Ertu að fara að setja föður dóttur þinnar í fangelsi?“
Á þeim tíma var Anna í viðtölum í Bjarkarhlíð. Þar var henni hjálpað að finna lögfræðing og með honum fór Anna til lögreglu og kærði barnsföður sinn. Hún segir að ákvörðunin þar um hafi verið mjög erfið í ljósi þess að þau ættu saman barn. Að fá úrskurðað nálgunarbann er alla jafna tímafrekt og svo var einnig í tilfelli Önnu. Á meðan hún beið þess hélt barnsfaðir hennar áfram að ógna henni og hóta, eftir því sem hún segir. „Það voru allskonar skilaboð, hótanir, hann elti mig nánast á hverjum degi.“
Anna lýsir því að hvað verst hafi þetta verið þær helgar sem barnið þeirra var í umgengni við föður sinn og hún ein. Þá hafi hún ekkert mátt gera, maðurinn hafi gert henni ljóst að hún yrði að upplýsa hann um allar hennar ferðir á meðan að á því stæði. Þegar loks var úrskurðað að maðurinn skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart Önnu breytti það því þó ekki að umgengni hans við barn þeirra hélst. Það þýddi að maðurinn kom heim til Önnu til að sækja barnið og hún því tilneydd til að eiga í samskiptum við hann. Anna lýsir því að fyrst eftir að nálgunarbannið tók gildi hafi þó orðið breyting á hegðun barnsföður hennar, hann hafi passað sig betur og ekki haft samband við hana. „En svo með tímanum þá fór hann aftur að haga sér á sama hátt og áður. Ég var þarna komin undir hans stjórn og ég skammaðist mín svo mikið að ég tilkynnti ekki brot á nálgunarbanninu. Hann hefur oft sagt við mig: Ertu að fara að setja föður dóttur þinnar í fangelsi? Þess vegna hef ég alltaf bakkað.“
Spurð hvernig það geti gengið upp að maður sé úrskurðaður í nálgunarbann gegn konu en engu að síður sé enn í gangi umgengni við barn þeirra, sem óhjákvæmilega leiði af sér samskipti þeirra á milli, segir Anna að svarið sem hún hafi fengið hafi verið að nálgunarbann hafi gilt gangvart samskiptum við hana en ekki við barnið. „Þá spyr ég: Hver átti að passa mig og barnið á þessu tímabili þegar nálgunarbann gagnvart móður var í gildi en líka umgengnissamningur gagnvart barninu? Þarna var ég sett í mjög erfiða stöðu.“
Nálgunarbannið gilti í sex mánuði en um leið og það rann út hófst ofbeldið og áreitið að nýju, eða hélt áfram. Meðal annnars kom maðurinn heim til Önnu eftir það og hótaði henni. Raunar braut maðurinn gegn nálgunarbanninu á meðan á því stóð, en Anna, úrvinda eftir áreitið og baráttuna við kerfið, kveðst ekki hafa treyst sér til að tilkynna brot mannsins.
Líflátshótanir til á myndböndum
Anna lýsir því ennfremur í viðtalinu að barnsfaðir hennar hafi í fleiri en eitt skipti orðið uppvís að húsbroti á heimili hennar. Hann hafi meðal annars komið heim til hennar um miðja nótt þegar dóttir hans var hjá honum. Anna hafi vaknað upp þar sem maðurinn stóð yfir henni í rúminu og krafist skýringa á því hvers vegna Anna svaraði ekki símtölum hans. Ástæðan hafi verið sú að hann hafi viljað fylgjast nákvæmlega með því hvað Anna væri að gera meðan hún væri ein. Í viðtali við ráðgjafa Barnaverndar greindi Anna frá því að eftir að hún vaknaði upp hafi barnsfaðir hennar tekið höndum um háls hennar og þrengt þannig að hún var við það að missa meðvitund.
Til eru myndbönd þar sem maðurinn heyrist segja að hann ætli sér að drepa Önnu. Anna lagði, í annað skipti, fram kæru á hendur barnsföður sínum í júní árið 2018 fyrir hótanir og heimilisofbeldi sem hún bar að átt hefðu sér stað í október árið áður. Á þeim tíma hefði enn átt að vera í gildi nálgunarbann mannsins gegn Önnu. Bar hún einnig að maðurinn hótaði henni lífláti, ítrekað. „[H]anna lagði fram tölvupósta máli sínu til stuðnings auk tveggja myndbandsupptaka þar sem fram koma líflátshótanir,“ segir í bókun lögreglu. Tilgreint er að maðurinn heyrist segja á myndbandi „You will see dead with your own eyes“ og „I swear I will fucking destroy you“. Það myndi um það bil útleggjast sem „Þú munt horfast í augu við dauðann“ og „Ég sver að ég mun andskotans eyðileggja þig“.
„Þetta verður það síðasta sem þú munt sjá ef þú byrjar nýtt líf“
Í viðtalinu greindi Anna auk þess frá því að barnsfaðir hennar hefði hótað henni með byssu. Því hinu sama greindi hún einnig frá í viðtali við ráðgjafa Barnavefndar en í minnisblaði þar um segir að Anna beri að „faðir hafi í eitt sinn beint að henni byssu og hótað henni að byssan yrði það síðasta sem hún myndi sjá.“ Í viðtalinu í Eigin konum lýsir Anna því að þetta hafi gerst þannig að hann hafi hótað henni að ef hún myndi hefja nýtt líf myndi hann drepa hana. „Hann settist inn í bílinn hjá mér og sagði: Sérðu þetta [um byssuna]. Þetta verður það síðasta sem þú munt sjá ef þú byrjar nýtt líf.“
Spurð hvort hún hafi verið hrædd um að maðurinn myndi beita byssunni og skjóta hana svarar Anna því játandi. „Ég var hrædd á einhverjum tímapunkti, já.“
Aldrei ákært
Sjá má í gögnum lögreglu að málefni Önnu og barnsföður hennar hafa verið til skoðunar um langt skeið. Meðal annars er bókað árið 2017 að lögregla hafi rætt við starfsmann Stígamóta, en þangað hafi Anna leitað. Starfsmaður samtakanna hafi lýst því að Anna hefði greint frá því að hegðun barnsföður hennar væri ofbeldisfull. „Hann hafi beitt hana andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi í gegnum tíðina.“ Lýsti starfsmaður Stígamóta áhyggjum af ástandinu sem Anna og dóttir hennar byggju við í samtali við lögreglu.
Þá má einnig sjá í gögnum lögreglu að Anna hafi komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu til að tilkynna áframhaldandi áreiti og ónæði af hálfu barnsföður síns. Hún hefði sýnt sms skilaboð sem barnsfaðir sendi í sífellu „þar sem hann krafði hana um að gera grein fyrir ferðum sínum.“
Á árinu 2016 hafði lögregla í eitt skipti afskipti af manninum vegna brots gegn friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þann 1. janúar er bókað að barnsfaðir Önnu hafi ruðst inn til hennar og hafi numið dóttur þeirra á brott. Fyrir liggur einnig að Anna lagði fram kæru á hendur manninum 16. janúar sama ár fyrir heimilisofbeldi, líkamsárás og hótanir sem áttu sér stað árið 2012.
Í apríl árið 2017 var lögregla kölluð til vegna áreitis mannsins á hendur Önnu. Lögregla ræddi þá við manninn, sem staddur var fyrir utan fjölbýlishús sem Anna bjó í með dóttur sinni. Í samtali við lögreglu hélt hann því fram að Anna væri í rugli og hann væri þar kominn til að vita hvort allt væri í lagi með dóttur hans. Lögregla ræddi því næst við Önnu og er því lýst að henni hafi verið mikið niðri fyrir og hafi sagt manninn ofsækja sig. „Annars var hún í mjög góðu standi, sem og dóttirin, og íbúðin mjög snyrtileg,“ segir í bókun lögreglu. Afleiðingar áreitisins voru þær að í maí var loks samþykkt sex mánaða nálgunarbann á hendur manninum.
Þrátt fyrir að Anna hafi í tvígang kært manninn og lögregla hafi ítrekað haft af honum afskipti; fengið í hendurnar gögn sem sýna hótanir hans og áreiti, hefur ekki verið gefin út ákæra á hendur honum.
Notaði morð á ungri konu sem hótun
Meðal þess ofbeldis sem Anna mátti sæta af hendi mannsins voru ótölulegur fjöldi skilaboða þar sem hann hafði með ýmsum hætti í hótunum við hana. Meðal annars fékk Anna skilaboð árið 2017 þar sem sagði: „I don‘t want u to end like Birna“ eða „Ég vil ekki að það fari fyrir þér eins og Birnu“. Var þar verið að vísa til hins hörmulega morðs á Birnu Brjánsdóttur sem skók íslensku þjóðina á þeim tíma. Stundin hefur undir höndum gögn sem sýna tugi símtala, smáskilaboða og skilaboða í gegnum samfélagsmiðla frá barnsföðurnum til Önnu, sum hver ítrekuð sama dag. Í þeim má lesa hótanir og áreitni, dónaskap, afskiptasemi og yfirgang mannsins. Þannig sendi maðurinn henni til að mynda skilaboð árið 2017 þar sem segir að ef hún hringi ekki í hann innan tíu mínútna muni fara mjög illa fyrir henni. Sömuleiðis muni koma sá tími að hún þurfi að gjalda fyrir gjörðir sínar, hún muni þjást. Þá sendi hann skilaboð, eftir að Anna hafði blokkað hann á samfélagsmiðlum, þar sem segir að ef hún opni ekki aftur fyrir hann þá sverji hann að hann muni koma „og laga allt til frambúðar í kvöld.“ Ljóst er að um hótun er að ræða.
Anna hafði samband við þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar árið 2020 og óskaði eftir aðstoð vegna stöðunar. Niðurstaðan af þeirri beðni var sú að hún og barnsfaðir hennar voru send í Foreldrahús þar sem þau voru í viðtölum um nokkurra mánaða skeið. „En það var bara ekkert hægt að semja við þennan mann. Hann var ekkert að samþykkja að fá hjálp og hann vildi ekkert samþykkja að hegðun hans væri slæm fyrir dóttur sína. Þess vegna var tekin ákvörðun um að halda ekki áfram viðtölum, því við náum ekki sáttum. Svo staðan var bara sú sama.“
Líðan dóttur skiptir öllu máli
Anna segir að hún vilji að samskiptin þeirra á milli séu góð, dóttur þeirra vegna. Hún geti hins vegar ekki greint að barnsfaðir hennar sýni nokkurn vilja til þess. Dóttur þeirra líði mjög illa vegna þess hversu erfið samskipti séu á milli foreldra hennar. Hún hafi farið í þjónustumiðstöð í sálfræðitíma en sé mjög lokuð með líðan sína. „Hún segir bara mjög jákvæða hluti. En það sem ég upplifi og heyri frá henni er í rauninni bæði.“
Anna ber að eftir umgengnishelgi hjá föður sínum sumarið 2020 hafi dóttir þeirra komið heim og talað mjög vel um föður sinn, svo vel að það hafi vakið undrun hennar. Þegar hún hafi gengið á dóttur sína hafi hún lýst því að faðir hennar hafi lofað að borga henni tíu þúsund krónur fyrir að tala vel um sig á heimili þeirra Önnu. Þá kemur fram í minnisblaði Barnaverndar frá meðferðarfundi að stúlkan ber að faðir hennar lofi henni ýmsu sem hann standi síðan ekki við.
„Ekki þykir tilefni til afskipta af hálfu barnarverndaryfirvalda“
Á fyrri hluta ársins 2017 sendi Barnavernd Reykjavíkur í fimmgang bréf til Önnu þess efnis að mótteknar hefðu verið lögregluskýrslur vegna áreitis barnsföður hennar, vegna ágreinings þeirra á milli, vegna kæru hennar á hendur honum og vegna húsbrots, auk annars. Þá var Barnavernd sömuleiðis upplýst um að nálgunarbann á hendur manninum hefði verið samþykkt. Í öllum bréfunum sagði: „Ekki þykir tilefni til afskipta af hálfu barnarverndaryfirvalda.“ Tvær slíkar tilkynningar liggja fyrir á árinu 2018 og segir hið sama í þeim bréfum Barnaverndar.
Til eru upptökur af manninum þar sem hann ræðir við dóttur í símtali og hvetur hana til að spyrja móður sína út í þungunarrof sem hún hefði farið í. Þá var barnið á áttunda ári. Anna heldur því fram að með því hafi barnsfaðir hennar verið að reyna að sýna dóttur fram á hversu vond Anna væri, að hafa ekki viljað eiga barnið. Á sama tíma mun sambýliskona föðurins hafa verið ófrísk. Anna og barnsfaðir jennar slitu sem fyrr segir sambandi árið 2015. Eftir það komst Anna að því að hún væri þunguð og tók hún ákvörðun um að fara í þungunarrof þar eð hún treysti sér ekki til að eiga annað barn með manninum.
Anna segir að dóttir hennar vilji fara til föður síns enda sakni hún hans á þeim tveimur vikum sem líði milli umgengni. Það sé skiljanlegt. „Ég hef aldrei verið á móti að þau hittist tvö. Aldrei. En ég sé með tímanum að ég þarf að minnka þetta. Af því að eftir því sem hún er eldri þá tekur hún í sig meiri áhrif.
[...]
Stundum kemur hún sár heim, stundum kemur hún glöð heim. Það er ekkert alltaf að hún er að gráta og svona, hún er glöð líka að sjá bróður sinn, að fara til hans. En núna þegar hún er að verða eldri, þá hefur þetta meiri áhrif. Það var verið að tala um ofbeldi í skólanum, og hún kom til mín og spurði: Mamma, hvað er ofbeldi? Ég sagði að það væri ekki góð framkoma einnar manneskju við aðra manneskju. Þá sagði hún: Alveg eins og pabbi var við þig. Þannig að hún sjálf setti dæmi. Hún er mjög klár stelpa, hún er mjög góð stelpa. Og ég bara get ekki horft upp á svona framkomu föður við hana.“
Dóttir vill ekki hitta föður sinn lengur
Í lok síðasta árs varð dóttir þeirra sár út í föður sinn og ákvað að hún vildi ekki fara til hans í umgengni. „Ég sagði: Þú ræður,“ segir Anna og bætir við að hún hafi útskýrt stöðun fyrir föður, að dóttir hans væri ekki búin að útiloka hann en hún kæmi ekki til hans í einhvern tíma. Það varð raunin en við því hafi faðir brugðist ókvæða. „Hann fer til sýslumanns og sækir um dagsektir. Hann fer á föstudegi og á mánudegi fæ ég strax tölvupóst um að mæta vegna dagsekta. Ég mæti þarna og mér var sagt að þetta mætti ég ekki gera, ég væri að brjóta lög þar sem að í gildi væri umgengnissamningur. Það var ekkert hlustað á ástæðurnar fyrir ákvörðuninni.“
Barnsfaðir Önnu hefur hins vegar sjálfur ítrekað brotið umgengnissamning sjálfur, samkvæmt frásögn hennar sem fær stuðning í gögnum. Þannig hafi hann ítrekað ekki sótt barnið á leikskóla þegar hún hafi átt að vera í umgengni við hann. „Það hefur oft verið þannig að það var hringt úr leikskóla í mig og sagt að hún væri ennþá eftir, hún hefði ekki verið sótt. Leikskolinn hafi verið að reyna að hringja í hann en hann ekki svarað síma. Þannig að ég fer og sæki barnið en svo birtist hann allt í einu klukkan sjö eða átt og segist vilja fá hana. Og það var sagt við mig: Við megum ekki pína föður til að sækja barnið ef hann vill ekki.“
Anna segir að staða mála nú sé ögn skárri en verið hefur, hvað varðar áreiti barnsföður hennar í hennar garð. En áreitið hætti þó ekki. „Þetta mun aldrei hætta. Núna stjórnar sýslumaður í rauninni og þau geta haft áhrif á hann. Hann er ekki mikið að beita ofbeldi gagnvart mér núna, af því að hann er með konu og af því hann má ekki koma nálægt mér, hann má ekki tala við mig. Þannig að þetta er bara gott fyrir mig. En stelpan fer enn til hans, og ég veit ekki hvað er að gerast þarna þessar helgar gott eða vont eða.“
Spurð hvaða vonir hún hafi í brjósti sér um framtíðina segist Anna vonast til að barnsfaðir sinn leiti sér hjálpar og að hann breyti hegðun sinni gagnvart dóttur þeirra. „Þetta er ein óskin mín. Að hún sjái hvað hún á í rauninni góðan föður. Hún vill það sjálf, hún vill segja vinum sínum að hún eigi góðan föður. Ekki bara aðra hvora helgi, heldur líka daglega. Og segja frá góðum hlutum, ekki bara hann keypti og gaf mér ekki. Hann er að lofa, hann er alltaf að lofa henni. Ég vil að hann sýni henni betra dæmi af sjálfum sér. Hann hefur verið vondur við mig. Hann er búinn að gera mjög vonda hluti við mig. En mig langar að hann geri ekki svona við dóttur okkar.“
Athugasemdir (1)