Ólígarki er í hugum flestra skuggalegur Rússi á einkaþotu sem hefur hagnast á því að gleypa í sig almannaeigur og þá gjarnan í skjóli spilltra stjórnmálamanna og ringlulreiðar sem skapast við sölu og úthlutun á ríkiseignum. Meira hyskið, sögðum við á innsoginu þegar risaskúta ólígarkans fyllti Eyjafjörðinn svo hann virkaði dögum saman eins og ómerkilegt útskot eða smávík. Það var þessar vikur þarna í fyrra þegar eigandinn skoðaði viðskiptatækifæri á Íslandi. Nú ku þessi sama skúta hafa verið gerð upptæk. Eða það segir sagan.
Er á meðan er.
Orðið oligárkhēs er úr grísku og táknar valdakerfi þar sem samfélagsvöldin eru í höndum örfárra einstaklinga sem hafa gefið sér þau og fengið þau gefins. Þetta er mörg þúsund ára gamalt fyrirbæri í mannkynssögunni. Samfélagsstaða ólíkarka hefur verið afar mismunandi í gegnum tíðina og stundum hefur mátt greina hana út frá stétt eða titlum, frægð, efnahag, menntun, eignastöðu, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða hernaðarvaldi, samkvæmt orðabók. En aðallega hafa ólígarkar einfaldlega náð sterkustu valdastöðu á skömmum tíma og oftar en ekki með óprúttnum aðferðum. Fáveldi er svo íslenska þýðingin á oligárkhēs og ólígarkar allra landa eiga það sameiginlegt að skáka lýðveldi og skapa fáveldi. Þetta eru aðstæðurnar sem myndast þegar rækta á frjálshyggju í lýðræðiskerfi. Dálítið eins og að hræra saman vatni og olíu.
Fáveldið býður aldrei upp á jöfnuð en beinlínis þrífst á ójöfnuði. Fáveldið byggir líka á því að auður ólígarkanna erfist svo næsta kynslóð stækki fjölskylduveldið með frekari fjárfestingum í öðrum og ólíkum innviðum samfélaga. Þannig hleðst auður fáveldisins hratt upp á milli kynslóða og verður lögleg eign afkomenda. Það verður líka næsta ómögulegt að vinda ofan af fáveldinu – skyldi einhverjum hugnast það. Þetta kerfi er auðvitað gamalt og margnota og hefur þráfalt sett af stað róstur og byltingar hér og hvar í gegnum aldirnar þegar alvarlega þrengir að almúganum.
Sýndarlýðræði
Til eru hagfræðingar sem færa rök fyrir því að fáveldið sé í raun stjórnkerfi sem nú breiðist hratt um heiminn á 21. öld og sé í raun hið eiginlega stjórnkerfi í Bandaríkjunum. Þeir hinir sömu segja að þannig búi fjölmargar þjóðir við nokkurs konar sýndarlýðræði þar sem fjöldinn hafi á tilfinningunni að hann stjórni tilvist sinni með kosningum á fjögurra ára fresti en í raun sé það fáveldið sem stýri för. Að kapítalið á fárra manna höndum sé maskínan sem ræður samfélagsmyndinni. Og það er einmitt þessi eitt prósent-klúbbur sem á mestallan auð veraldar. Fyrir þessu fólki er heimurinn eitt stórt spilavíti. Tækifæri, sambönd og þvottastöðvar fyrir peninga og hugsjónir. Lundúnaborg er kölluð Londongrad en er alls ekki bara leikvöllur rússneskra ólígarka. Og kerfin, með öllum sínum götum, bjóða upp á endalausar leiðir til að hrifsa til sín, moka undir sig og stækka sjóði sem eru fyrir löngu orðnir alltof stórir.
Svona gengur þetta í fáveldinu og markmið kerfisins er að ólígarkarnir verði svo fjársterkir og valdamiklir í skjóli eigna sinna að lýðveldið bogni undan fáveldinu. Ójöfnuður eykst og verður stjórntæki til þess að halda í völd og auka völd. Svo þegar samfélagsstaða ólígarkanna er gagnrýnd, og ef þeir verða uppvísir að lögbrotum, þá bregðast þeir sjálfir harðast við, því sókn er besta vörnin. Þá hóta þeir að hverfa á brott með sitt illa fengna fjármagn og svipta samfélögin lifibrauði. Gömul saga og ný. Allt þetta gerist á meðan við hin segjumst vera að skapa nútíma lýðræðissamfélög sem byggi á jöfnuði og réttlæti. Þetta er sagan endalausa sem hagfræðingar klóra sér í hausnum yfir. Ólígarkar heimsins arfleiða börnin unnvörpum að auðlindum og fjármagni til þess að hraða löggildingarferli, fela slóðir og fjölga fjármögnunarleiðum inn í framtíðina.
Endurmiðlun og millifærsla
Hagfræðingar skeggræða svo hvernig hægt sé að vinda ofan af þessari frumstæðu samfélagsmynd og færu leiðirnar eru að endurmiðla og millifæra í gegnum skattheimtu, velferðarkerfi, almannaþjónustu, peningastefnu og með eignaupptöku. Það getur verið prýðileg eftir-á-redding þegar búið er að framselja þjóðareignir.
Jájá. Svona er þetta í grófum dráttum úti í hinum stóra heimi. Og hvað kemur það svo sem okkur við? Hér á hjaranum? Við eigum enga ólígarka. Hér eru nú allir frekar jafnir. Einhverjir mögulega aðeins jafnari en aðrir. Það er svona eins og gengur og gerist. Hér er ekki búið að yfirtaka almannaeigur, innviði, auðlindir og grunnþjónustu. Neinei. Hér hefur enginn arfleitt börnin sín að þjóðareignum. Hér hefur enginn forðað fjármagni í skattaskjól og ekki notað afrakstur almenningseigna til að ljúga og stela í fátækari ríkjum. Nei, hér hefur enginn orðið stærri en stjórnvaldið og tekið yfir. Hér er enginn á fleygiferð að einkavæða vindinn og vatnið og allt það sem getur talist til almannaeigna.
Jú, víst og þeir sem trúa svona möntrum búa í Stubbalandi.
Auðvitað eigum við okkar ólígarka. Við bjóðum upp á guggur og gæja, brimara og samherja sem eru vakandi á meðan við sofum. Þau vaka til að styrkja fáveldið svo börnin erfi, viðhaldi og styrki fáveldið til framtíðar.
Tilfinning um óréttlæti
Nýverið skipaði matvælaráðherra Íslands tuttugu og sjö manna samráðsnefnd stjórnmálamanna og hagsmunaaðila og að auki fjórar undirnefndir sem bera heitin: Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri. Fjölmargar frægar silkihúfur úr íslensku stjórnmála- og atvinnulífi eru mættar í þetta mikla nefndarstarf og ætlunin er að leggja til breytingar á sjávarútvegskerfinu. Þannig að þarna er sumsé verið að reyna að vinda ofan af fáveldinu með því mögulega að endurmiðla og millifæra til almennings. Ráðherrann segir ástæðuna fyrir þessu útspili vera: ,,... að meðal almennings ríki djúpstæð tilfinning um óréttlæti sem stafi af samþjöppun veiðiheimilda og að ágóðanum sé ekki skipt á réttlátan hátt.“
En hvað finnst ráðherranum sjálfum? Og hvað finnst þeim öllum, þessum ráðherrum og þingmönnum, um samþjöppun eigna og óréttláta skiptingu ágóða? Það kemur ekki fram við stofnun allra þessara nefnda. Það kemur bara fram að það þurfi að stofna nefndirnar vegna þess að almenningur sé með djúpstæða tilfinningu um óréttlæti. Kannski er ég með hártoganir. Kannski er öll ríkisstjórnin og þingmenn allir með djúpstæða tilfinningu um óréttlæti. Kannski þora þau bara ekki að segja það af ótta við fáveldið, hið ríkjandi fáveldi. Og ef til vill kemur eitthvað stórfenglegt út úr nefndarstarfinu mikla. Mögulega endurheimtir þjóðin þessa auðlind eða bara nær að rukka eitthvað aðeins meira fyrir hana.
Og hvað þá með aðrar auðlindir og aðra ólígarka? Af nægu er að taka. Þetta er sagan endalausa.
Þessi þjóð er lítil eftirherma af öðrum samfélögum. Þannig höfum við alltaf verið. Og nú hefur okkur tekist á skömmum tíma að stofna fáveldið Ísland.
Þetta vita allir en hvað svo?
Ég er með uppreisn.is, byrjar allt á samskiptatækninni. Þurfum að komast út úr facebook.
Þið eruð á réttri leið kæru félagar,sölsið allar auðlindir sem í boði eru...ykkur hefur farnast vel í spillingunni fram að þessu...öfundarmenn ykkar eru margir og slóttugir.
Baráttukveðja frá Minsk.
Ljúkashenko einvaldur Hvíta Rússlands.