Kæra þjóð
Stærsta ferðahelgi ársins er framundan og kannski ert þú á leið á eina af fjöldamörgum skemmtunum sem haldnar verða. Kannski ertu að fara á Þjóðhátíð með pollabuxur í farteskinu til að haldast þurr á rassinum í brekkusöngnum. Kannski hlakkar þú til að sjá leðjuna fljúga í mýrarboltanum á Bolungarvík eða neistana á Neskaupsstað. Hvað sem þú kýst að gera vona ég innilega að þú skemmtir þér vel. Ég vona líka að þú verðir ekki á vegi mannsins sem nauðgaði mér.
Ef þér brá við að lesa síðustu setningu, og fylltist annaðhvort andúð eða samúð, skil ég þig vel. Ofbeldismál eru óþægileg og þrúgandi, í skerandi mótsögn við gleði og glaum verslunarmannahelgarinnar sem bíður þín. Það er þægilegt að treysta á réttarkerfið til að skera úr um sakleysi eða sekt fólks, svo þú þurfir ekki að taka persónulega afstöðu.
Nú er rúmlega hálft ár síðan ég fékk staðfest að nauðgunarmáli mínu yrði ekki áfrýjað til Hæstaréttar, og að þriggja og hálfs árs þrautargöngu minni í gegnum réttarkerfið væri þar með lokið.
Sérlega sársaukafull og meiðandi árás
Morguninn sem mér var nauðgað var bjartur og fallegur. Sólstafirnir stungu sér inn um gluggann, langir og blaktandi eins og glóandi pálmatréslauf sem breiddu úr sér á gólfteppinu, innan um blóðkámið. Tilviljun réði því að ég var ein innan fjögurra veggja með geranda mínum, sem var áratug eldri en ég og ég þekkti lítið sem ekkert. Ég var allsgáð þegar árásin átti sér stað, en hún var svo hrottafengin að héraðsdómarinn leit til 195. greinar almennra hegningarlaga í niðurstöðu sinni. Sú grein á við þegar ofbeldi geranda er „stórfellt“ og nauðgunin er framin á „sérlega sársaukafullan eða meiðandi hátt“. Þeir áverkar mínir sem skráðir voru á Neyðarmóttöku daginn eftir árásina voru núningssár á utanverðu vinstra hné, marblettur á innanverðu vinstra hné, marblettur á innanverðu vinstra læri, marblettur á hægra hnénu utanverðu, fjölmargir marblettir á framhandleggjum bæði hægra og vinstra megin, núningssár á olnboga hægra megin, 10 fersentímetra mar undir vinstra viðbeini, rispa á kviðnum undir vinstra brjósti, marblettir á utanverðu hægra læri, marblettur á hægri mjöðm og þrjár sprungur við leggangaop.
Verður þú með geranda mínum?
Gerandi minn var fundinn sekur, bæði í héraðsdómi og Landsrétti, og dæmdur í þriggja ára fangelsi. Í báðum tilvikum var dómur hans hins vegar skilorðsbundinn að fullu, sem þýðir að hann mun aldrei verja neinum tíma bakvið lás og slá. Þrátt fyrir að vera nýlega tvídæmdur gæti hann því setið við hliðina á þér í brekkusöngnum, eða staðið fyrir aftan þig í klósettröðinni á Síldarævintýrinu. Rétt eins og þú er hann eflaust að skipuleggja verslunarmannahelgina sína, því hann er alveg jafn frjáls og hann var áður en hann var fundinn sekur um eitt svívirðilegasta brotið í mannlegu samfélagi.
„Þrátt fyrir að vera nýlega tvídæmdur gæti hann því setið við hliðina á þér í brekkusöngnum, eða staðið fyrir aftan þig í klósettröðinni á Síldarævintýrinu“
Mistök lögreglunnar
Rökstuðningurinn fyrir skilorðsbindingu dómsins var m.a. sá að rannsókn lögreglu hefði dregist á langinn og að langt væri um liðið frá brotinu, þótt ekki sé það fyrnt. Hvað lögregluna snertir stóð til að hún tæki skýrslu af mér og manninum mínum sama dag, en hann bar vitni í málinu. Skýrslutakan mín tók hins vegar lengri tíma en áætlað var og klukkan var orðin margt þegar henni lauk. Ég og maðurinn minn töldum að hans skýrslutaka myndi þá færast yfir á næsta dag. Okkur datt ekki í hug að lögreglan myndi ekki hafa samband aftur fyrr en hálfu ári síðar. Sama má segja um skýrslutökuna yfir geranda mínum, en þegar henni lauk kom í ljós að upptökutækið hafði klikkað. Lögreglunni hefði verið í lófa lagið að kalla hann strax inn aftur þegar þetta uppgötvaðist, en það gerðist ekki heldur fyrr en hálfu ári síðar. Ég get ekki ímyndað mér neinn annan vinnustað þar sem það myndi líðast að starfsmenn frestuðu því að leiðrétta eigin mistök að jafnaði í sex mánuði, á meðan verkefnið sjálft sæti á hakanum. Þó var Covid-faraldurinn ekki einu sinni hafinn.
Drottnunargjarn lygari
Þar sem mikið var af sterkum sönnunargögnum í málinu var málsvörn geranda míns örvæntingarfull og óvægin, enda byggði hún alfarið á því að rýra trúverðugleika minn. Ég var sögð drottnunargjarn lygari, bæði í dómssal og utan hans. Ég átti að hafa valdið áverkunum sjálf, ég var sögð búa yfir „sjúkum hugarheimi“ og vegið var gróflega að starfsheiðri mínum. Landið er lítið og rógburðurinn blæddi út fyrir veggi réttarkerfisins og inn í starfsstéttina mína. Nokkrir gamlir vinnufélagar hættu að heilsa mér á almannafæri, sem var sárt en þó ekki eins sárt eins og uppgötvunin að ég var hætt að treysta fólki yfir höfuð. „Hún grét, var niðurdregin og öll nánd varð erfiðari,“ sagði maðurinn minn sorgmæddur fyrir dómi, aðspurður hvernig ég hefði breyst eftir ofbeldið. „Það var eins og það væri bara alltaf eitthvað á milli.“
Óviss hvort hnéskelin væri sprungin
Það er erfitt, næstum ómögulegt að útskýra fyrir öðrum hvað er á milli þolandans og umheimsins eftir nauðgun; filterinn sem myndast og litar alla sýn á lífið framvegis. Það er erfitt að útskýra hvernig heimsmynd mín breyttist sólríka morguninn þegar ég lá undir þungum, þvölum líkama geranda míns og virti fyrir mér blóðug fingraför á veggnum, þar sem hann hafði stutt sig augnabliki áður. Ég vissi að það væri úr mér, en ekki hvaðan mér blæddi, né hversu slösuð ég væri. Ég vissi ekki hvort hnéskelin á mér væri sprungin eða hvort viðbeinið hefði brotnað, eða hvort það hefði verið heimskulegt af mér að spyrna svona kröftuglega á móti. Skömmu síðar sat ég í hnipri ofan í baðkarinu og horfði á blóðpollinn vaxa útfrá mér, kringlóttur með tættum börmum, eins og rauður punktur á eftir ósagðri setningu sem ég reyndi af veikum mætti að mæla af vörum fyrir dómi mörgum árum seinna, þrátt fyrir niðrandi athugasemdir og frammíköll verjandans.
„Orðum mínum var mætt með skil-orðum; táknrænni gervirefsingu sem skal niður falla að þremur árum liðnum“
Orðum mínum var mætt með skil-orðum; táknrænni gervirefsingu sem skal niður falla að þremur árum liðnum, eins og þykjustuleikur sem allir geta hætt að taka þátt í eftir 36 mánuði. Ólíkt sakborningum mega þolendur ekki áfrýja málum sínum, svo ég hafði ekki um annað að velja en að kyngja niðurstöðunni.
Ólöglegt í nágrannaríkjunum
Ég gekk í gegnum sorgarferli í kjölfarið, yfir því að eftir þessa martraðarkenndu, þriggja og hálfs árs löngu þrautargöngu í gegnum réttarkerfið fyndist tveimur dómsstólum glæpurinn sem framinn var gegn mér ekki alvarlegri en svo að gerandi minn má að vakna undir eigin þaki á morgnana, njóta samvista við hvern sem hann lystir, mæta í vinnu og fara frjáls ferða sinna – hvort sem leið hans liggur á útihátíð um verslunarmannahelgina eða bara í út í sólina í eigin garði. Ég varð ekkert hissa þegar ég rakst á niðurstöður stórrar rannsóknar sem sýnir að þolendur sem kæra nauðgun eiga óhamingjusamari ævi og glíma við meiri vanheilsu heldur en þolendur sem kæra ekki.
Vinkona mín sem býr í öðru Norðurlandi hristi hausinn vantrúuð þegar ég sagði henni frá dóminum og útskýrði að það sé ólöglegt að skilorðsbinda nauðgunardóma að fullu, ég hlyti að vera að misskilja eitthvað. Við höfðum báðar rétt fyrir okkur; lög sem banna skilorðsbundna dóma fyrir alvarleg ofbeldisbrot gilda víða um heim, en þó ekki á Íslandi. Hérlendis eru engar hömlur á því hvernig dómarar mega beita skilorði, ekki einu sinni í morðmálum.
Heimtufrekja eða réttlæti?
„Þú vannst samt,“ sagði löglærður spekúlant sem ég leitaði til í skilningsleysi mínu. „Maðurinn hlaut dóm. Hvað viltu meir?“ Undirtónninn var að ég ætti bara að vera þakklát fyrir að réttarkerfið hafi yfir höfuð viðurkennt að ofbeldið hefði átt sér stað. Hvurslags heimtufrekja er það eiginlega að ætlast til að gerandinn taki ábyrgð á gjörðum sínum í ofanálag og sæti refsivist? Gaslýsingin var slík að mig svimaði. Upp er niður. Refsing er refsileysi. Sektardómur er frelsi. Maðurinn er kominn á sakaskrá, þú sigraðir, vertu ekki svona hefnigjörn, varla viltu taka hann af lífi?
„Maðurinn hlaut dóm. Hvað viltu meir?“
Ég herti upp hugann og ákvað að ég þyrfti að halda áfram með lífið, hugsa um eitthvað annað. Opnaði vísi.is þar sem við blasti frétt um geranda sem hlaut tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir nauðgun með alltof kunnuglegum rökum, rannsóknin dróst á langinn, langt um liðið frá brotinu. Las um fleiri skilorð, áttaði mig á að við erum margar sem réttarkerfið ákvað að neita um réttlæti, langoftast vegna eigin hægagangs og vanhæfni. Ég hugsa um skilorðssystur mínar og velti fyrir mér hvort dómurinn hafi líka rýrt sjálfsvirðinguna þeirra, hvort niðurstaðan hefði verið önnur ef þær væru karlkyns? Ég velti fyrir mér hvernig þeim líði með að geta hvenær sem er rekist á geranda sinn, hvort þær hafi leyst vandamálið með því að flytja einhvert annað, hvort þær treysti sér á útihátíð um verslunarmannahelgina eða hvort þær séu á skilorði heima hjá sér?
Við eigum betra skilið
Kæra þjóð, ég vona að þið njótið ykkar um komandi helgi, sem er því miður þekkt fyrir fjölda kynferðisbrota. Ef einhver í lífi þínu verður fyrir slíku ofbeldi, og telur ekki þess virði að kæra, vona ég að þú sýnir því skilning og áttir þig á hvaða hlutverki réttarkerfið gegnir í að viðhalda vandamálinu. Ég vona líka að þér finnist við öll eiga betra skilið. Fyrsta skrefið í átt til breytinga er ákvörðun þín um að þú viljir búa í samfélagi þar sem réttarkerfið tekur skýra afstöðu gegn ofbeldi. Ekki eftirláta þolendum einum þá baráttu. Það er óraunhæft að ætlast til að þau, sem kerfið brýtur grófast gegn, lagfæri það líka.
Höfundur er þolandi 1.639 í gögnum Neyðarmóttökunnar
Athugasemdir