Undanfarin tvö ár hef ég sett sjálfum mér það heit að hafa færri skoðanir. Að hafa ekki skoðun á öllu og segja oftar „veistu, mér er bara alveg sama“. Þetta hefur verið mjög frelsandi og gefið mér meiri tíma til að hugsa um það sem ég raunverulega hef gaman af eða hef forsendur til að vita eitthvað um. Að melta hlutina áður en ég segi eitthvað um þá.
Stundum tekst þetta og stundum alls ekki. Þetta er æfing sem verður yfirstandandi í ófyrirséðan tíma og hefur engan endapunkt. Æfingin er auðvitað fyrst og fremst fyrir mig. Og kannski konuna mína. Og samstarfsfólk. Þau þurfa nú að þola færri illa ígrundaðar yfirlýsingar, þó mögulega fylgi bara enn fleiri sem mér finnst sjálfum voða gáfulegar. Mér líður alla vega betur sjálfum.
„Þröskuldur þessa hóps, sem nær allt eru karlar sem líta út eins og ég en eru aðeins eldri, til að taka pláss í umræðunni var lengi vel sá að stofna Moggablogg“
Á sama tíma er þó hópur, frekar þröngur, sem hefur tekið allt annan pól í hæðina. Ekki bara að hafa sem flestar skoðanir á sem ólíkustu málum, heldur leggur hópurinn mikið á sig til að koma þessum skoðunum á framfæri og fanga athygli. Þeim mun sterkari viðbrögð, þeim mun ánægðari. Þröskuldur þessa hóps, sem nær allt eru karlar sem líta út eins og ég en eru aðeins eldri, til að taka pláss í umræðunni var lengi vel sá að stofna Moggablogg. Það varð hins vegar fljótt mjög auðvelt og áhrifamátturinn og athyglin sem bloggið fékk dvínaði.
Þá kom sér vel að þetta er einmitt sami hópurinn og hefur ánægju af því að lesa reglur. Því í reglunum fannst lausnin til að útvarpa skoðunum og þvinga fólk til að hlusta. Kosningalög.
Með örfáum undirskriftum (160 í Reykjavík) er hægt að tryggja sér aðgang að nær allri kosningaumfjöllun. Með örfáum undirskriftum getur þú krafist þess að mæta í kappræður í beinni útsendingu á RÚV. Þar mátt þú segja hvað sem er. Þar mátt þú láta eins og á Moggablogginu, með þeim skýra mun að kjósendur eru þvingaðir til að hlusta.
Kannski er þetta upphafið að því að ég kveðji áramótaheitið um færri skoðanir og bjóði mig bara fram til að segja ykkur hvað mér finnst um þetta fólk.
Athugasemdir