Kæri lesandi. Í dag göngum við til kosninga til sveitarstjórna. Í dag markar atkvæði okkar stefnuna í stjórn sveitarfélagsins okkar til næstu fjögurra ára. Ég hef síðustu vikur og mánuði sem oddviti Framsóknar í Reykjavík átt mörg og gefandi samtöl við borgarbúa um þarfir þeirra og væntingar til borgarinnar okkar. Ég hef fundið fyrir miklum meðbyr og fyrir það er ég þakklátur.
Sterk Framsókn fyrir borgarbúa
Við höfum á síðustu árum horft upp á mikla skautun í samfélaginu sem birtist í harðari átökum í stjórnmálum. Framsókn hefur komið fram sem sterkur fulltrúi miðjunnar í íslenskum stjórnmálum og staðið fyrir hófsömum gildum. Við erum lausnamiðuð og umburðarlynd og höfum unnið hörðum höndum að umbótum í íslensku samfélagi á vettvangi landsmálanna. Í samtölum mínum við Reykvíkinga hef ég fundið fyrir því að það þarf sterka Framsókn í borgarstjórn.
Meirihlutinn hefur sofið á verðinum
Það er margt gott í borginni okkar en það er fjölmargt sem þarf að bæta. Meirihluti síðustu ára hefur sofið á verðinum hvað varðar uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Um það eru allir sammála, Seðlabankinn, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, íbúar borgarinnar, íbúar landsins; allir nema meirihlutinn í borgarstjórn sem hefur lagt alla áherslu á borgarlínu en gleymt húsnæðismálunum. Afleiðingarnar eru stórkostleg hækkun á húsnæði, hækkun vaxta og verðtryggðra lána. Þessari þróun verður að snúa við. Það þolir enga bið. Lausnin er að mínu mati augljós: Borgarstjórn verður að segja skilið við trúarbrögðin sem boða það að eina leiðin sé þétting byggðar. Við þurfum líka að byggja ný hverfi og skapa þannig jafnvægi á húsnæðismarkaði.
Stór hluti ungs fólks hefur ekki ráð á því að koma sér þaki yfir höfuðið. Við getum ekki búið við það að eina leiðin fyrir ungt fólk til að eignast húsnæði sé með veðsetningu foreldra og annarra aðstandenda. Húsnæði er ekki munaðarvara, húsnæði er ekki áhættufjárfesting, húsnæði á að vera sjálfsögð lífsgæði.
Framsókn gefur þér valkosti
Framsókn hefur ekki átt borgarfulltrúa síðustu árin en samt hefur flokkurinn, með Sigurð Inga Jóhannsson í forystu verið í lykilhlutverki við það að leysa borgina úr klakaböndum sem ríkt höfðu í áratugi í samgöngumálum höfuðborgarinnar. Samgöngusáttmáli Sigurðar Inga rauf kyrrstöðuna. Uppbygging stofnbrauta til að greiða leið fjölskyldubílsins og uppbygging almenningssamgangna eru ekki andstæður heldur styðja hvor aðra. Markmiðið er greiðari og öruggari umferð fyrir alla borgarbúa. Við í Framsókn ætlum ekki að segja þér, lesandi góður, hvernig þú ferð til og frá vinnu heldur bjóða þér upp á valkosti sem henta þér.
„Framtíðin er líka á morgun“
Núverandi meirihluti hefur mikið talað um framtíðina. Táknmynd framtíðarinnar í þeirra huga er borgarlína. Núverandi meirihluti hefur hins vegar ekki verið samstíga og í raun verið undarlega áhugalaus um arðsömustu samgönguframkvæmd Íslandssögunnar, Sundabraut. Í uppbyggingu Sundabrautar hefur Framsókn dregið vagninn. Og Sundabraut mun ekki aðeins bæta verulega tengingu borgarinnar við Vesturland heldur bæta samgöngur milli borgarhverfanna. Íbúar Grafarvogs og Kjalarness munu upplifa byltingu í samgöngum. Og með Sundabraut sparast 150 þúsund kílómetra akstur á degi hverjum.
Þjónustuna verður að bæta
Framtíðin er ekki bara hvernig borgin lítur út eftir 10 ár. Framtíðin er líka á morgun. Þessu hefur meirihlutinn í borgarstjórn gleymt. Borgarbúar upplifa að þjónusta borgarinnar sé verri en annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sorphirða, snjómokstur, óviðunandi viðhald skólabygginga með þeim afleiðingum að hundruð barna eru keyrð milli hverfa á hverjum degi, allt er þetta vitnisburður um það að meirihlutinn hefur verið sofandi þegar kemur að daglegu lífi borgarbúa. Þessu verður að breyta.
Breytingar í borginni
Kæri lesandi. Sterk Framsókn í borginni er lykill að breytingum. Lykill að breyttum stjórnmálum í borginni, lykill að meiri uppbyggingu, meiri sátt og meira samtali við borgarbúa. Atkvæði þitt getur brotið upp meirihlutann í borginni og haft úrslitaáhrif um stjórn borgarinnar næstu fjögur árin. Ég bið um þinn stuðning í kjörklefanum í dag. X við B er stuðningur við breytingar í borginni.
Framsókn er varðstöðuflokkur um óbreytt ástand. Um misvægi atkvæða, um óbreytt ástand í sjávarútvegi og landbúnaði, um lykilinn að völdum valdanna vegna, hækja íhaldsins.
Óbreytt ástand varðandi stjórnarskrá lýðveldisins, og svo mætti lengi telja.