Ágætu borgarbúar,
Í dag verður gengið til kosninga. Þetta hefur verið stutt og snörp kosningabarátta en á sama tíma langt atvinnuviðtal við borgarbúa og innan tíðar kemur í ljós hvort ég verði valinn af Reykvíkingum til að standa vörð um hagsmuni þeirra. Ég er með 12 ára sveitarstjórnarreynslu sem sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og hef einnig 12 ára reynslu sem sjálfstæður atvinnurekandi. Í störfum mínum hef ég ávallt viljað láta vekin tala, þau eru besta staðfestingin á því hver maður er, fyrir hvað maður stendur og segir svo miklu meira en einhver orð.
Ég hef ætíð verið til í stórar áskoranir og það sanna þau verkefni sem ég hef tekið að mér. Það var vissulega áskorun í því að bjóða mig fram fyrir Miðflokkinn til góðra verka fyrir borgarbúa.
Við sjáum það öll að borgarskútan hefur villst illilega af leið, hún hefur sett sérhagsmuni umfram hagsmuni íbúana í forgang á kostnað fjölskyldna og fyrirtækja í Reykjavík. Það sjáum við á endalausum biðlistum í nánast öllum málaflokkum, lögbundinni grunnþjónustu við borgarbúa. Það er aðeins um þriðjungur íbúa ánægðir með þjónustu borgarinnar og aðstæður fyrir ungar fjölskyldur til að lifa og starfa eru betri í öðrum sveitarfélögum.
Ég lofa ykkur því, að þessu er hægt að breyta. Til þess þurfa stjórnendur borgarinnar að viðurkenna vandann, að núverandi meirihluta hefur mistekist að rækja skyldur sínar gagnvart kjósendum í allt of mörg ár og við óbreytt ástand muni það halda áfram.
Fyrsta verkefnið mitt, ef ég fæ þitt umboð til þess, er að fá stjórnkerfið til að viðurkenna kerfisvandann, að horfast í augu við hann. Að stefnunni verði breytt með ákvörðunum sem allar miðast að því að að gæta að hagsmunum íbúa umfram sérhagsmuni. Það er stórt verkefni en ég er til í þá áskorun og ég veit að það er hægt fái ég til þess umboð.
Við sem þjóð höfum ætíð haft mikinn metnað í að vera best í heimi en því miður hefur núverandi stjórn Reykjavíkurborgar ekki sett metnað sinn í að höfuðborgin okkar sé meðal bestu borga í heimi.
„Við getum gert svo miklu betur í borginni“
Við eigum að setja okkur það sem markmið að Reykjavík verði sú borg sem sinnir íbúum sínum hvað best, veiti góð störf og góða þjónustu, verði grænasta borgin, sé fjárhagslega sjálfbær og veki athygli út fyrir landsteinana.
Ég veit í hjarta mínu að Miðflokkurinn getur verið raunverulegt breytingarafl til góðra verka eftir kosningar.
Hverju þarf að breyta?
Við verðum í samvinnu við stjórnvöld að grípa inn í ástandið á fasteignamarkaðinum þar sem hinn frjálsi markaður hefur brugðist og með aðgerðar- og áhugaleysi borgarinnar hafa hagsmunir íbúa verið fótum troðnir. Það er hægt með því að setja leiguþak á leigumarkaðinn og minnka um leið hvatann hjá fjármagnseigendum til að safna að sér eignum til að leigja út á uppsprengdu verði. Skipuleggjum miklu hraðar ný hverfi, flýtum uppbyggingu í skipulögðum hverfum og sinnum miklu betur úthverfum borgarinnar, þau hafa sum gleymst.
Við verðum að tryggja að flugvöllur allra landsmanna verði áfram í Reykjavík. Sú barátta er ekki töpuð. Við eigum að vinna að því að stytta ferðatíma í öllum samgöngum, ekki lengja hann eins og borgin stefnir að með því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Þá er hætta á því að innan fárra ára leggist innanlandsflug af á Íslandi. Það viljum við ekki.
Miðflokkurinn vill að borgarlínu draumurinn, sem er draumur núverandi borgarstjóra verði endurskoðaður strax eftir kosningar með það að leiðarljósi að tryggja samgöngur fyrir alla með miklu ódýrari lausnum. Er það gert með því að auka flæði umferðarinnar með betri ljósastýringum og mislægum gatnamótum. Þannig sköpum við einnig meira umferðaröryggi og stöndum vörð um að tryggja fólki val til að velja sinn eigin samgöngumáta.
Ég er tilbúinn í verkið. Ég tel mig hafa þá reynslu og þekkingu sem þarf til að rétta af stefnuna í öllum málaflokkum Reykjavíkurborgar.
Við getum gert svo miklu betur í borginni. Byrjum það umbreytingaferli strax eftir kosningar.
Athugasemdir